Fyrir breytingu Byggt verður ofan á lágreista húsið þar sem Tölvutek rekur nú verslun.
Fyrir breytingu Byggt verður ofan á lágreista húsið þar sem Tölvutek rekur nú verslun.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Borgarráð hefur samþykkt að auglýsa breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Hallarmúli 2. Nú er á lóðinni tveggja hæða verslunarhús en leyft verður að hækka bygginguna í fimm hæðir og innrétta þar hótel.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Borgarráð hefur samþykkt að auglýsa breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Hallarmúli 2. Nú er á lóðinni tveggja hæða verslunarhús en leyft verður að hækka bygginguna í fimm hæðir og innrétta þar hótel. Á næstu lóð, Suðurlandsbraut 2, er hótelið Hilton Reykjavík Nordica, níu hæða bygging.

Í skipulagslýsingu Yrki arkitekta, sem er grunnurinn að nýju deiliskipulagi, kemur fram að nýtingarhlutfall á reitnum verði aukið úr 0,99 í 2,11. Bygging ofanjarðar geti orðið allt að 6.800 fermetrar og einnig er gert ráð fyrir bílakjallara. Bílastæðum ofanjarðar á lóðinni mun fækka. Lóðin sjálf er alls 3.081 fermetri.

Á lóðinni stendur nú tveggja hæða verslunarhús, byggt 1971. Fyrirtækið Tölvutek rekur verslun í húsinu. Fram kemur í skipulagslýsingunni að gerð hafi verið frumathugun á burðarvirki núverandi húss með tilliti til þess að byggja ofan á það 6-8 hæðir. Niðurstaðan var sú að raunhæft sé að láta núverandi hús standa með því að fjarlægja þakið og styrkja burðarvirkið.

Ef í ljós komi engu að síður að ekki verði hægt að halda í núverandi byggingu og byggja ofan á hana verður heimilt að rífa hana og byggja í staðinn nýtt hús frá grunni.

Byggingin er í nokkrum halla. Efsta hæðin verðir inndregin en til vesturs mun hún stallast niður í 1. hæð. Gert er ráð fyrir gróðri á þaksvölum og gróðurveggjum sem myndi eins konar gróðurbrekku frá þaki niður á jörð. Inngangur verður frá Hallarmúla.

Fram kom í frétt í Morgunblaðinu í janúar síðastliðnum að Reykjavíkurborg hafi gert samkomulag við félagið HM2 ehf um uppbyggingu á lóðinni. Það er til heimilis í Borgartúni 24. Samkvæmt Creditinfo eiga þrír fjárfestar jafnan hlut í félaginu. Þeir heita Stefán Már Stefánsson, Ellert Aðalsteinsson og Elmar Freyr Jensen. Hin fyrirhugaða uppbygging á reitnum fellur undir samþykkt um samningsmarkmið Reykjavíkurborgar á nýjum uppbyggingarsvæðum vegna þéttingar byggðar sem samþykkt var á fundi borgarráðs 27. nóvember 2014, að því er fram kemur í minnisblaði skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg. Til stendur frekari uppbygging í Múlahverfinu enda bjóða margir reitir þar upp á frekari þróun og uppbyggingu.

Sem fyrr segir stendur eitt stærsta hótel Reykjavíkur, Hilton Reykjavík Nordica, á næstu lóð. Hótelið hét upphaflega Hótel Esja. Byggingin var stækkuð um 7.300 fermetra í byrjun þessarar aldar og við það fjölgaði herbergjum um 108 eða í 280.