Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Góðir innviðir eru nauðsynlegir svo að fyrirtækin í landinu geti þrifist vel. Sigurður R. Ragnarsson, forstjóri ÍAV, segir að í röskan áratug hafi fjárfesting í uppbyggingu innviða verið með minnsta móti og brýnt sé að ráðast í framkvæmdir á ýmsum sviðum. Um þetta fjallaði hann í pallborðsumræðum á Iðnþingi fyrr í mánuðinum.
Sigurður segir vegasamgöngur gott dæmi og bendir á hversu miklu var áorkað á árunum 1991 til 2006 á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess, en litlu eftir það og biðtími í kerfinu aukist verulega. „Ef við skoðum t.d. samgöngur á höfuðborgarsvæðinu þá var lyft grettistaki á þessu tímabili, s.s. með færslu Hringbrautar, mislægum gatnamótum við Skeiðarvog, tvöföldun Ártúnsbrekku og mislægum gatnamótum við Höfðabakka, Suðurlandsveg og upp í Grafarholt við Húsasmiðju, og áfram til norðurs með tvöföldun vegarins í gegnum Mosfellsbæ og byggingu Hvalfjarðarganga,“ segir hann.
Framkvæmdir sem hafa gefið góða raun
„Framkvæmdirnar voru ekki minni á norður/suður-ás höfuðborgarsvæðisins, með lagfæringum á gatnamótum Miklubrautar og Reykjanesbrautar, mislægum gatnamótum við Stekkjarbakka, við Mjódd, Smáralind, Arnarnesveg, Vífilsstaðaveg, Kaldárselsveg, Ásbraut og tvöföldun Reykjanesbrautar að stórum hluta. Allt var þetta afrekað á þessu fimmtán ára tímabili, en undanfarin tíu ár hefur nær ekkert gerst.“Segir Sigurður að sumir haldi þeim sjónarmiðum á lofti að ný umferðarmannvirki séu óþörf, og leysi engan vanda í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar. „En þessu má svara með því að biðja fólk að hverfa aftur til ársins 1991 og minnast þess hvernig ástandið var þá. Ef sömu sjónarmið hefðu orðið ofan á fyrir rösklega aldarfjórðungi byggjum við í dag við ástand sem enginn myndi vilja.“
Hann bætir við að auk þess að liðka fyrir samgöngum um alla höfuðborgina hafi þessar framkvæmdir greinlega fækkað slysum. „Á öllum þeim gatnamótum sem talin voru upp hér að framan voru árekstrar algengir, og oft um alvarleg slys að ræða og jafnvel banaslys. Með úthugsuðum framkvæmdum á þessum slysapunktum var slysunum nær útrýmt.“
Góðir hlutir gerast þar sem lagðir eru góðir vegir
Góðar vegasamgöngur skipta atvinnulífið miklu og segir Sigurður að fyrirtæki á landsbyggðinni standi frammi fyrir alvarlegum vanda vegna vega sem hafa fengið að grotna niður og ráða ekki við þá miklu aukningu umferðar sem orðið hefur á þjóðvegunum. Hann segir vissulega þörf á fleiri samgöngumannvirkjum í höfuðborginni en þar sé þó útlit fyrir að takist að halda yfirborði gatna í sæmilegu horfi með átaki sem hófst á síðasta ári og verður framhaldið á þessu..Slæmir vegir torvelda vöruflutninga og fæla frá ferðamenn á meðan góðir vegir leyfa gott flæði vöru, starfsfólks og innlendra jafnt sem erlendra ferðamanna. „Við sjáum það t.d. gerast með tvöföldun Reykjanesbrautarinnar og betri tengingum út frá höfuðborgarsvæðinu að búið er að stækka atvinnusvæðið og vaxandi fjöldi fólks sem getur búið í Reykjanesbæ, Hveragerði eða uppi á Akranesi en unnið í Reykjavik – eða öfugt. Tvöföldun Reykjanesbrautarinnar hafði í reynd þau áhrif að stytta ferðalagið á milli Reykjavíkur og byggðanna úti á Reykjanesi og vegurinn þar að auki orðinn mun öruggari, þó enn vanti herslumuninn sem drífa á í að ljúka.“
Sigurður minnir á að sagan sýni það glögglega að góðar samgöngur eru einn mikilvægasti áhrifaþátturinn hvað snýr að hagsæld þjóða. Þegar saga Íslands er skoðuð megi t.d. sjá hvernig bættar samgöngur innanlands og út í heim hafa skapað ný tækifæri og leiðir til tekjuöflunar. „Fyrir skemmstu las ég áhugaverða bók sem setti einmitt fram þá kenningu að betri samgöngur væru það sem einkum skýrði það forskot sem Evrópa hafði fyrr á öldum á heimshluta á borð við Afríku. Lönd Evrópu nutu góðs af því að þar mátti flytja vörur nokkuð greiðlega eftir ám sem liggja hér og þar um álfuna á meðan í Afríku voru sömu samgöngutækifærin ekki til staðar og því ekki sömu möguleikarnir til viðskipta á milli fjarlægra svæða. Með þetta í huga gætum við rétt ímyndað okkur hvernig atvinnulífið væri á Íslandi ef enn þyrfti að ferðast á einbreiðum og holóttum vegum hringinn í kringum landið, og hvaða tækifæri fyrir minni tafir í umferðinni, atvinnuuppbyggingu, ferðamennsku og öryggi vegfarenda gætu verið fólgin í að gera enn betur en við gerum í dag.“