Farartækið Eflaust þætti mörgum lesendum ekki amalegt að renna í hlað á vinnustaðnum á rennilegum Lamborghini, við undrun og aðdáun kolleganna. Verst hvað ítölsku sportbílarnir eru agalega dýrir og að kaupa þá varla nema á færi þeirra sem tekst að hreppa stóra vinninginn í Víkingalottóinu.
Þeir sem vilja engu að síður koma til vinnu á fararskjóta sem merktur er Lamborghini ættu að kíkja á P5X Lamborghini reiðhjólið frá Cervélo.
Cervélo er kanadískt fyrirtæki sem smíðar reiðhjól í hæsta gæðaflokki fyrir keppnisfólk. P5X hjólið er sniðið að þörfum þríþrautarfólks en í Lamborghini sérútgáfunni er búið að skreyta hjólhestinn með sama mynstri og finna má í Huracán sportbílnum og mála í sama heiðgula litnum og úðað er á tryllitækin sem renna út af færibandinu í Sant‘Agata Bolognese.
Um sérútgáfu er að ræða sem verður aðeins framleidd í 25 eintökum. Mun hvert hjól kosta í kringum tvær milljónir króna vestanhafs. ai@mbl.is