Gunnar Hafsteinn Elíasson fæddist í Reykjavík 24. febrúar 1931. Hann lést á Höfða, hjúkrunar- og dvalarheimili, 18. mars 2018.
Gunnar var sonur hjónanna Elíasar Guðmundssonar og Sigríðar Einarsdóttur. Hann var næstelstur átta systkina, en systkini hans voru; Einar Tjörvi (látinn), Hreinn (látinn), Ólafur Tryggvason, Edda, Iðunn, Guðrún og Sigríður (látin).
Hinn 17. júní 1952 kvæntist hann Guðjónínu Sigurðardóttur, f. 8.1. 1934, fyrrverandi skólaritara í Grundaskóla, en hún lést árið 2013. Foreldrar hennar voru Sigurður Jónsson og Þóra Guðjónsdóttir.
Gunnar og Nína (eins og hún var ávallt kölluð) bjuggu allan sinn búskap á Akranesi, utan eitt ár sem þau bjuggu á Selfossi. Þau hjónin eignuðust fjórar dætur: 1) Sigríður Viktoría, f. 12.3. 1952, maki Reynir Gunnarsson. Dætur þeirra eru: a) Nína Borg, maki Jón Örn Arnarson. Börn: Reynir Ver, Ólöf Eir og Arna Ósk. Barnabörnin eru tvö. b) Jóhanna Ólöf. Börn: Sigríður Viktoría Líndal, Sara Mjöll, Ingimundur Freyr og Lýdía Líf. c) Berglind, maki Björgvin Sævar Ármannsson. 2) Sigþóra, f. 23.1. 1957, maki Hallgrímur E. Árnason. Börn hennar eru: a) Hallgrímur, maki Matthildur Magnúsdóttir. Börn: Harpa Líf, Elmar Freyr og Magnús Darri. b) Gunnar Hafsteinn, maki Kristín Björg Jónsdóttir. Börn: Aníta Sól, Linda Kristey og Hafsteinn Orri. c) Jón Valur, maki Helene Tyvold. Börn: Maren Ýr og Kristian Olai. d) Guðný Birna, maki Elías Viktor Lárusson. Börn: Lárus Grétar og Friðdís Eyrún. 3) Guðbjörg f. 13.11. 1963, maki Helge Karsten Kleppe. Synir hennar eru: a) Kári, maki Eva Carema Melgar Rada. Dóttir Julia Von. b) Bjarki, maki Helga Margrét Helgadóttir. Dóttir Katrín Harpa. 4) Guðrún Elsa f. 21.10.1968. Dætur hennar eru: a) Elva Björk, maki Davíð Andri Bragason. b) Elísabet Eir. c) Fósturdóttir Snædís Mjöll, maki Þórður Bjarkar. Börn: Máni Blær, Matthildur Ásta, Alexander Hilmir og Víkingur.
Gunnar nam bakaraiðn og rak bakarí um tíma á Akranesi. Hann var einnig um tíma til sjós, sem kokkur, en lengst af starfaði hann sem kjötiðnaðarmaður í Verslun Einars Ólafssonar á Akranesi. Gunnar var virkur í félagsstörfum og gegndi mörgum ábyrgðarstöðum í Lionsklúbbi Akraness og Lionshreyfingunni á Íslandi. Hann var gerður að heiðursfélaga í Lionsklúbbi Akraness árið 2014.
Útför Gunnars fer fram frá Akraneskirkju í dag, 22. mars 2018, og hefst athöfnin klukkan 13.
Ó, pabbi minn, hve undursamleg ást þín var.
Ó, pabbi minn, þú ávallt tókst mitt svar.
Aldrei var neinn svo ástúðlegur eins og þú.
Ó, pabbi minn, þú ætíð skildir allt. (Þorsteinn Sveinsson)
Í dag kveð ég þig, elsku pabbi, í síðasta sinn og er það óendanlega sárt en huggun harmi gegn að nú ertu laus úr viðjum hrjáðs líkama og þrotinn krafturinn. En góða skapið, ljúfmennskan og ástin til mín og okkar allra þvarr ekki, svo mikið er víst. Traustari maður og trygglyndari er vandfundinn; dugnaðurinn, atorkusemin og þin dásamlega létta lund. Ekki skammaðir þú mig, þó að ég hafi ekki alltaf verið sú allra stilltasta. Þú beittir bara öðrum ráðum en hávaða og rifrildi til að fá mann til að hlusta og það virkaði, í það minnsta fyrir mig.
Einu sinni man ég eftir því að þú settir þig upp á móti því að ég flytti með unnusta mínum austur í Landeyjar til vetrardvalar í sveit og ætluðum við að búa þar skötuhjúin einn vetur. Ekki leist þér vel á þetta hjá mér og held ég að mamma hafi sagt rétt að hann ætti nú erfitt með að sleppa mér aðeins 19 ára langt í burtu frá pabba gamla sem ekki gæti leiðbeint litlu „dúllunni“ sinni. Þann vetur skrifaðir þú mér sendibréf sem var mér ómetanlegt og þá fann ég að það var eingöngu af ást og umhyggju fyrir mér sem þú áttir erfitt með að sleppa mér úr augnsýn.
Bónbetri mann hef ég aldrei fyrirhitt. Það var alveg sama hvað stóð fyrir dyrum hjá okkur, hvort heldur var verið að fara að framkvæma eitthvað stórt eða smátt, halda stórveislu með mat og/eða tertum, þar varst þú á heimavelli með alla þína dásamlegu rétti, fórst létt með það og varst í essinu þínu.
Það verður svo skrítið að koma ekki upp á Höfða til þín, elsku pabbi minn, og fá bjarta brosið þitt og faðmlagið þitt sem alltaf var svo hlýtt og notalegt. Þegar við kvöddumst kom ansi oft „Dúlla, einn koss enn“ og var hann auðfenginn enda erum við þessi mikla „knús og kremju“ fjölskylda. Margar stundirnar eigum við saman á okkar löngu leið og tel ég mig svo sannarlega hafa unnið í „pabba og mömmu lottóinu“ þegar mér var úthlutað til ykkar mömmu. Heimurinn væri betri ef aðrir væru eins og þú varst; ósérhlífinn, samviskusamur og duglegur með eindæmum. Þú vannst þig út úr öllum þínum erfiðu verkefnum með seiglu þinni og dugnaði og ekki síst þínu dásamlega skapi.
Að leiðarlokum þakka ég þér, elsku hjartans pabbi minn, fyrir alla ástina, vináttuna og hjálpsemina og að fá að eiga þig að mínum allra allra besta vini í 61 ár, sem aldrei bar skugga á.
Ég sé ykkur mömmu fyrir mér í grasigróinni brekku í Sumarlandinu með smurt normalbrauð með sardínum að horfa á sólaruppkomuna, þannig vil ég sá ykkur fyrir mér. Ég veit að endurfundirnir hafa verið kærkomnir því þú saknaðir mömmu alltaf eftir að hún kvaddi okkur fyrir tæpum fimm árum.
Elska þig meira en allt, alltaf.
Góða ferð í Sumarlandið, elsku pabbi minn.
Þín dóttir
Sigþóra (Dúlla).
Ef skilgreina má samband okkar, afi, þá má lýsa því sem sambandi föður og sonar, eða jafnvel sambandi bestu vina. Sambandi sem byggir á gagnkvæmri virðingu og trausti. Hjá þér voru allir velkomnir og þér tókst að láta öllum líða vel í kringum þig. Brosið þitt – faðmlögin – kossarnir – samtölin. Kærleikur þinn hefur alla tíð verið skilyrðislaus.
Þú kenndir mér grunngildi mannlegra samskipta og átt stóran þátt í því hversu vel mér hefur farnast í lífinu. Iðjusemi, þolinmæði og ást þín á þínum nánustu eru gildi sem ég hef tekið með mér út í mitt líf.
Ef einhver veröld leynist handan þessarar vona ég svo sannarlega að þið amma fáið á ný að njóta ykkar ástarfunda. Og hver veit nema þið rennið ykkur á reiðhjóli upp í Borgarfjörð eða vestur á Snæfellsnes.
Mig langar að kveðja þig með þessu ljóði afi minn, ljóðinu Leiðarlok sem ég orti á dánardegi þínum, þegar mér varð hugsað til endurfunda ykkar ömmu.
Að næturlagi legg ég aftur augun,
óhræddur ég veit þú bíður mín.
Ástin mín í ljósinu að handan,
ljósið lýsir leið mína til þín.
Í faðmi þínum opna ég þau aftur,
við himnahliðið hittumst við á ný.
Konan mín, styrkur minn og kraftur,
svo einlæg, svo hjartgóð, svo hlý.
Að baki liggja fótspor ferða minna,
þá stoltur lít ég yfir farinn veg.
Klökkur kveð ég nú að leiðarlokum
og skrefið inn í eilífðina tek.
Farðu í friði.
Ást og ást.
Þinn
Jón Valur.
Hugljúfi kæri bróðir minn,
leiðarlok jarðlífs eru komin.
Ótal minningar koma inn,
mætar, þína nærveru ennþá finn.
Við sjáumst er bjartasta vonin.
Ég elska þig.
Guðs blessun,
Edda systir.
Gunnar var mikill fjölskyldumaður og dætur hans og Nínu eiginkonu hans bera góðu uppeldi svo sannarlega vitni. Þau voru elskuð og dáð af öllum afkomendum sínum og náði sú virðing langt út fyrir raðir fjölskyldunnar. Það var ekki aðeins þitt ástvinalið sem ást þín og tryggð voru bundin við. Þó að haustdögum tæki að halla var í hjartanu rúm fyrir alla. Hár þitt var silfrað en ung var þín önd og æskan fann þar sín draumalönd. Frá upphafi valdirðu veginn og viðhorfið sólarmegin. Slíkra er gott að minnast. Lífsbók Gunnars vinar okkar hefur verið lokað en eftir stendur minningin um mikilhæfan mann sem ávallt verður minnst þar sem góðs manns er getið.
Og sælt er að mega svo sofna eins og þú með sáttfúsu hjarta og barnslegri trú eftir önn og erfiði dagsins inn í aftanskin sólarlagsins. Far þú í friði, kæri vinur, og Guð blessi þig. Hafðu þökk fyrir allt og allt.
Einar Jón Ólafsson.