Ekki eru nema nokkrir áratugir síðan Japanir tóku að gera sig gildandi í hinum vestræna tískuheimi. Eftir að hönnuðir eins og Kenzo Takada, Issey Miyake og Yohji Yamamoto hösluðu sér þar völl á áttunda áratugnum komst Asía á heimstískukortið og gatan varð smám saman greiðari fyrir austræna hönnuði. Núorðið vekja tískuvikurnar í Tókýó ekki síður athygli en rótgrónar tískuvikur í París, Mílanó, London og New York.
Um sextíu heimsþekkt tískumerki kynna fatalínur sínar á tískuvikunni í Tókýó fyrir haust og veturinn 2018/2019, sem hófst með pomp og pragt á mánudaginn og stendur nú sem hæst. Þótt fatnaður hönnuðanna sé hver með sínu sniðinu, má oft greina hversu sterk tengsl eru á milli menningar og tísku. Að minnsta kosti virtust margir þeirra draga dám af kímonóinum, sem er þjóðlegur búningur japanskra kvenna og karla og á sér langa sögu í japanskri menningu. Fatnaðurinn á tískusýningunni var t.d. gjarnan marglaga, sem eru áhrif frá kímonóinum, og oft hannaður bæði fyrir konur og karla, unisex, eins og það er kallað. Annað sem einkenndi flíkurnar á sýningunni er ungæðislegur og tápmikill stíllinn og mikil litagleði.