Gersemar Skartgripasali afgreiðir viðskiptavin í verslun á skartgripamarkaðnum Tiba í Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu. Slík störf eru nú eingöngu ætluð innfæddum íbúum landsins.
Gersemar Skartgripasali afgreiðir viðskiptavin í verslun á skartgripamarkaðnum Tiba í Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu. Slík störf eru nú eingöngu ætluð innfæddum íbúum landsins. — AFP
Riyadh. AFP. | Skartgripaverslun á markaði í Riyadh bráðvantar nú starfsmenn eftir að ríkisstjórn Sádi-Arabíu gaf út tilskipun um að sádiarabískir ríkisborgarar tækju við störfum útlendinga í landinu með það að markmiði að minnka atvinnuleysi meðal...

Riyadh. AFP. | Skartgripaverslun á markaði í Riyadh bráðvantar nú starfsmenn eftir að ríkisstjórn Sádi-Arabíu gaf út tilskipun um að sádiarabískir ríkisborgarar tækju við störfum útlendinga í landinu með það að markmiði að minnka atvinnuleysi meðal Sáda.

Sádi-Arabía hefur lengi reitt sig á útlendinga í verslunar- og þjónustustörfum, einkum vegna þess að þeir eru ódýrari og skortur er á innfæddum íbúum með starfsreynslu. Stjórnin vill nú að Sádar taki við þessum störfum en sá hængur er á að margir þeirra eru orðnir svo vanir örlátu velferðarkerfi olíuríkisins frá vöggu til grafar að þeir fást ekki til þess. Þeir telja slík störf vera niðurlægjandi.

Á skartgripamarkaðnum Tiba í sádiarabísku höfuðborginni hefur þessi stefna komið verslunum í vandræði. Nokkrum þeirra hefur verið lokað en skortur á reyndu sádiarabísku starfsfólki stendur öðrum fyrir þrifum.

Vilja tvöfalt hærri laun

„Sádar eru nýgræðingar á þessu sviði og þurfa að öðlast reynslu,“ segir kaupmaður sem réð ættingja sína til bráðabirgða eftir að hafa þurft að segja upp reyndu starfsfólki frá Jemen. Kaupmennirnir segja að margir Sádar vilji ekki vinna lengi eða mæta til vinnu á morgnana og vilji fá tvöfalt hærri laun en vant erlent starfsfólk þótt þeir hafi enga starfsreynslu. „Þetta er að drepa fyrirtækin okkar,“ segir einn kaupmannanna.

Nokkrar verslananna hafa haldið áfram að greiða erlendum starfsmönnum sínum laun í von um að stjórnin falli frá tilskipuninni og þeir geti hafið störf að nýju. Talið er þó ólíklegt að það gerist.

40% atvinnuleysi meðal ungs fólks

Tilskipunin er liður í þeirri stefnu stjórnvalda að blása lífi í einkageirann og minnka útgjöld ríkisins vegna minnkandi olíutekna. Hún hefur orðið til þess að Sádar eru nú í fyrsta skipti farnir að vinna við bílaviðgerðir, afgreiðslu á bensínstöðvum og fleiri atvinnugreinar sem voru áður ætlaðar erlendu starfsfólki.

Þessi stefna er talin vera nauðsynleg. Um helmingur íbúanna er undir 25 ára aldri og atvinnuleysið meðal ungs fólks er um 40%, samkvæmt nýjustu hagtölum. Nær tveir af hverjum þremur Sádum eru á launum hjá ríkinu og launa- og bótagreiðslur þess eru um helmingur af öllum ríkisútgjöldunum.

Stjórnin bætti nýlega sölustörfum í bílpartaverslunum, raftækjaverslunum og húsgagnaverslunum á lista yfir atvinnugreinar sem eiga nú eingöngu að vera ætlaðar innfæddum Sádum þrátt fyrir viðvaranir um að það gæti skaðað fyrirtækin. Nokkrar bílaleigur í Riyadh hafa þurft að leggja niður starfsemi vegna þess að þeim hefur verið skipað að ráða aðeins Sáda til starfa.

Þurfa að breyta viðhorfunum til vinnunnar

Útlendingar hafa verið um þriðjungur íbúanna og stefna stjórnarinnar hefur orðið til þess að margir þeirra hafa ákveðið að flytja búferlum frá Sádi-Arabíu. Starfandi iðnverkamönnum fækkaði um 300.000 á fyrstu níu mánuðum síðasta árs, samkvæmt hagtölum frá ríkisstjórninni.

Talið er að það taki að minnsta kosti áratug að breyta vinnumenningunni meðal innfæddra Sáda til að þeir geti tekið við þjónustu-, verslunar- og byggingarstörfum í Sádi-Arabíu, að sögn Karen Young, sérfræðings í málefnum Persaflóaríkja. „Lausnin á atvinnuleysisvandanum felst ekki í slíkum tilskipunum,“ segir Mohammad Bassnawi í grein í dagblaðinu Saudi Gazette . „Við þurfum fyrst að breyta viðhorfum ungra Sáda til vinnunnar.“