Eitt af hinu góða og jákvæða við íslenskt samfélag er að samtakamátturinn er oft mikill þegar á reynir og menn hlífa sér ekki þegar lagst er á árarnar. En stundum getur þessi samstaða þjóðarinnar verið heldur til ama og snúist yfir í hálfgert einelti.
Að undanförnu hefur forstjóri olíufélags nokkurs orðið skotspónn þjóðarinnar fyrir að hafa fengið of há laun í fyrra og umtalsvert hærri en hann fékk árið á undan. Vissulega fær forstjórinn miklu hærri laun en almennur launamaður og það er erfitt að verja þá hækkun sem varð á launum hans á milli ára. En svo vill til að launagreiðslan, sem ekki er ákvörðuð af forstjóranum sjálfum, á sér skýringar sem sjaldnast fljóta með í umræðunni.
Eins og fram kom á aðalfundi N1 skýrist hærri greiðsla til forstjórans af bónusgreiðslu sem hann fékk fyrir ári vegna ársins 2016. Hún var hluti ef launakjörum sem stjórn félagsins hafði samið við hann um og mun valda því að laun hans í ár munu lækka umtalsvert á milli ára.
Í millitíðinni náðist mikil samstaða víðast hvar í samfélaginu um að fordæma forstjórann og launakjör hans. Áhrifamenn í lífeyrissjóðum fóru meira að segja fram á það að sjóðir þeirra seldu hlutabréf sín í olíufélaginu, jafnvel þótt það ylli stórtapi fyrir sjóðsfélaga. Verkalýðsfélög kröfðust þess að aðrir stafsmenn olíufélagsins fengju sömu prósentuhækkun og forstjórinn. Ekki mun þó hafa verið farið fram á að þeir myndu jafnframt njóta launalækkunarinnar sem fylgdi í kjölfarið.
Forstjórastarfið er einmanalegt og fáir sem taka það að sér að rísa upp til þess að verja kaup og kjör æðstu stjórnenda. Enda fæstir forstjórar á flæðiskeri staddir. Eins sjálfsagt og það er að veita aðhald hvað varðar kaup og kjör stjórnenda fyrirtækja, þá er jafn mikilvægt að sú umræða sé byggð á öllum staðreyndum máls og í eðlilegu samhengi.