Sigurlín Hermannsdóttir hefur orð á því á Leir að ekki fari hjá því að vorfiðrings sé farið að gæta víða.
Maður sjái þess alls staðar merki. Síðan yrkir hún fallegt ljóð um músarrindilinn:
Hann vinur minn er magnað hörkutól,
sem mörgum stærri kann það snöggt um betur
að þrauka harðan veðurofsa um vetur,
í veggjarholu finnur einatt skjól.
Er sólin ofar feimin fikrar sig
fer fiðringur um litla kroppinn brúna.
Í undirbúning ræðst nú fyrir frúna
og færir hreiðurgerð á æðra stig.
Og sumarlangt hann syngur firna vel
um sólskinið og skóg og börnin ungu
þá sterkur rómur reynir á hans lungu
en rosalega dillar lítið stél.
Er haustar að og fuglar fljúga burt
til fjarlægra og sólríkari landa
að sitja af sér vertrarhörkuvanda
ég veit að Músi verður hér um kjurt.
Á miðvikudag fyrir viku skemmtu þrír hagyrðingar Mosfellingum, þeir séra Hjálmar, Ragnar Aðalsteinsson og Ómar Ragnarsson. Þá orti Helgi R. Einarsson:
Hátt var sungið og hlegið
af háðinu ekkert dregið.
Hér fóru þrír
í þjóðlegum gír.
Á létta strengi var slegið.
Helgi lýsir „sælunni“ þannig:
Við alsæl í lautinni áðum
að okkur þó lítið víst gáðum.
Í lífinu eitt
af öðru fær leitt
og við endurtökum það bráðum.
Sigmundur Benediktsson segir frá því á Leirnum að sér hafi dottið í hug hvort ástæðan fyrir því að hann væri farinn að kalka geti verið alkóhólsvannæring. – „Þetta bar ég undir sjúkrahúsdömurnar í morgun og fór með vísuna,“ segir hann. „En þær bara hlógu að mér svo ég var jafn nær. Hún var svona:
Það að alka ekki hér
eru slæmir siðir.
Af því kalka karlinn fer,
kjaftur, haus og liðir.
Friðrik Steingrímsson svaraði:
Sælu hefur vínið veitt
og víst á marga bölvun lagði,
en gerði aldrei neinum neitt
nokkurn tíma að fyrra bragði.
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is