Eftir sem áður getur reynst örðugt að ákvarða hvaða lög eigi að gilda um afhendingu gagna sem hýst eru í tölvuskýjum.

Tölvuský og svokölluð skýjavinnsla (e. cloud computing) hafa rutt sér til rúms í upplýsingatækni síðastliðin ár og eru í sífelldri framþróun. Með skýjavinnslu er t.d. átt við yfirfærslu gagna úr tækjum á borð við snjallsíma, fartölvur o.þ.h. yfir á gagnasvæði fjartengdra netþjóna, eða tölvuský, með þeim hætti að hægt er að nálgast gögnin hvar sem er í heiminum. Þá nýta fyrirtæki sér einnig í auknum mæli þann kost að skýjavæða hugbúnað og vefhýsingu, enda getur slíkt verið bæði hagkvæmara og öruggara en aðrir kostir. Sú aukning sem orðið hefur í notkun tölvuskýja hjá bæði einstaklingum og fyrirtækjum getur aftur á móti reynst yfirvöldum talsverð hindrun þegar nálgast þarf upplýsingar sem vistaðar eru í tölvuskýjum, svo sem vegna rannsókna sakamála. Helgast það meðal annars af því að tölvuský geta verið hýst á mismunandi stöðum og jafnframt verið mismunandi úr garði gerð, s.s. tölvuský þar sem gögnin eru á stöðugri hreyfingu (e. data shard) og því erfitt að henda reiður á eiginlegri staðsetningu þeirra. Af þeim sökum hefur mikilvægi samstarfs stjórnvalda yfir landamæri í þágu rannsóknarhagsmuna aukist til muna og hafa sum þeirra efnt til samstarfs til að auðvelda hver öðrum aðgang að gögnum sín á milli. Eftir sem áður getur reynst örðugt að ákvarða hvaða lög eigi að gilda um afhendingu gagna sem hýst eru í tölvuskýjum.

Augun beinast nú að Hæstarétti Bandaríkjanna sem hefur til meðferðar mál bandaríska ríkisins gegn tæknirisanum Microsoft, en áfrýjunarréttur hafnaði kröfu ríkisins á fyrri stigum þess efnis að Microsoft, sem bandarísku fyrirtæki, væri skylt að afhenda bandarískum yfirvöldum gögn sem hýst voru í öðru landi, nánar tiltekið á netþjóni á Írlandi. Deilan snýr að því hvort bandarísk lög frá 1986 heimili þarlendum yfirvöldum að nálgast gögn í vörslum bandarískra fyrirtækja, þrátt fyrir að þau séu hýst utan Bandaríkjanna. Meðal ágreiningsatriða er túlkun á aðgangsheimild

yfirvalda, þ.e. hvort hún taki til gagna sem hýst eru í öðru ríki ef mögulegt er að nálgast þau innan Bandaríkjanna, svo sem iðulega á við varðandi skýjalausnir.

Athygli vekur að ekki fyrir alllöngu komst dómari ytra að gagnstæðri niðurstöðu í máli í Pennsylvaníu-fylki. Þar var talið að Google væri skylt að afhenda gögn þrátt fyrir að þau væru vistuð utan Bandaríkjanna. Var niðurstaðan meðal annars reist á því að þær skýjalausnir sem um ræddi voru þess eðlis að gögnin voru á stöðugri hreyfingu og ómögulegt að segja til um staðsetningu þeirra. Taldi dómarinn að undir slíkum aðstæðum væri eðlilegt að yfirvöldum væri veittur aðgangur, þar sem gögnin væru aðgengileg innan Bandaríkjanna. Sú niðurstaða er nokkuð athyglisverð – en telja verður að fræðilega geti sú staða alltaf verið uppi á teningnum þegar kemur að skýjalausnum. Af framangreindu virðist það geta skipt sköpum hvort gögn séu vistuð á netþjóni í öðru tilgreindu ríki eða hvort þau séu á stöðugri hreyfingu og því „óstaðsett í hús“ ef svo má að orði komast.

Bandarísk tæknifyrirtæki óttast að viðskiptavinir þeirra muni beina viðskiptum sínum annað ef Hæstiréttur þar í landi fellst á kröfu ríkisins. Af hálfu ríkisins eru færð rök fyrir því að málið varði þjóðaröryggi og nauðsynlegt sé fyrir yfirvöld að eiga möguleika á að nálgast gögn þarlendra fyrirtækja, þrátt fyrir að gögn séu eftir atvikum vistuð á netþjóni annars staðar í heiminum. Hver niðurstaðan verður fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna skal ósagt látið en ljóst er að hún mun hafa talsverð áhrif á bæði framkvæmd og notkun skýjalausna. Hver sem málalokin verða í umræddu máli, er ljóst að vandinn verður enn til staðar – og mun að öllum líkindum reyna á samstarf yfirvalda yfir landamæri í ríkari mæli þegar fram líða stundir. Verður áhugavert að fylgjast með þeirri þróun, sérstaklega með tilliti til þeirra umfangsmiklu gagnavera sem starfrækt eru hér á landi.

Höf.: Lára Herborg Ólafsdóttir