Þann 22. mars verður sá aldni snillingur Jón Hafsteinn Jónsson stærðfræðingur níræður.

Þann 22. mars verður sá aldni snillingur Jón Hafsteinn Jónsson stærðfræðingur níræður. Hann lauk meistaraprófi í grein sinni með miklu láði frá Kaupmannahafnarháskóla og fór síðan ásamt konu sinni Soffíu Guðmundsdóttur norður til Akureyrar að kenna stærðfræði við Menntaskólann þar, en Soffía kenndi tónlist.

Jón Hafstein og Soffíu sá ég fyrst á ráðstefnu hernámsandstæðinga 1961, en þá var ég 14 ára og líður mér seint úr minni að sjá þetta hamingjusama par, sem átti eftir að verða lífstíðarvinir mínir.

Haustið 1964 innritaðist ég svo í MA. Þar voru margir góðir kennarar og var Jón þar einna fremstur í flokki. Er allur sá straumur raunvísindamanna, verkfræðinga og stærðfræðinga sem komið hafa frá MA ekki síst honum og samstarfsmönnum að þakka og sýnir hverju skiptir að nemendur hafi góða kennara með afburða menntun.

Regluna hér fyrir neðan kenndi Jón Hafsteinn okkur í 6. bekk vorið 1968 og sannaði hana með þrepasönnun, þar sem reglan gildir um fjölflötunga eins og til dæmis tening. Hér gildir V: fjöldi horna, E: fjöldi kanta og F: fjöldi flata. Um tening gildir V = 8, E = 12 og F = 6 og er þá V − E + F = 8 − 12 + 6 = 2.

Leonard Euler sá að þessi regla gildir um alla fjölflötunga og er almenna reglan því:

Euler tala: V − E + F = 2.

Fjölflötungasetning Eulers er þessi regla kölluð og varð þessi kennslustund til þess að ég ákvað að læra stærðfræði. Atvikin höguðu því svo að ég fór til Leníngrad um sumarið, en Leonard Euler var þar löngum hirðstærðfræðingur hjá Ekatarinu Vavtaraju eða Velikaju sem við þekkjum sem Katrínu miklu. Þá hét borgin Sankti Pétursborg, eins og nú, og þar liggur Euler grafinn.

Síðan hef ég kennt stærðfræði nánast alla mína starfsævi og allan tímann verið í nánu samstarfi við Jón Hafstein og Soffíu, meðan hún lifði. Um tíma höfðum við sömu próf í MA og ML þar sem ég kenndi.

Óska ég nú Jóni Hafsteini hjartanlega til hamingju með afmælið og öllum hans afkomendum og nemendum. Fáir menn hafa veitt mér mikilvægari leiðsögn í lífinu og á fleiri sviðum en stærðfræði. Þakka ég Jóni Hafsteini og Soffíu fyrir.

Guðmundur Ólafsson.