— Morgunblaðið/Eggert
Fólk sem kom í Höfðaborg, hús Ríkisáttasemjara við Borgartún í Reykjavík, í gær varð að smeygja sér þar í gegnum „fæðingarveginn“ sem ljósmæður komu þar upp.

Fólk sem kom í Höfðaborg, hús Ríkisáttasemjara við Borgartún í Reykjavík, í gær varð að smeygja sér þar í gegnum „fæðingarveginn“ sem ljósmæður komu þar upp. Þetta gerðu ljósmæður til að vekja athygli á kjörum sínum, en samningar stéttarinnar við ríkið losnuðu í ágúst á síðasta ári og hvorki hefur gengið né rekið í kjaraviðræðum. Vill stéttin leiðréttingu á launum sínum, enda hafi hún dregist aftur úr miðað við menntun og ábyrgð.

Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra var í gær afhentur listi með undirskriftum 5.800 manns sem hafa skrifað undir stuðningsyfirlýsingu við kjarabaráttu ljósmæðra. „Það er mikill hugur meðal almennings. Fólki finnst réttlætanlegt að við hækkum í launum við að bæta þessu við okkur, að við fáum laun samkvæmt ábyrgð og menntun,“ sagði Steina Þórey Ragnarsdóttir, varaformaður Ljósmæðrafélags Íslands, við Morgunblaðið.