— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Tillaga til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar hefur verið lögð fram á Alþingi. Flutningsmenn eru 23 þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi, nema Samfylkingu og Viðreisn.

Tillaga til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar hefur verið lögð fram á Alþingi.

Flutningsmenn eru 23 þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi, nema Samfylkingu og Viðreisn. Fyrsti flutningsmaður er Njáll Trausti Friðbertsson. Sambærilegar tillögur voru fluttar á tveimur fyrri þingum en náðu ekki fram að ganga.

Tillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort flugvöllur og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs skuli áfram vera í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:

„Vilt þú að flugvöllur og miðstöð innanlands-, kennslu-, einka- og sjúkraflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík uns annar jafngóður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar? Já. Nei.“

Í greinargerð með tillögunni segir m.a. að öll skynsamleg rök hnígi í þá átt að halda flugvellinum og miðstöð innanlandsflugs í Vatnsmýrinni. Verði þar einhver breyting á sé nauðsynlegt að öll þjóðin fái að koma að þeirri ákvörðun á beinan og lýðræðislegan hátt. sisi@mbl.is