Stefán E. Stefánsson
ses@mbl.is
Nokkrar af stærstu bílaleigum landsins hyggjast kaupa mun færri nýja bíla inn til landsins í flota sinn á þessu ári en þær gerðu á því síðasta. Þetta staðfesta forsvarsmenn fyrirtækjanna í samtali við ViðskiptaMoggann. Þannig segir Þorsteinn Þorgeirsson, framkvæmdastjóri bifreiðasviðs Avis, að fyrirtækið muni kaupa 40% minna inn af bílum í ár en í fyrra. Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar, segir að allt stefni í að fyrirtækið kaupi 20% færri nýja bíla inn til landsins í ár en yfir sama tímabil í fyrra. Þá staðfestir Vilborg Anna Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Sixt, að samdrátturinn á þeim vettvangi muni að öllum líkindum nema 10-12%.
Hendrik Berndsen, stjórnarformaður Hertz, segir ekki ljóst hversu mikill samdrátturinn verði á vettvangi fyrirtækisins en það muni ekki síst ráðast af því hversu vel takist til við að selja notaða bíla úr flotanum. Það var aðeins Garðar Sævarsson, rekstrarstjóri Enterprise, sem tjáði blaðinu að fyrirtækið byggist við því að nýliðun í flotanum yrði með svipuðu móti og í fyrra.
Er það samdóma álit allra viðmælenda blaðsins að versnandi rekstrarhorfur hafi breytt stöðunni á bílaleigumarkaðnum. Þá hafi breyttar reglur um vörugjöld á bílaleigubíla kallað á að leggja þurfi meira eigið fé inn í kaup á hverjum bíl og að fyrirtækin hafi ekki gott svigrúm til þess.