Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hefur undirritað nýja reglugerð um skráningu afla á opinberum sjóstangaveiðimótum en slík mót eru haldin víða um land á hverju sumri á vegum sjóstangveiðifélaga.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hefur undirritað nýja reglugerð um skráningu afla á opinberum sjóstangaveiðimótum en slík mót eru haldin víða um land á hverju sumri á vegum sjóstangveiðifélaga.

Með reglugerðinni er leitast við að einfalda framkvæmd aflaskráningar en félögunum eru með lögum um stjórn fiskveiða tryggðar fullnægjandi aflaheimildir vegna mótanna og skal tekjum af sölu aflans ráðstafað til að standa á móti kostnaði við mótshaldið, segir í frétt frá ráðuneytinu. Reglugerðin var sett að höfðu samráði við Landssamband sjóstangaveiðifélaga og Fiskistofu.

Í reglugerðinni, sem birt er í Stjórnartíðindum, er eftirfarandi ákvæði til bráðabirgða: „Umsóknir sem hafa borist um úthlutun vilyrðis fyrir að afli á opinberum sjóstangaveiðimótum teljist afli ekki til aflamarks eða krókaaflamarks á árinu 2018, en hefur verið hafnað með vísun til eldri reglugerðar, skal taka til meðferðar að nýju af Fiskistofu samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar. Skal ákvörðun Fiskistofu um veitingu vilyrða tekin eigi síðar en 15. apríl nk.“

Félög sjóstangaveiðimanna hafa undanfarin misseri deilt við Fiskistofu um framkvæmd og uppgjör vegna sjóstangaveiðimóta og var aðeins eitt opinbert mót haldið í fyrra. Félögin kvörtuðu m.a. til umboðsmanns Alþingis vegna stjórnsýslu Fiskistofu. aij@mbl.is