Forseta Kína, Xi Jinping, sem fyrir fáeinum dögum var endurkjörinn, voru í gær sendar heillaóskir frá forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Í kveðju sinni áréttar Guðni mikilvægi þess að þjóðarleiðtogar „stuðli að friði í heiminum og leitist við að veita fólki öryggi og hagsæld, tryggja réttindi þess og einstaklingsfrelsi“.
Í bréfi sínu nefnir forseti Íslands jafnframt farsælt samstarf Kínverja og Íslendinga á fjölmörgum sviðum um langt árabil; viðskipti landanna hafi aukist jafnt og þétt í kjölfar fríverslunarsamnings sem undirritaður var árið 2013 og samvinna íslenskra og kínverskra fyrirtækja um hitaveitur í kínverskum borgum hafi reynst afar farsæl og stuðlað að bættum loftgæðum í Kína. Að endingu nefnir forseti að Kínverjum sem heimsækja Ísland fjölgi ört og að hann hafi væntingar um að samstarf þjóðanna verði áfram gott.
Vinni að öryggi og hagsæld
Forseti Íslands sendi í gær einnig heillaóskir til Vladimírs Pútíns sem var endurkjörinn forseti Rússlands um liðna helgi. Í kveðjunni minnti Guðni Th. Jóhannesson á þá skyldu þjóðarleiðtoga að vinna að öryggi og hagsæld fólks. Brýnt sé að fulltrúar ríkja geti rætt saman af hreinskilni.„Miklu skiptir að þjóðarleiðtogar leiti ætíð friðsamlegra lausna þar sem ófriður ríkir og styðji hvarvetna öryggi, hagsæld og einstaklingsfrelsi,“ segir í tilkynningu frá skrifstofu Íslands. Þar er oft haft eftir Guðna að þrátt fyrir sviptingar á alþjóðavettvangi hafi samskipti Íslands og Rússlands verið báðum ríkjum hagfelld. Framtíð norðurslóða og íbúa þeirra byggist á sjálfbærri þróun, umhverfisvernd og góðri samvinnu þjóða.