Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hyggst hækka skatta á tekjur stórra tæknifyrirtækja, samkvæmt tillögum sem birtar voru í gær. Hún vill að tæknifyrirtækin greiði 3% skatt af veltu vegna ýmiskonar þjónustu á netinu og áætlað er að nýju greiðslurnar nemi alls fimm milljörðum evra, jafnvirði rúmra 600 milljarða króna.
Skatturinn á að ná til fyrirtækja á borð við Facebook og Google og miðað er við að árstekjur þeirra í heiminum nemi meira en 750 milljónum evra og skattskyldar tekjur þeirra í aðildarlöndum ESB nemi meira en 50 milljónum evra.
Stóru tæknifyrirtækin hafa verið gagnrýnd fyrir að greiða of lága skatta í Evrópulöndum og flytja hagnað af viðskiptunum til landa á borð Írland þar sem skattarnir eru lægri. Meðalskattgreiðslur netrisanna nema aðeins 9,5% í aðildarlöndum ESB en skattar annarra fyrirtækja nema að meðaltali 23,3%, að sögn framkvæmdastjórnarinnar. Stóru tæknifyrirtækin draga þessar tölur í efa og hafa sagt að skattatillögurnar séu vanhugsaðar og til marks um „lýðhyggju“.
Evrópuþingið og öll ESB-löndin þurfa að samþykkja skattatillögurnar til að þær geti orðið að lögum en ágreiningur er um þær meðal aðildarríkjanna. Írar hafa efasemdir um að þær og önnur lönd telji að nýju skattarnir eigi einnig að ná til smærri tæknifyrirtækja.