Karl Gauti Hjaltason
Karl Gauti Hjaltason
Eftir Karl Gauta Hjaltason: "Allir lögmenn vita að skattskylda verður ekki reist á lagaákvæðum sem samkvæmt beinum fyrirmælum í lögunum eru liðin undir lok og þannig er þessu einnig varið um refsiákvæði laga."

Í lögum um Bankasýslu ríkisins frá 2009 er ákvæði um hvenær stofnunina eigi að leggja niður. Þetta ákvæði er í 9. grein laganna og ber yfirskriftina: Lok starfseminnar og þar segir: „Stofnunin skal hafa lokið störfum eigi síðar en fimm árum frá því hún er sett á fót og verður hún þá lögð niður“.

Í fyrirspurnartíma á Alþingi spurði ég fjármálaráðherra um hvernig því viki við að þessi stofnun væri enn starfandi að óbreyttum lögum og hvert væri gildi skuldbindandi ákvarðana sem stofnunin hefur tekið.

Fjármálaráðherra svaraði því til að í greininni væri verið að lýsa áformum um starfstíma Bankasýslunnar. Hann hefði á sínum tíma ætlað að framkvæma þessi áform en orðið þess áskynja í þinginu að ekki hefði verið vilji til þess og menn hefðu talið að til þess að leggja hana niður þyrfti nýtt sérstakt lagaákvæði.

Ofangreind lög tóku gildi 20. ágúst 2009 og lauk því starfsemi Bankasýslunnar hinn 20. ágúst 2014 samkvæmt skýrum texta laganna. Hins vegar ef litið er á vef stofnunarinnar sést glöggt að hún virðist enn vera starfandi og það af fullum krafti.

Þannig fer Bankasýslan með eignarhluti ríkisins í fjármálastofnunum og í frétt frá stofnuninni segir að hinn 26. febrúar sl. hafi Bankasýslan selt 13% hlut ríkisins í Arion banka til Kaupskila og nam andvirðið 23.452 milljónum króna. Fyrir nokkrum misserum stóð Landsbankinn, sem þessi sama stofnun fer með hlut ríkisins í, að sölu á hlut ríkisins í Borgun, sem fljótlega kom í ljós að var ekki sala heldur gjöf. Hér má einnig rifja upp að Bankasýslan var sett á stofn vegna tímabundins ástands sem upp kom í þjóðfélaginu vegna þess sem átti sér stað á haustdögum 2008. Henni var markaður líftími í lögunum og sá tími er löngu liðinn. Hann er liðinn fyrir þremur og hálfu ári síðan.

Fjármálaráðherra er æðsti maður skattkerfisins og þekkir því á hverju menn reisa skattskyldu. Allir lögmenn vita að skattskylda verður ekki reist á lagaákvæðum sem samkvæmt beinum fyrirmælum í lögunum eru liðin undir lok og þannig er þessu einnig varið um refsiákvæði laga. Hver einasti verjandi tæki því fagnandi ef refsiákvæði sem ákæruvaldið styddist við í saksókn gagnvart skjólstæðingi hans hefði verið lagt niður fyrir meinta refsiverða atburði. Refsingu yrði ekki komið fram á grundvelli þeirra lagaákvæða.

Það ríkir því fullkomin óvissa um gildi allra löggerninga sem Bankasýsla ríkisins hefur staðið að frá árinu 2014, þar á meðal sölu Bankasýslunnar á hlut ríkisins í Arion banka.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins.

Höf.: Karl Gauta Hjaltason