Már Magnússon fæddist 27. desember 1943. Hann lést 13. febrúar 2018. Útför Más fór fram 16. mars 2018.
Æskuvinur minn, Már Magnússon er látinn. Ósjálfrátt spretta fram í huga mínum margar fallegar minningar sem tengjast honum. Ég kynntist Má í kringum 1953 en þá vorum við báðir búsettir í Þingholtunum. Hann í hinu glæsilega Borgarbókasafni að Þingholtsstræti 29 en ég í húsinu nr. 27 við sömu götu. Amma Más, Kristín Guðmundsdóttir, var húsvörður í Borgarbókasafninu til margra ára og í litlu húsvarðaríbúðinni í kjallara þessa húss ól hún upp dótturson sinn, Má. Með okkur Má tókst góð og innileg vinátta, sem entist alla tíð þó að langt væri á milli samverustundanna hin síðari ár.
Á heimili Kristínar var tónlist ætíð í hávegum höfð. Kristín hafði fallega söngrödd og hún söng um árabil í Fílharmóníukórnum, en stjórnandi hans og stofnandi var sá merki tónlistarmaður Róbert Abraham Ottósson. Snemma bar á sönghæfileikum Más og tók hann oft lagið og söng jafnvel frægar aríur fyrir okkur strákana í hverfinu við mikinn fögnuð. Már innritaðist í Tónlistarskólann í Reykjavík og lærði þar m.a. á píanó. Már hafði mjög góða leiklistarhæfileika og það var unun að heyra hann bregða sér í hlutverk hinna ýmsu þjóðþekktu Íslendinga.
Í litlu húsvarðaríbúðina var alltaf gott að koma. Þar ríkti hlýja og mikill menningarbragur. Nokkra heimilisvini hitti ég þar og minnisstæðastir voru dr. Victor Urbancic, sem var hámenntaður tónlistarmaður, og Eggert Gilfer, píanóleikari og skáksnillingur. Við Már vorum sendir í sveit á sumrin. Þetta stælti okkur og þroskaði. Svo heppilega vildi til að við vorum báðir vistaðir í Sæmundarhlíð í Skagafirði. Ég á Hóli og hann á frægum bæ sem heitir Skarðsá. Þar bjó kona ein, Pálína að nafni, mikill skörungur og góð manneskja. Við Már hittumst alltaf öðru hvoru og það var ótrúlega heillandi að koma í heimsókn að Skarðsá. Það var eins og að ganga beint inn í 19. öldina hvað húsakost varðaði. Þarfir sínar gerði maður í flórinn og öll voru húsin gerð úr torfi og grjóti. Flest voru gólfin gljáandi, niðurtroðin moldargólf. Það var ómetanlegt að kynnast þessu og sjá með eigin augum. Eftir að ég hóf nám í Danmörku urðu samskipti okkar Más strjálli, en ég heimsótti þau Má og Sigríði Ellu Magnúsdóttur, söngkonu og þáverandi eiginkonu hans, í Vínarborg þar sem þau voru bæði við nám seint á sjötta áratugnum. Már var þá í tvöföldu námi, í þjóðháttafræði og söng.
Eftir að heim var komið fékkst Már aðallega við söngkennslu, bæði við Söngskólann í Reykjavík og á Akureyri, þar sem hann var deildarstjóri söngdeildar tónlistarskólans þar í nokkur ár. Már var einnig löggiltur skjalaþýðandi.
Þrátt fyrir ýmsa erfiðleika sem Már þurfti að takast á við í lífi sínu virtist hann ætíð hafa haft hæfileika til að vinna sig út úr þeim á sannfærandi hátt. Ég þakka af hjarta vináttu hans sem aldrei bar skugga á. Sá strengur, sem hljómaði á milli okkar, bar í sér hreinan tón. Fjölskyldu hans og vinum votta ég mína dýpstu samúð.
Gunnar Kvaran.