Flokkar eiga mismikið erindi í framboð og stjórnmálamenn segja mismikið, en þó er líklegt að í samtali við Sindra Sindrason fréttamann hafi efsti frambjóðandi Viðreisnar í borginni slegið met. Sindri bað Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur að segja frá helstu málum framboðsins.
Þórdís Lóa: „Okkur er mjög umhugað að setja þarfir borgarbúa í fyrsta sæti.“
Sindri: „Sem þýðir...?“
Þórdís Lóa: „Sem þýðir að við ætlum að mæta þjónustuþörf fólks í borginni í þessu daglega lífi. Við fæðumst og deyjum í þessari borg og við förum í gegnum þessi lífsskeið öll og við þurfum ákveðna þjónustu og við höfum ákveðnar þarfir á þessari vegferð okkar og þarna viljum við vera. Við viljum bjóða upp á góða þjónustu, framúrskarandi menntun og heildstætt skipulag og samgöngur. Og við erum bara mjög ákveðin í því að gera bara Reykjavík að bestu borg í Evrópu.“
Sindri: „Þetta var ofboðslega vítt og breitt. En sagði okkur ofboðslega lítið. Fyrir hverju brennurðu?“
Þórdís Lóa: „Við brennum fyrir fólkinu. Við brennum fyrir iðandi mannlífi, borginni sem að er að þroskast og stækka en samt þessari nálægð við náttúruna og við brennum fyrir að mæta þörfum íbúanna.“
Sindri: „Ókei, en helsta málefnið sem að þú vilt ráðast í og telur að, ja sé ekki verið að sinna akkúrat núna?“
Þórdís Lóa svaraði því til að það væru menntamálin en gat ekkert sagt til um hvað ætti að gera á því sviði. Fljótlega sló Sindri botn í viðtalið eftir að hafa þó ítrekað þá skoðun sína að hún segði „rosalega lítið“.