Síðustu daga hefur mikil umfjöllun verið um fyrirtækið Cambridge Analytica, þar sem forsvarsmenn þess viðurkenndu óafvitandi við blaðamenn að þeir hefðu hagnýtt sér gögn og persónuupplýsingar til þess að hafa áhrif á kosningar víðs vegar um heiminn, þar á meðal í síðustu forsetakosningum í Bandaríkjunum.
Fréttirnar um Cambridge Analytica eru vissulega sláandi og munu eflaust draga enn frekari dilk á eftir sér. Það sem þó ætti að hafa helst í huga er það hversu auðvelt það reyndist fyrir fyrirtækið að verða sér úti um persónuupplýsingar um 50 milljóna manna með óbeinni aðstoð samfélagsmiðilsins Facebook.
Facebook og aðrir samfélagsmiðlar þrífast nefnilega á þeim upplýsingum sem fólk lætur þeim sjálfviljugt í té. Ljósmyndir, stjórnmálaskoðanir, smekkur á kvikmyndum og tónlist og jafnvel samskipti við ættingja og vini verða að hálfgerðri eign þessara miðla, sem síðan nýta þessar upplýsingar til þess að afla sér tekna frá auglýsendum. Það er til að mynda sláandi staðreynd, að nánast öll aukning á auglýsingum á netinu er á þessum miðlum.
Þetta gerist í krafti þess að Facebook og aðrir áþekkir miðlar búa yfir upplýsingum um notendur sína sem gera auglýsendum í stórum samfélögum kleift að búa til herferðir, sem höfða til mjög afmarkaðra markhópa. Það er því ekki gott, ef forsvarsmenn þessara miðla hafa látið sér í léttu rúmi liggja hvernig viðskiptavinir þeirra hafa farið með þær persónuupplýsingar, sem miðlarnir hafa safnað frá notendum sínum, sem ekki gera sér allir grein fyrir þessum nánast leynda tilgangi í starfsemi samfélagsmiðlanna.
Samfélagsmiðlar á borð við Facebook og Twitter hafa, sérstaklega með tilkomu snjallsímanna, gjörbreytt því hvernig margir hegða sér á netinu. Fólk eyðir meiri tíma á þessum miðlum en áður, og á jafnvel megnið af samskiptum sínum við aðra í gegnum þá. Sú hætta er til staðar að miðlarnir verði að gluggum þess til heimsins í kringum það. Nú kemur í ljós að tiltölulega auðvelt er að lita „glerið“ í þeim gluggum og brengla sýn fólks á veröldina.
Síðustu daga hafa borist fregnir af því að margir hafi lokað reikningum sínum á Facebook vegna Cambridge Analytica-málsins, og markaðsvirði fyrirtækisins hefur hríðfallið á síðustu dögum. Þessi viðbrögð koma ekki á óvart þegar sýnt hefur verið fram á hvernig persónuupplýsingar fólks geta verið misnotaðar.