Viðtal
Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Göngur loðnunnar eru mikilvægar búskapnum í hafinu því loðnan er mikilvæg fæða margra nytjategunda. Ekki aðeins er hún mikilvæg fyrir lífríkið því hún skiptir efnahagsbúskapinn einnig miklu máli. Breytingar á göngum, útbreiðslu, magni og afla hafa því mikil áhrif, en á síðustu árum hafa talsverðar breytingar orðið á.
Í vetur og fyrravetur endaði heildarloðnukvótinn í um 300 þúsund tonnum og talsverðar sveiflur hafa verið í leyfilegum hámarksafla síðustu ár. Á árunum í kringum aldamót var loðnuaflinn hins vegar um og yfir milljón tonn.
„Það er kannski ekki endilega liðin tíð að heimilt verði að veiða svo mikið af loðnu, en það er orðið ansi langt síðan kvótinn var svo ríflegur,“ segir Þorsteinn Sigurðsson, fiskifræðingur og sviðstjóri uppsjávarlífríkis Hafrannsóknastofnunar.
Nær Grænlandi en áður
„Hrygningarstofninn er það stór að hann ætti að geta framleitt svo mikið, en afkoma þeirra lirfa sem klekjast út og lífsmöguleikar þeirra ákvarða hrygningarstofninn þremur árum seinna. Þetta hefur greinilega verið barátta og margt getur haft áhrif í flóknu samspili í hafinu.Með breyttum umhverfisaðstæðum hefur loðnan í raun hrakist til vesturs og er nú stóran hluta ævi sinnar nær Grænlandi en áður. Þar er hún kannski ekki við bestu aðstæður hvað varðar fæðu og stærð fæðusvæðanna. Kjörhitastig loðnunnar er innan við þrjár gráður, sem var hitastigið djúpt fyrir Norðurlandi, undir yfirborðshitalagi, áður en þessi hlýnun hófst. Hitastigið við og yfir landgrunninu er núna yfir því víðast hvar.
Afrán annarra tegunda getur verið annar þáttur og menn hafa talað um að bæði íslenska sumargotssíldin og norsk-íslenska vorgotssíldin hafi verið að éta loðnulirfur. Svo hefur makríllinn bæst við og hann þarf sitt. Í okkar fæðugögnum sjáum við hins vegar ekki merki um þetta að neinu ráði til þess að geta staðfest það.
Lakari afkoma í 20 ár
Í raun er það stutt tímabil sem við höfum unnið að rannsóknum á loðnu. Fyrstu tilraunaveiðar hófust ekki fyrr en 1963 og það var ekki fyrr en 1978 að bergmálsmælingar á loðnustofninum Ísland, Austur-Grænland og Jan Mayen hófust. Spurningin getur allt eins verið hvort það hafi verið óeðlilega mikið á ferðinni á fyrstu árum veiðanna, en þá var frekar svalt við landið.Það er hins vegar ljóst að í hátt í 20 ár hefur afkoma loðnustofnsins að jafnaði verið lakari en hún var.“
– Getur verið að loðnan hætti að hrygna við landið?
„Ég hef ekki trú á að hún hætti að koma hingað, en ef frekari hlýnun verður gæti hrygning fyrir norðan land aukist miðað við það sem við höfum verið að sjá.“
– Nú er þorskstofninn að vaxa, getur verið að það hafi áhrif á afkomu loðnunnar og minni stofna?
„Við erum með innbyggt í aflaregluna að eftir því sem þorskstofninn stækkar er gert ráð fyrir að hann éti meira af loðnu. Í vetur var afrán metið um 220-230 þúsund tonn fyrir þorsk, ýsu og ufsa. Það má spyrja hvort þetta sé mikið eða lítið miðað við að þorskstofninn sé 1.400 þúsund tonn og ýsa og ufsi komi til viðbótar. Við höfum hins vegar ekki tekið frá tiltekið magn fyrir hvalina.“
Lengri tími til að troða í sig
– Getur það gerst að breytt hegðan loðnunnar breyti einnig hegðan þorsksins?„Ef þú nálgast þessa spurningu út frá hagsmunum þorsksins þá var það þannig að áður þegar loðnan gekk hratt í stórum flekkjum til hrygningar var hún í raun í stuttan tíma á hverju svæði. Þannig var tíminn stuttur á hverju svæði sem þorskurinn hafði til að troða í sig eftir að hrygningargangan hófst frá Norðurlandi, suður með Austfjörðum og vestur með landinu. Núna virðist loðnan vera allt í kringum landið og líklega í lengri tíma á hverju svæði en var fyrir um 20 árum og þeir sem nýta loðnuna hafa því líklegast aðgengi í lengri tíma.
Hins vegar er minna aðgengi yfir sumarmánuðina, því loðnan er ekki hjá okkur eins og hún var, en er í auknum mæli við Grænland. Ungviðið fyrir norðan land og hluti fullorðna fisksins var áður fyrr komið úti fyrir Norðurlandi þegar fór að líða á sumarið.“
Í vikunni var Hoffellið frá Fáskrúðsfirði að loðnuveiðum norður af Skagaströnd í Húnaflóa, sem er nokkuð sérstakt, og fleiri skip fengu afla við Norðurland síðari hluta vertíðar. Þorsteinn segir að í mörg ár hafi einhver hrygning verið við Norðurland og Hafrannsóknastofnun hafi m.a. áður fengið upplýsingar úr Þistilfirði og mynni Eyjafjarðar um loðnu í fiskmögum og dauðan loðnukarl í fjörum, en loðnan drepst að mestu eftir hrygningu. Loðnan fyrir norðan hrygnir seinna en fyrir sunnan og vestan og ræður þar mestu að þroskun hrogna er mun hægari sökum sjávarkulda.
Á flakki fyrir Norðurlandi
Í ár og í fyrra hafi greinilega talsvert af loðnu hrygnt þar og á því séu öruggar staðfestingar, meðal annars frá veiðiskipum. Hugsanlega hafi nokkur hluti hrygningarloðnunnar verið á flakki fyrir Norðurlandi í vetur. Minni upplýsingar séu um hrygningu fyrir Austurlandi, en ekki sé ólíklegt að loðna hafi einnig hrygnt þar eða muni gera það á næstu vikum eða mánuðum.“Samkvæmt venju er aðalhrygningarsvæðið loðnu fyrir Suður- og Vesturlandi og segir Þorsteinn að líklegast hafi oft meira hrygnt við Suðurland heldur en síðustu ár. Í ár hafi hrognaþroski loðnunnar sem var á ferðinni verið mjög misjafn og hluti göngunnar hafi einfaldlega ekki komist vestur fyrir land til að hrygna.
„Við vitum ekki hvað verður um þessar lirfur sem koma út úr hrygningu fyrir norðan, en fyrir Norðurlandi er austlægur strandstraumur. Lirfurnar berast með straumum og fara eitthvað annað en til norðurs og norðvesturs eins og eftir hrygningu fyrir Suður- og Vesturlandi.
Lirfurannsóknir eru eitt af þeim rannsóknaverkefnum sem við erum með í gangi með áherslu á ungviðið og hvað verður um lirfur og seiði,“ segir Þorsteinn Sigurðsson.