Sviðsljós
Ágúst Ásgeirsson
agas@mbl.is
Everestfjallið er ekki endilega hið hæsta í heimi, en það fer þó eftir því hvernig hæð fjalla er mæld og hvaðan og hverjir mæla hæðina. Flestir ef ekki allir hafa staðið í þeirri trú, að hið volduga fjall sé hið hæsta í heimi. Allir hafa þeir hins vegar rangt fyrir sér því eldkeilan Chimborazo í hálöndum Andesfjalla í Ekvador teygir sig lengra upp í loftið. Það fer þó, eins og fyrr segir, eftir því við hvað er miðað. Sé miðað við yfirborð sjávar þá er tindur Everest umtalsvert hærri, eða 8.848 metrum yfir haffletinum og Chimborazo 6.263 metrum. Sé hins vegar miðað við jarðarmiðju verður niðurstaðan allt önnur, eða 1.811 metrar Ekvadorfjallinu í hag, eða sem svarar tvöfaldri hæð Esju.
Hvernig má þá telja Chimborazo hærra og í hverju liggur mismunurinn? Skýringin felst í því að jörðin er ekki fullkomin kúla, segir Christophe Basile, rannsóknarstjóri í Jarðvísindastofnun Grenoble í Frakklandi, í umfjöllun um fjöllin háu í útbreiddasta dagblaði landsins, Ouest-France. Vegna miðflóttaaflsins er hnötturinn nokkuð flattur við pólana en „bústinn“ við miðbaug, að hans sögn. Á máli stærðfræðinnar er talað um pólflata hnattlögun, snúðvölu. Vegna þessara áhrifa getur fólk í Ekvador, Kenýu, Tansaníu og Indónesíu verið allt að 20 kílómetrum nær tunglinu en íbúar svæða í grennd við norður- og suðurpól.
Þar sem Chimborazo er að finna er vegalengdin frá jarðarmiðjunni upp á yfirborð jarðar um 21 kílómetra lengri en við heimskautin. Fjallstoppur Chimborazo er 6.384,416 kílómetrum yfir jarðarmiðju en toppur Everest, sem er miklu norðar á jarðarkringlunni, 6.382,605 kílómetrum. Út frá þessu viðmiði teygir tindur Chimborazo sig 1.811 metrum lengra upp í loftið.
„Það má líka skemmta sér við það að skoða hæð fjalla út frá jarðflekum úthafanna. Með þeim útreikningum hefur eldfjallið Mauna Kea á Hawai vinninginn. Hæð þess mælist þannig 10.210 metrar,“ bætir Basile glettinn við.
Ítrekaðar mælingar
Það þarf ekki að koma á óvart þótt kæmi til diplómatískra deilna um hæð fjalla. Jafnvel þótt Chimborazo sé hæst þá er við því að búast að Everest teljist áfram drottning fjalla vegna hæðarinnar yfir sjávarmáli. Og þetta 50 milljóna ára gamla fjall er enn að hækka vegna jarðhreyfinga í Himalajafjöllum. Menn hafa ekki alltaf verið sammála um hæð Everest. Á tímum breskra yfirráða í Indlandi sýndu landmælingamenn tindi XV sérstakan áhuga og reiknuðu út að hann væri næstum 9.000 metrum yfir sjávarmáli. Árið 1865 var tindi þessum gefið nýtt nafn, Everest, til heiðurs mælingamanninum Georges Everest.Opinber hæð Everest er 8.848 metrar samkvæmt indverskum mælingum árið 1954. Ekki eru allir sáttir við þá tölu og hefur útkoman aldrei verið sú sama í þeim tilvikum sem hæð fjallsins hefur verið mæld. Ítalskur leiðangur fann út árið 1992 að hæðin væri 8.845,9 metrar en bandarískur leiðangur hækkaði fjallið á ný og það umfram hina opinberu hæð, eða í 8.849,9 metra.
Í framhaldi af öflugum jarðskjálfta árið 2015 hafa jarðfræðingar staðfest að tindurinn hafi lækkað um þrjá sentímetra. En til hvers er að efast um hina opinberu hæð og ergja með því Nepala en þeirra er tindurinn. Þeir velja „fjallið sitt“ en þeir gruna reyndar Kínverja um tilraunir til að reyna að knýja fram lægri hæðartölur. „Hvernig mynduð þér bregðast við reyndi erlent ríki að láta fjöllin ykkar sýnast lægri, án þess að bera það undir ykkur?“ spyr Buddhi Narayan Shrestha, fyrrverandi forstjóri Jarðvísindastofnunar Nepal í viðtali í The New York Times. Áforma yfirvöld í Nepal að komast sjálf að því sanna um núverandi hæð Everest með því að senda sveit sjerpa með GPS-mælitæki upp á fjallstindinn.
Verulega breytileg hæð
Fyrrnefndur Basile segir að ágreiningur um mælihæðina sé fátt annað en stormur í vatnsglasi. Allar mælihæðir sem miðað er við séu samkomulagsatriði. Til dæmis sveiflist hæð hæsta fjalls Evrópu, Mont Blanc, eftir árstíðum og snjóalögum. Yfirborð sjávarmáls sé einnig afar breytilegt vegna öldumyndunar og sjávarfalla. Í Frakklandi er sjávarhæðin mæld út frá bryggjumæli í höfninni í Marseille. Núllpunktur hans var fundinn út frá meðaltals-sjávarhæð við höfnina á árunum 1885 til 1897. Hvert land ákveði sjálft sinn núllpunkt og séu þeir almennt teknir sem góðir og gildir af þjóðum heims.Með því að klífa Chimborazo geta menn hreykt sér af því að hafa klifrað hæst í átt til himna. Góðu fréttirnar eru þær, að uppganga á þetta fjall er miklu léttari en á Everest. Það er þó engum vafa undirorpið að það er eitthvert mesta afrek fjallamennskunnar að klífa nepalska fjallið. Að meðtöldum aðlögunartíma er um að ræða margra vikna þrekvirki í þunnu lofti og kulda. Fjöldi þeirra sem komist hafa alla leið upp á topp er ekki svo ýkja mikill.
Stærsta fjall heims
Þótt verulega vanti á að hann nái lengst út í geim frá jörðu stendur alltént eftir að með sína 8.850 metra er Everest hæsta fjall veraldar yfir sjávarmáli. Stærsta fjall heims verður aftur á móti eldfjallið óvirka Mauna Kea á Hawaii sé miðað við jarðskorpuna eingöngu. Eldstöðin rís aðeins 4.205 metra yfir sjávarmál en er 6.000 metrar undir sjó. Með öðrum orðum er meira en helmingur fjallsins neðansjávar. Því telst Mauna Kea rúmlega 10 kílómetra hátt, eða stærsta fjall heims.Eldfjall þetta er aðeins einnar milljónar ára gamalt og varð til við jarðskorpuhreyfingar eftir að Kyrrahafsplatan gekk yfir jarðhitasvæði Hawaii. Gríðarlegur kvikustrókur streymdi úr iðrum jarðar og þegar gosið linnti látum stóð Mauna Kea eftir. Síðast gaus fjallið fyrir 4.600 árum. Það er meðal annars frægt fyrir stærstu stjörnufræðirannsóknarstöð heims, sem staðsett er efst í fjallinu, en kjarni hennar er þrjátíu metra stjörnusjónauki sem kostaði 1,4 milljarða dollara. Þar sem fjallstindurinn er ofar 40% lofthjúps jarðar og loftið einstaklega þurrt og sjaldnast ský á himni er staðurinn ákjósanlegur til stjörnurannsókna.
Tæknilega séð má segja að sá sem gengur á tind Mauna Kea standi á hæsta bletti heims. Þangað er afar auðveldur gangur og finnst fæstum tiltökumál enda stærir sig enginn af því klifri. Í leiðinni er Mauna Kea hæsta eldfjall heims. En vegna hnattlögunarinnar eru svæði við miðbaug sem teygja sig hærra til lofts, eins og til að mynda hitt óvirka eldfjallið, Chimborazo í Ekvador, miðað við jarðarmiðju. Þetta fjall er ekki einu sinni hæst í Andesfjöllunum en nýtur þess að vera aðeins eina gráðu suður af miðbaug jarðar. Er tindur þess 21 milljón fet yfir jarðarmiðju. Everest situr 28 gráður norðan við miðbaug, eða þriðjung leiðarinnar til norðurpólsins, og kemst ekki á lista yfir 20 hæstu tinda jarðar sé miðað við hæð fjalla frá jarðarmiðju.
Ísfell nær lengst til lofts
Uppruni nafns Chimborazo þykir óljós. Fræðingar segja það samsett úr tveimur orðum; schingbu sem þýðir konur í fornu máli Cayapaindjána og razo. Útkoman úr því er „Snækonur“ en meðal íbúa í grennd fjallsins gengur það einróma undir nafninu Urcorazo, eða „Ísfell“. Að sögn mannfræðinga hefur Chimborazo verið talið heilagt frá því löngu áður er Kólumbus sigldi til Mið-Ameríku. Nýtur það enn sömu lotningar „vegna nálægðarinnar við Guð“ og hina heilögu anda. Þótt mun léttara sé að klífa Chimborazo en Everest þá hefur fjallið sínar áskoranir. Er það um tveggja vikna leiðangur að ná á tindinn. Mikill jökull er efst á fjallinu og hlíðum þess. Þar getur orðið mjög erfitt veður og snjóflóðahætta er mikil.Nú mun eflaust sitt sýnast hverjum um hæð fjalla. Í stuttu máli telst Everest hálægast þar sem hæð þess yfir sjávarmáli er meiri en annarra fjalla. Eyjan Mauna Kea er stærra fjall sé reiknað út frá jarðskorpunni, þ.e. grunni fjallsins og upp á topp. Fæst þá enn stærra fjall en Everest, eða ríflega 10 kílómetra hátt. Munar þar rúmum kílómetra. Á Chimborazo komast menn hins vegar næst guðum sínum.