Íslandsbanki lagði fram röng gögn í gagnaherbergi sem dómkvöddum matsmönnum var veitt aðgengi að í máli þar sem deilt er um verðmæti þeirra eigna sem Íslandsbanki keypti af Gamla Byr og ríkissjóði Íslands.
Viðskiptin áttu sér stað árið 2011 og hljóðuðu upp á 6,6 milljarða króna. Telur Íslandsbanki að virðisrýrnun kröfusafns Byrs hafi leitt til fjártjóns bankans og hefur hann af þeim sökum gert kröfu á hendur Byr og ríkissjóði sem hljóðar upp á hærri fjárhæð en nam kaupverðinu á sínum tíma eða 7,7 milljarða auk vaxta.
Nú hefur komið fram í dómsmáli sem Byr höfðaði gegn Íslandsbanka að hinn 24. maí á síðasta ári hafi gögn sem bankinn lagði fyrir fyrrnefnda matsmenn gefið til kynna að 993 lán sem bankinn tók yfir með kaupunum hafi verið án trygginga. Hafi matsmönnum verið ætlað að meta verðmæti þeirra á þeim forsendum. Hins vegar hafi komið í ljós að tryggingar hafi legið að baki þeim flestum. Gestur Jónsson, lögmaður Byrs, segir að ef byggt væri á hinum röngu gögnum gæti það leitt til þess að Íslandsbanki auðgaðist með ólögmætum hætti á kostnað annarra kröfuhafa og hluthafa Byrs.
„Við höfum mörg dæmi um það að kröfur sem Íslandsbanki segir að hafi tapast að stærstum hluta hafi fengist greiddar á grundvelli trygginga sem lágu að baki þeim. Það gengur einfaldlega ekki að bankinn, sem gert hafði fleiri en eina áreiðanleikakönnun á eignasafni Byrs þegar kaupin gengu í gegn, fari með þessum hætti með uppgjör þessara krafna og láti eins og að hann hafi orðið fyrir tjóni af völdum þeirra,“ segir Gestur. ViðskiptaMogginn leitaði viðbragða Jóns Guðna Ómarssonar, fjármálastjóra Íslandsbanka, vegna málsins.
„Ég get staðfest að hluti af gögnunum, sem lögð voru fram, var ekki að öllu leyti réttur. Það skýrist fyrst og fremst af því að þau eru að verða yfir 10 ára gömul og vistuð að hluta í tölvukerfum sem hætt er að notast við. Matsmenn hafa hins vegar síðan þá kallað eftir miklu magni af gögnum og eru að vinna úr þeim og er vonast til að niðurstaða liggi fyrir á allra næstu mánuðum.“
Í málinu sem nú er rekið fyrir dómstólum krefst Byr þess að málatilbúnaður Íslandsbanka verði látinn niður falla við svo búið, en það er forsenda þess að hægt sé að greiða kröfu- og hluthöfum Byrs út þá fjármuni sem liggja inni í fyrirtækinu en nauðasamningur þess var samþykktur í janúar 2016. Vegna yfirvofandi kröfu Íslandsbanka hefur það ekki reynst mögulegt. Íslandsbanki krefst þess að matsmenn ljúki vinnu við virðismatið en sú vinna hefur staðið yfir frá 2014.