Fimm Silvía Björgvinsdóttir var markahæst gegn Rúmeníu í gær. Íslenska liðið mætir Taívan í lokaleik sínum á heimsmeistaramótinu á Spáni á morgun.
Fimm Silvía Björgvinsdóttir var markahæst gegn Rúmeníu í gær. Íslenska liðið mætir Taívan í lokaleik sínum á heimsmeistaramótinu á Spáni á morgun. — Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason
Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí vann sannkallaðan risasigur gegn Rúmeníu þegar þjóðirnar mættust í gær í B-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins sem nú stendur yfir í Valdemoro á Spáni.

Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí vann sannkallaðan risasigur gegn Rúmeníu þegar þjóðirnar mættust í gær í B-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins sem nú stendur yfir í Valdemoro á Spáni. Lokatölur urðu 12:1 og fyrir síðasta leikinn gegn Taívan á morgun er Ísland með örlögin í eigin höndum hvað verðlaun varðar.

Það var snemma ljóst í hvað stefndi eftir að Flosrún Vaka Jóhannesdóttir kom Íslandi yfir eftir rétt rúma mínútu. Eftir fylgdu fjögur mörk í fyrsta leikhluta og staðan að honum loknum 5:0 fyrir Ísland. Í öðrum leikhluta minnkaði Rúmenía muninn, en Ísland bætti tveimur mörkum við og var 7:1 yfir fyrir þriðja og síðasta leikhluta.

Eftir níu sekúndur í honum kom áttunda mark Íslands, sem skoraði alls fimm mörk í leikhlutanum og vann risasigur 12:1. Silvía Björgvinsdóttir skoraði fimm af mörkum Íslands í leiknum og Herborg Geirsdóttir skoraði þrjú en Flosrún, Kristín Ingadóttir, Sunna Björgvinsdóttir og Arndís Sigurðardóttir gerðu eitt mark hver og Sarah Smiley átti fjórar stoðsendingar.

Spánn og Taívan voru efst og jöfn með 9 stig fyrir leik liðanna seint í gærkvöld en honum var ekki lokið þegar blaðið fór í prentun. Ísland er með 8 stig og Nýja-Sjáland 7 en Rúmenía og Tyrkland eru án stiga á botninum. andriyrkill@mbl.is