Ferðafélaginn Þeir sem þurfa að ferðast mikið vegna vinnunnar vita hversu þreytandi það getur verið að lifa upp úr ferðatösku. Í hvert skipti sem komið er í nýtt hótelherbergi þarf að róta í töskunni til að finna hrein og slétt föt, og fyrr en varir er ýmist allt skipulag ofan í töskunni farið út í veður vind, eða þá að búið er að dreifa innvolsi hennar um allt herbergið.
Ferðataskan frá kanadíska fyrirtækinu Lifepack ætti að geta létt ferðalöngum lífið. Hugmyndin er ósköp einföld: inni í töskunni er samanbrjótanleg fatahilla sem hægt er að festa í einum hvelli á slá inni í skáp, eða á handfang töskunnar svo að úr verður frístandandi hilla þar sem að allt helst skipulagt og aðgengilegt.
Lifepack taskan er 55 x 36,5 x 23 cm á stærð og má því fara sem handfarangur hvort heldur sem flogið er með WOW eða Icelandair.
Safnað var fyrir framleiðslunni á IndieGogo en taskan er núna komin í almenna sölu og kostar 189 dali á Amazon. ai@mbl.is