Tækifæri Starfsmenn Kjörís útbúa ísblönduna. Betri rekstarskilyrði gætu skapað grundvöll fyrir útflutningi sem aftur myndi skapa störf og verðmæti.
Tækifæri Starfsmenn Kjörís útbúa ísblönduna. Betri rekstarskilyrði gætu skapað grundvöll fyrir útflutningi sem aftur myndi skapa störf og verðmæti. — Morgunblaðið/Golli
Rekstrarumhverfi sem bætir samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja þýðir að þau verða betur í stakk búin til að ráðast í útflutning . Með útflutningi verður reksturinn hagkvæmari svo að lækka má verð, og ný störf verða til.

Rekstrarumhverfi sem bætir samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja þýðir að þau verða betur í stakk búin til að ráðast í útflutning . Með útflutningi verður reksturinn hagkvæmari svo að lækka má verð, og ný störf verða til. Segir Guðrún að allt haldist í hendur:réttar ákvarðanir stjórnvalda, öflugur atvinnurekstur í landinu og góð lífskjör almennings. „Stærð íslenska markaðarins setur okkur ákveðin takmörk enda neytendurnir ekki fleiri en 330.000 talsins. Með því að geta átt erindi við erlenda markaði og þannig aukið bæði sölu og veltu væri hægt að skapa fleiri störf og skapa meiri verðmæti fyrir þjóðarbúið.“

Guðrún bendir á að á Íslandi starfi um 40.000 manns í iðnaði af ýmsum toga, allt frá kvikmyndaframleiðslu og matvælagerð yfir í áliðnað og smíði fullkominna fiskvinnslutækja. „Ríflega einn af hverjum fimm launþegum starfar í iðnaði og því í grein sem við viljum standa vörð um og efla.“

Hún nefnir sem dæmi hve áhrifin gætu verið mikil hjá ekki stærra fyrirtæki en Kjörís ef samkeppnisforsendurnar við útlönd væru aðrar. „Við rekum þetta tiltölulega litla fyrirtæki í Hveragerði með rétt um 60 starfsmenn. Væri hægt að nýta dýr framleiðslutækin betur ef markaðurinn væri stærri og getum við t.d. gert okkur í hugarlund að ef tækist að koma í kring sölu inn á Bretlandsmarkað myndi í sjálfu sér ekki þurfa nema að komast að hjá nokkrum stórmörkuðum til að hér þyrfti að vinna á tvöföldum eða þreföldum vöktum. Það myndi síðan þýða að fjölga þyrfti starfsmönnum úr 60 upp í 80 eða jafnvel 120, og liggur í hlutarins eðli að það yrði mikil innspýting fyrir samfélag eins og Hveragerði þar sem búa í dag um 2.500 manns.“

Guðrún segir dæmið til þess fallið að sýna hvaða kraftar gætu losnað úr læðingi ef að rekstrarumhverfið ýtti undir samkeppnishæfni íslensks iðnaðar frekar en draga úr henni. „Með okkar fyrirtæki, rétt eins og önnur, þýðir aukið svigrúm að tækifærunum fjölgar til að framleiða meiri verðmæti, hækka laun og bæta lífskjör.“

Nefnir Guðrún tryggingagjaldið sérstaklega í þessu samhengi. „Þrátt fyrir endalaus loforð um lækkun er það enn mjög hátt í samanburði við það sem var fyrir 2009. Með lækkun tryggingargjalds gæfist iðnaðinum tækifæri til eflast og fara í þarfar fjárfestingar.“