Jarðhitaveitur
Arctic Green Energy og Sinopec Green Energy Geothermal hafa tryggt sér fjármögnun upp á 250 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði 25 milljarða króna, frá Þróunarbanka Asíu til áframhaldandi stækkunar á verkefnum í Kína sem snúa að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis á borð við kol, olíu og gas til húshitunar og loftkælingar.
Skrifað var undir samstarfssamning í Gamla bíói í gær. Þar kom fram að um sé að ræða stærstu fjárfestingu Íslendinga í Kína og að yfirlýst markmið beggja aðila sé að draga úr loftmengun og losun gróðurhúsalofttegunda.
Arctic Green Energy er íslenskt félag sem stofnað var til að þróa og reka umhverfisvænar jarðhitaveitur í Asíu með íslensku hugviti og þekkingu. Sinopec Green Energy var stofnað árið 2006 og er í eigu Arctic Green Energy og kínverska félagsins Sinopec sem er þriðja stærsta fyrirtæki heims. SGE er stærsta jarðhitaveita heims með 328 hitaveitustöðvar í um 40 borgum og sýslum í Kína. tfh@mbl.is