„Það er mjög spennandi að fá að móta áfram tillöguna sem við lögðum fram,“ segir Elín Hansdóttir og bætir við að nú taki þau Carson Chan sýningarstjóri að vinna tillöguna ítarlega.
Hún er ekki reiðubúin að lýsa fyrirhuguðu verki en segist halda áfram á svipaðan hátt og í verkum sínum undanfarin tíu ár, við „að skapa einhvers konar umhverfi, heildarheim, sem fólk gengur inn í og breytir sýn þess á umhverfið.“
Verk Elínar bjóða upp á virka skynjun og upplifun áhorfandans og svo er einnig í þessari tillögu, með áherslu „á myndlistarupplifun sem þarfnast ekki endilega texta til útskýringar. Beina upplifun sem höfðar til skynjunar mannsins og kveikir meðal annars spurningar sem lúta að tilvist okkar,“ segir hún.
Elín kynntist sýningarstjóranum Carson Chan fyrst í Berlín fyrir um fimmtán árum. Hann er arkitekt og sýningarstjóri og leggur nú stund á doktorsnám í Bandaríkjunum. „Ég vann með honum að verkefni í Marokkó fyrir sex árum,“ segir Elín, en það var verkið „Mud Brick Spiral“, sem var hlaðið úr leirmúrsteinum úti undir beru lofti. „Við höldum nú áfram með þær hugmyndir, að nota lífrænt efni sem byggingarefni.“ Og hugmyndin að verkinu hefur lifað með henni í nokkur ár. „Það hefur ekki verið almennilegur vettvangur fyrir það, fyrr en nú. Veðráttan í Feneyjum, hitinn og rakinn, býður upp á að við getum notað plöntur þar sem byggingarefni,“ segir Elín og bætir við að sex vikur til að þróa verkið áfram sé knappur tími. „En það er mjög spennandi að fá að taka þátt í þessu og þróa hugmyndina áfram.“