Margrét Þorbjörg (Vilhjálmsson) Norland fæddist í Edinborg í Skotlandi 29. júlí 1929. Hún lést á Landspítala Fossvogi 8. mars 2018.
Foreldrar Margrétar voru Kristín Thors húsmóðir, f. 16.2. 1899 á Akranesi, d. 27.7. 1972, og Guðmundur Vilhjálmsson, forstjóri Eimskipafélags Íslands, f. 11.6. 1891 á Undirvegg í N-Þingeyjarsýslu, d. 26.9. 1965. Systkini Margrétar: Thor, f. 12.8. 1925, d. 2.3. 2011, Helga Alice, f. 15.8. 1926, Guðmundur William, f. 24.5. 1928, og Hallgrímur, f. 26.11. 1930, d. 7.4. 1945.
Margrét giftist 23. ágúst 1952 Sverri Norland rafmagnsverkfræðingi, f. í Haramsöy í Noregi 8.1. 1927, d. 26.6. 2007. Foreldrar hans voru Jón Jóhannesson Norland héraðslæknir í Noregi, f. í Hindisvík á Vatnsnesi 27.12. 1887, d. 17.2. 1939, og Þórleif Pétursdóttir Norland, fulltrúi hjá Ríkisútvarpinu, f. á Gautlöndum í Mývatnssveit 29.11. 1894, d. 12.11. 1974.
Margrét og Sverrir eignuðust þrjú börn sem eru: 1) Kristín, f. 1953, framhaldsskólakennari. 2) Jón, f. 1957, forstjóri, kvæntur Sigríði L. Signarsdóttur, f. 1961, heimilislækni. Börn þeirra eru Sverrir, f. 1986, Kristján, f. 1992, og Guðmundur Óli, f. 1993. 3) Halla, rafmagnsverkfræðingur. Börn hennar og Valdimars Sigurðssonar eru Margrét Halla, f. 1995, og Lárus Thor, f. 2001.
Margrét varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1949. Margrét og Sverrir bjuggu fyrst við Egilsgötu í Reykjavík en reistu síðan raðhús ásamt þremur öðrum fjölskyldum í Ljósheimum og fluttust þangað árið 1959. Þar bjuggu þau í tæpa þrjá áratugi uns þau fluttust á Sunnuveg 5 árið 1987. Sverrir lést árið 2007 og bjó Margrét á Sunnuvegi allt til dánardægurs.
Árið 1954 hóf Sverrir störf sem verkfræðingur hjá Paul Smith. 1956 breyttist fyrirtækið í Smith & Norland hf. og starfaði Sverrir þar sem forstjóri uns hann andaðist, í samtals 51 ár. Smith & Norland er enn í eigu fjölskyldunnar. Margrét var ávallt heimavinnandi en tók umtalsverðan þátt í rekstri fjölskyldufyrirtækisins með því að styðja við Sverri á ýmsan hátt. Hún tók m.a. með honum á móti erlendum gestum og einnig ferðuðust þau oft saman í viðskiptaerindum til útlanda, einkum Þýskalands. Að Sverri gengnum var Margrét stjórnarformaður Smith & Norland.
Útför Margrétar verður gerð frá Langholtskirkju í dag, 22. mars 2018, og hefst athöfnin klukkan 13.
Margrét var einstök. Nafnið Margrét merkir perla og perla var hún svo sannarlega; einstök perla, sú fegursta. Ég vonaði alltaf að þessi stund kæmi aldrei. Að hún færi frá okkur hinum, því að hún auðgaði tilveruna svo mikið. Það er erfitt að hugsa sér heiminn án Margrétar ömmu.
Hún þekkti ekkert kynslóðabil, átti vini á öllum aldri, var traustur vinur en umfram allt skemmtileg. Hún bjó alla tíð að vinum úr æsku og menntaskóla. Henni fannst einnig gaman að vera með ungu fólki, helst fólki á öllum aldri, vera þar sem stuðið var og líflegar samræður.
Fjölskyldan var henni mjög mikilvæg. Ung var ég gefin honum Nonna mínum, einkasyninum, og tekið opnum örmum frá fyrstu tíð. Þau afi buðu allri fjölskyldunni iðulega í mat á sunnudögum. Það voru dýrmætar stundir. Þar voru einnig Kristín og Halla, systur Nonna, og fjölskyldur. Og maturinn, umm ... þvílíkur meistarakokkur! Hátíðleikinn á jólum og páskum, fagurkeri var hún jú, arineldurinn, ámálaða postulínið hennar, sem hún gerði sjálf, það fallegasta sem gert hefur verið.
Tískudrósin Margrét, alltaf svo fín og flott í vönduðum fötum og hælaskóm fram á síðasta dag. Margir ungir menn fengu víst hálsríg i den þegar hún gekk eftir Austurstræti, glæsileg á sínum grönnu og fögru fótleggjum.
Bókaormurinn Margrét, ávallt bókastaflar á borðinu milli hægindastólanna í koníaksstofunni, margt í gangi í einu. Þegar litið var inn í heimsókn var talað um allt milli himins og jarðar, það mátti ræða um allt við ömmu. Svo var gott að fá sér te og ristað brauð með eðalosti völdum af ostakonunni Margréti.
Synir okkar áttu mikinn fjársjóð í ömmu sinni. Hún sótti þá alla í skólann einu sinni í viku alveg frá unga aldri og eyddi með þeim deginum, það var farið í bakarí og gert vel við sig. Svo var leikið eða spilað heima á Sunnuvegi. Að endingu snæddur kvöldverður og afi skutlaði svo heim. Þessi venja tíðkaðist fram á unglingsár, mér er skapi næst að halda fram á menntaskólaár. Þessi samvera lagði grunn að þeim góðu og sterku einstaklingum sem þessir drengir eru nú.
Og svo hafði bæst eitt langömmubarn í hópinn, Alma, sem verður brátt eins árs gömul. Hún fæddist í New York, þar sem Sverrir og Cerise hafa verið búsett í fjögur ár. Margrét sá hana í október sl. þegar litla fjölskyldan kom í Íslandsheimsókn. Þá urðu fagnaðarfundir og sú litla hafði gaman af að sitja í fangi langömmu og skoða hringana hennar.
Það myndaðist nokkuð föst hefð fyrir því að Margrét kæmi í mat til okkar á laugardagskvöldum í Stigahlíðina eftir að Sverrir féll frá árið 2007. Um margt var þá skrafað. Anna móðir mín var oft líka með okkur og þá var stundum gripið í spil og kannski einnig leikið eitt eða tvö lög á píanó og gítar. Þetta voru indælar og ljúfar stundir. Margrét gerði alla í kringum sig að betri manneskjum með sinni ljúfu nærveru.
Að lokum langar mig að þakka Margréti tengdamóður minni allt og allt með þessum fátæklegu orðum. Hún var mér alltaf svo ljúf og kær, stoð og stytta. Minningin lifir ætíð.
Sigríður Lilja.
Sverrir.
Margrét var sterkur persónuleiki, greind kona, vel lesin á markverðar bækur. Hún veitti vinum og öðrum mikinn styrk sem virkur þátttakandi í raunum þeirra. En í gleði skyldu aðrir fagna með henni. Rausnarskapur var ávallt á heimili hennar og eiginmanns hennar, Sverris Norland, sem lést fyrir rúmum tíu árum, og hélst slíkur höfðingsháttur á Sunnuvegi eftir lát Sverris.
Margrét hafði góða kímnigáfu sem oft létti lund. Sem roskin kona stríddi hún við ítrekuð beinbrot sem skertu hreyfigetu hennar og ollu talsverðum sársauka. Spurð um hann svaraði hún: Ég tek verkjapillur. Málið var útrætt.
Samband okkar Margrétar, bróður og systur, varð enn nánara með árunum og mun ég sakna tíðra símtala okkar sem voru mér dýrmæt.
Elsku systir mín, við Lillý kveðjum þig. Nánd mun haldast í minningum. Við sendum börnum Margrétar og fjölskyldum þeirra, sem og Helgu systur okkar Margrétar, innilegar samúðarkveðjur.
Guðmundur W.
Vilhjálmsson.
Á æskuárum voru fjölskyldufundir tíðir á Bergstaðastræti hjá afa okkar og ömmu í húsi sem í minningunni var ógnarstórt en minnkaði talsvert þegar við systkinabörnin heimsóttum nýlega biskupinn sem nú býr þar. Margrét var með okkur og auðfundið að margar minningar kviknuðu við að koma aftur í hús bernsku sinnar. Hjá okkur rifjuðust upp jólaboð og áramótaveislur og aðrir gleðifundir æskunnar í þessari fjölskyldumiðstöð þar sem Margrét Norland var sannarlega hrókur alls fagnaðar og þau Sverrir bæði; glæsileg og samlynd hjón.
Margrét var örlynd og fjörug í skapi, fyndin og orðheppin – lék sér með tungumálið og manni fannst hún tala hálfgert sérmál með sínum sérstöku orðatiltækjum. Maður sér hana fyrir sér í Ljósheimunum, fallega og alltaf vel til hafða, að ryksuga með sígarettuna í munnvikinu, sem maður mændi á og beið þess að askan dytti af stubbinum, sem hún gerði þó aldrei, hversu sem hún óx.
Margrét var einstaklega umhyggjusöm og örlát svo af bar, vakti yfir velferð og farnaði sinna nánustu, raunar allra í sínum stóra ættarranni; studdi af nærgætni þegar þurfti og kom færandi hendi á gleðistundum. Minnisstætt er þegar öll fjölskyldan í Karfavogi lá í einum af þessum skæðu inflúensum sem komu alltaf einu sinni á ári, og þá birtist Margrét eins og frelsandi engill með mat handa okkur öllum – og sitt glaðlega og hlýja viðmót.
Þau Sverrir voru samstiga í lífinu, stolt hvort af öðru og sínum glæsilegu börnum og barnabörnum en hógvær og lítið gefin fyrir að flíka einkamálum og það átti Margrét sammerkt með systkinum sínum. Hún hafði lifandi áhuga á umhverfinu, fólki, atburðum og bókmenntum; las af ástríðu nýjar og gamlar skáldsögur, hafði sterkar skoðanir og það var alltaf gaman að tala við hana.
Margrét var fínleg kona, virtist jafnvel veikbyggð en bjó yfir ógnarstyrk. Þegar á henni dundu margvísleg áföll mætti hún þeim með æðruleysi og húmor, óbuguð til síðustu stundar. Blessuð sé minning Margrétar frænku okkar. Við kveðjum hana með orðunum sem hún notaði alltaf um leið og hún strauk okkur um kinnina með handarbakinu á þann sérstaka hátt sem þessi systkini öll tömdu sér að gera: Blessjú.
Guðmundur Andri og Örnólfur Thorssynir.
Í huga okkar ríkir nú mikill söknuður en jafnframt djúpt þakklæti fyrir vináttu Margrétar og þann kærleika sem hún sýndi okkur alla tíð. Hún giftist ung mági og föðurbróður okkar, Sverri heitnum Norland, sem við virtum svo mikils og var okkur mjög kær. Samvera og samneyti við þau hjónin og fjölskyldu þeirra hefur alla tíð verið okkur mikils virði.
Margrét var margbrotin og greind kona, heimsborgari, sem fylgdist vel með á öllum sviðum mannlífsins. Listir og menning voru þó alltaf í fyrirrúmi, en þar var hún afar vel heima, engir tómir kofar þar. Hún lifði lífinu lifandi, las mikið, sótti tónleika og myndlistarsýningar. Þessa fengu vinir hennar og gestir að njóta í léttum og leikandi samræðum, en Margrét var afar hlý og gestrisin og frábær gestgjafi.
Við minnumst margra samverustunda með henni, þar sem leiftrandi fyndnar athugasemdir hennar flugu með síungum sjarma, sem fylgdi henni alla tíð. Strax koma upp í hugann alls kyns skemmtileg orðatiltæki sem voru hennar og kalla fram hlýju og gleði. Þar má nefna Bless í hausinn á þér, Skítt með Köllu, Blessjú, o.fl. o.fl.
Margrét var glæsileg og smekkleg kona, alltaf vel tilhöfð svo eftir var tekið. Heimili hennar og Sverris heitins var sérstaklega glæsilegt og bar smekkvísi þeirra hjóna gott vitni. Hún bjó yfir miklum styrk og vilja, jafnvel þó að heilsan væri farin að gefa sig hin síðari ár. Margrét hélt vel utan um fjölskyldu sína og vini allt þar til yfir lauk.
Með þakklæti og kærleika kveðjum við Margréti og sendum fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Jósefína (Jossa), Anna og Helga Norland og fjölskyldur.
Það var hátíðleg stund þegar Margrét færði Þjóðminjasafni Íslands að gjöf mesta hátíðarbúning íslenskra kvenna, skautbúninginn, sem hún hafði hlotið í arf frá móður sinni Kristínu sem fékk búninginn eftir móður sína Margréti Þorbjörgu. Þessi skautbúningur er einn sá fallegasti sinnar tegundar hér á landi, gerður samkvæmt tillögum Sigurðar málara, og beltið og sprotinn með búningnum, sem er allt hannað og smíðað af frábærum íslenskum gullsmiðum, er úr skíra gulli. Við það tækifæri flutti Margrét ávarp og minntist ömmu sinnar og móður af hlýju og virðingu. Ekki einungis er búningurinn hreinasta gersemi heldur er allur umbúnaður eins og best er á kosið svo aðdáun vekur.
Margrét var mikil húsmóðir og frábær við alla matargerð. Við minnumst góðra stunda á rausnarlegu og glæsilegu heimili þeirra Sverris, sem voru samtaka í gestrisni sinni og sannir höfðingjar heim að sækja. Hún var fagurkeri og naut sín sem húsfreyja á heimili sínu og öllum leið vel í hlýrri nærveru hennar. Margrét átti það til að gefa vinum sínum eigin gælunöfn sem hún valdi þeim og engum duldist hlýjan sem að baki bjó. Hún var afar vel lesin og vel að sér í heimi bókmennta og fylgdist með því sem var að gerast á þeim vettvangi enda rithöfundar lífs og liðnir í hennar ranni.
Við höfum haldið hópinn árgangur MR '49 og hittumst reglulega. Það var bjart yfir 16. júní 1949 þegar við nýstúdentar gengum fagnandi út í vorið og alls staðar sást til vega. Við höfum ferðast mikið saman innanlands og utan í margar ógleymanlegar ferðir sem yndislegt er að minnast. Enginn gleymir til dæmis ferðinni til Toskana er leiðsögumaðurinn hafði haft töluverðan viðbúnað eins og við var að búast þegar hún sá aldur ferðamannanna. Við höfðum verið að allan daginn á söguslóðum að fræðast um menningu og listir í héraðinu og allir orðnir þreyttir þegar á hótelið kom. En eftir að við höfðum setið að borðum og notið ítalskrar matarkúnstar af bestu gerð var öll þreyta á bak og burt og við fórum að dansa og dönsuðum og sungum fram á rauða nótt. Leiðsögumaðurinn pantaði að vera með okkur í næstu ferð.
Við Hjalti Geir og fjölskyldan öll vottum Kristínu, Nonna og Höllu og fjölskyldum þeirra innilegan samhug vagna fráfalls okkar kæru vinkonu Margrétar. Megi mannkostir hennar fylgja öllu hennar fólki.
Sigríður Th. Erlendsdóttir.
Á þessum tíma var Margrét í Landakotsskóla en ég í Austurbæjarskóla, en það skyggði ekkert á að við gætum orðið vinkonur. Síðar fórum við báðar í tímakennslu til Einars Magg. en hann kenndi okkur fyrir inntökupróf í MR. Aðeins fáir af þessum stóra hópi sem þreyttu það próf komust inn en við hin fórum í Gagnfræðaskóla Reykvíkinga. Ekki fannst mér það leiðinlegt, þar sem sá tími sem við vorum þar var einstaklega skemmtilegur. Síðan sameinuðumst við í 5. bekk og urðum stúdentar frá MR 1949.
Þá um sumarið fór ég til Bandaríkjanna í háskóla í Los Angeles. Margrét kom eftir áramótin og áttum við saman mjög viðburðaríkt og skemmtilegt líf í stórborginni. Engin námslán voru inni í myndinni á þeim tíma svo að dvölin varð bara eitt ár. Á þeim tíma var ekki ætlast til að stelpur færu í langskólanám, stúdentspróf þótti flott. Þess vegna fóru flestar okkar að vinna eftir próf en strákarnir fóru í Háskólann. Slíkur var tíðarandinn.
Margrét fór að vinna hjá Eimskip en ég í Útvegsbankanum. Ég fór síðan í húsmæðraskóla í Noregi í hálft ár, en viti menn, þegar ég kom heim var Margrét komin með kærasta. Hann hét Sverrir Norland. Kynntu þau, seinna, vin Sverris fyrir mér en hann hét Sveinn Björnsson. Við vinkonurnar vorum ekkert að tvínóna við þetta, giftumst báðar piltunum í ágúst árið eftir. Við tóku svo barneignir. Margrét og Sverrir eignuðust þrjú börn, þau Kristínu, Jón og Höllu, allt myndarfólk.
Sverrir stofnaði og rak stórt fyrirtæki með rafmagnsvörur, Smith & Norland, þar sem bæði Jón og Halla starfa, en Kristín er framhaldsskólakennari.
Margrét var alltaf mjög trygg, hjálpsöm og sérstaklega góð og skemmtileg vinkona sem ég og börnin mín eigum eftir að sakna mikið.
Við sendum börnum hennar og allri fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur. Ég segi svo að lokum eins og Margrét sagði alltaf „bye luv“.
Helga Gröndal.
Hnyttin tilsvör hennar voru einstök, að ekki sé minnst á húmor hennar og glaðlyndi í bland við ákveðni og reglufestu, sem þrátt fyrir ýmsa erfiðleika á seinni árum skorti aldrei á.
„Siemens-fjölskyldan“, eins og hún kallaði gjarnan starfsfólk Smith & Norland, var henni ætíð ofarlega í huga og fylgdist hún grannt með lífi og starfi sérhvers þeirra. Þar lét hún þó ekki staðar numið því í umhyggju sinni og áhuga fylgdist hún einnig með mökum, börnum og síðar meir barnabörnum og var með ólíkindum hversu vel henni tókst að fylgjast með öllum þessum fjölda og sýna þeim umhyggju og hlýju.
Margrét var jafnan dugleg við að taka þátt í viðburðum fyrirtækisins, lét sig helst aldrei vanta, og verður hennar sárt saknað í þeim.
Missir okkar er sannarlega mikill en mestur er þó missir barna Margrétar, þeirra Kristínar, Jóns, Höllu og fjölskyldna, og vottum við þeim okkar innilegustu samúð.
Minning um góða konu lifir.
Fyrir hönd starfsfólks Smith & Norland,
Halldór og Páll.
Árin liðu en vegna þessarar langvarandi vináttu foreldra okkar urðum við þess aðnjótandi að halda áfram að hitta Margréti og Sverri. Þau komu gjarnan um helgar og spiluðu bridds, auk þess að mæta í afmæli og aðra viðburði í fjölskyldunni. Margrét hafði einstakt lag á að sýna okkur áhuga og alltaf var stutt í grín og glens frá henni, hún var með einhvern glampa í augunum sem lýsti upp umhverfið og gerði það að verkum að það var allaf tilhlökkun þegar von var á henni í hús. Auk þess var hún sérfræðingur í að gefa spennandi gjafir, oft margar litlar og spennandi og ótrúlega fjölbreytilegar og svo voru afmæliskortin alveg sér á báti, spilandi og oft eitthvað sem spratt út úr þeim.
Margrét var einstaklega fáguð og smekkleg kona og bar bæði klæðaburður hennar og heimili þess merki.
Margrét hefur verið hluti af lífi okkar tvíburanna frá því að við fæddumst og alltaf hefur hún verið okkur fyrirmynd og einstaklega skemmtileg og gefandi að hitta og ræða við.
Við sendum Höllu, Nonna, Kristínu og öllum öðrum í fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur og þökkum fyrir að hafa fengið að kynnast heiðurskonunni Margréti Norland.
Benedikt og Helga Sveinsbörn.
Ragnar G. Kvaran.