Fátt var meira rætt manna í millum í gær en ævintýrleg sigurkarfa Kára Jónssonar, leikmanns Hauka, í annarri viðureign Keflavíkur og Hauka í fyrrakvöld.
Fátt var meira rætt manna í millum í gær en ævintýrleg sigurkarfa Kára Jónssonar, leikmanns Hauka, í annarri viðureign Keflavíkur og Hauka í fyrrakvöld. Eftir að hafa unnið boltann á síðustu sekúndubrotum leiksins þá kastaði Hafnfirðingurinn ungi boltanum yfir endilangan leikvöllinn og smellhitti ofan í körfuna. Eflaust var kastið á þriðja tug metra.

Karfan góða tryggði Haukum sigur í leiknum en nokkrum andartökum áður sáu menn eflaust fram á að leikurinn yrði framlengdur.

Fáeinum sekúndum áður en Kári skoraði sigurkörfuna góðu hafði hann jafnað leikinn fyrir Haukana þegar hann sýndi einstaka yfirvegun og skoraði úr vítaskotum, nánast án þess að blikka auga, raunar brosti hann, þegar flestir hefði nötrað að spennu.

Sjálfur marghorfði ég á skot Kára á þriðjudagskvöldið enda fauk upptakan eins og lauf í haustvindi um samfélagsmiðlana. Í fyrsta skiptið þá hreinlega trúði ég ekki eigin augum. Og ég efaðist við annað áhorf. Skal engan undra því þegar upptaka af atvikinu er skoðuð má sjá fjölmarga stuðningsmenn Keflavíkur sitja sem lamaða í sætum sínum. Þeir virtust heldur ekki trúa sínum eigin augum.

Karfan góða er alveg hreint einstakt atvik í íþróttaheiminum enda hefur upptökuna rekið á fjörur áhugafólks um körfuknattleik um allan heim. Skotið á sér stað undir pressu á síðustu sekúndu í hnífjöfnum úrslitaleik. Eitt er það að körfuknattleiksmaður dragi með kasti sínu alla þessa vegalengd. Hitt er svo að hitta sjálfa körfuna.

Atvik eins og þetta er svo sannarlega krydd í íþróttirnar enda nokkuð sem telst ekki til hins daglega brauðs.