Ásta Hlíf Ágústsdóttir fæddist 11. febrúar 1945. Hún lést 7. mars 2018.
Útför hennar fór fram 16. mars 2018.
Ég var bara þriggja ára þegar Ásta systir flutti á Sólheima og man því lítið eftir henni þegar ég var barn. Við hittumst helst á jólum og fjölskyldusamkomum.
Þegar Gerða kona mín fór að vinna á Sólheimum urðu tengsl okkar sterkari því þá kom Ásta í heimsóknir til okkar og við fórum í stutta bíltúra en Ásta naut þess alltaf að ferðast.
Við Gerða fórum með dætur okkar til Mallorca og þá vildi svo vel til að hópur frá Sólheimum var þar í sumarferð og gisti á sama hóteli og við. Það var gaman að upplifa hve vel þessi litli hópur frá Sólheimum blandaðist hinum gestunum og var skemmtilegur. Við fórum saman út að borða og ég tók bíl á leigu og við fórum í skoðunarferðir um þessa litlu og fallegu eyju. Þessi minning er dýrmæt í huga okkar nú þegar Ásta hefur kvatt. Ásta hafði gaman af tónlist og voru Presley og Ómar Ragnarsson auðvitað í uppáhaldi. Á Sólheimum vann Ásta m.a. í listasmiðju. Hún teiknaði og málaði bæði með olíu og vatnslitum, hún prjónaði og óf teppi og dúka í vefstofunni.
Amma Marsibil var trúrækin og kenndi Ástu faðirvorið og bænir sem hefur væntanlega komið sér vel þegar séra Ingólfur Ástmarsson á Mosfelli fermdi Ástu með nokkrum vinum hennar.
Eftir því sem aldurinn færðist yfir varð heilsan verri og heyrnin daprari. En hún brosti alltaf fallega brosinu sínu þegar við komum í heimsókn.
Ásta fékk hægt andlát eftir stutta sjúkdómslegu á sjúkrahúsinu á Selfossi og erum við fjölskylda hennar þakklát fyrir góða umönnun og nærgætni starfsfólksins.
Kristinn Marinó.