Laun yfirstjórnar VR voru 54,2 milljónir króna á seinasta ári og hækkuðu úr 42,6 milljónum frá árinu á undan. Í nýútkominni ársskýrslu VR kemur fram að laun yfirstjórnar skiptast þannig að laun og bifreiðastyrkir formanna VR voru 26,3 milljónir kr.

Laun yfirstjórnar VR voru 54,2 milljónir króna á seinasta ári og hækkuðu úr 42,6 milljónum frá árinu á undan. Í nýútkominni ársskýrslu VR kemur fram að laun yfirstjórnar skiptast þannig að laun og bifreiðastyrkir formanna VR voru 26,3 milljónir kr. í fyrra en þessir þættir námu 17 milljónum á árinu 2017. Formannaskipti áttu sér stað á seinasta ári en Ragnar Þór Ingólfsson tók við sem formaður 28. mars í fyrra af Ólafíu B. Rafnsdóttur, fyrrv. formanni. Ekki kemur fram hvernig fjárhæðin skiptist á milli þeirra á síðasta ári. Laun og bifreiðastyrkur framkvæmdastjóra VR var 17,5 milljónir í fyrra en 17 millj. kr. árið 2016 og laun stjórnar voru 9,6 milljónir og hækkuðu um eina milljón á milli ára.

Stóraukning vegna geðraskana

Í ávarpi formanns í ársskýrslunni kemur fram að gríðarlega hafi fjölgað þeim félagsmönnum sem leita til Sjúkrasjóðs VR, sem sýni að sjóðurinn er mikilvægur bakhjarl félagsmanna. Greiðsla sjúkradagpeninga hefur aukist um tæplega 73% frá árinu 2006, að teknu tilliti til þróunar launa. Í skýrslunni segir að þessa aukningu megi helst rekja til aukningar geðraskana, sem nam 325% á tímabilinu umfram hækkun launa, og stoðkerfa en þar var aukningin 171% umfram hækkun launa. ,,Milli áranna 2016 og 2017 var aukningin þó mest í sjúkdómaflokknum kviðarhol og meltingarfæri en dagpeningar jukust þar um 88% eða 79% umfram hækkun launa.“

Í ávarpi Ragnars Þórs kemur fram að aukin ásókn er einnig í varasjóð VR, „aldrei hafa fleiri sótt um styrk úr sjóðnum frá stofnun hans fyrir rúmum áratug, tæplega 16 þúsund félagsmenn fengu styrk úr VR varasjóði á árinu 2017. Þá eru starfsmenntasjóðir sem VR á aðild að einnig í sókn, hámarksstyrkur úr sjóðunum var hækkaður á árinu og nýtt fagháskólanám í verslunarstjórnun kynnt, hið fyrsta sinnar tegundar. Námið er unnið í samvinnu við vinnumarkaðinn og háskólana“, segir í ávarpi Ragnars Þórs. omfr@mbl.is