Kaup Seltjarnarnesbæjar á húsinu Ráðagerði, því vestasta í bænum, fyrir 100 milljónir króna eru í höfn. Bærinn hafði forkauprétt á húsinu sem var byggt árið 1890. Það hefur verið í einkaeign en verður í framtíðinni nýtt fyrir til dæmis ýmsa menningarstarfsemi.
„Ég sem menningarfulltrúi bæjarins lýsi yfir miklum áhuga á því að geta nýtt húsið í menningar- eða ferðatengda starfsemi og vil samráð við bæjarbúa um það sem þeir vilja helst sjá á þessum stað,“ segir María Björk Óskarsdóttir.
Efla innviði ferðaþjónustu
Umræða hefur verið um uppbyggingu á vesturhluta Seltjarnarness síðustu misseri auk þess sem kallað hefur verið eftir aðgerðum í tengslum við ferðatengda þjónustu og útiveru á svæðinu. „Með kaupum á Ráðagerði opnast miklir möguleikar fyrir okkur til að nýta húsið og þá lóð sem því fylgir auk þess sem ráðrúm gefst til að vinna hugmyndavinnu og meta hvernig það muni best þjóna íbúum og gestum. Húsið er kjörið sem áningarstaður fyrir íbúa og ferðamenn til dæmis sem kaffihús, sögusafn, upplýsingaveita um Seltjarnarnes, náttúruna, umhverfið, fuglalífið, fornminjarnar og fleira. Einnig sem móttöku- eða fundaraðstaða,“ segir María Björk.Hún minnir á að í skýrslu hóps sem vann við mótun framtíðarstefnu í ferðaþjónustu á Seltjarnarnesi hafi verið nefnt að útbúa þyrfti salernisaðstöðu og efla innviði ferðaþjónustu. Með kaupum á Ráðagerði er stórt skref stigið til þess, því margir fari um þessar slóðir, svo sem vestur á Gróttu. sbs@mbl.is