Magnús Heimir Jónasson
mhj@mbl.is
Allsherjar- og menntmálanefnd Alþingis hafa borist fjölmargar umsagnir frá erlendum samtökum og einstaklingum vegna frumvarps um bann við umskurði drengja. Samtök gyðinga allt frá Belgíu til Bandaríkjanna gagnrýna frumvarpið harðlega á meðan svissnesk barnaréttarsamtök og danskir læknar styðja það.
Jonathan A. Greenblatt, forstjóri Anti-Defamation League (ADL), samtaka gegn gyðingahatri í Bandaríkjunum, ritar Alþingi umsögn þar sem hann bendir Íslendingum á mögulegar efnahagslegar afleiðingar fyrir land og þjóð verði frumvarpið samþykkt. Greenblatt rekur í umsögn sinni öfluga tengingu samtakanna við fjölmiðla vestanhafs og staðhæfir að ímynd Íslands yrði óhjákvæmilega tengd nasisma sem myndi hafa neikvæð áhrif á ferðamennsku.
„Við hvetjum ykkur til að íhuga þýðingarmiklu fjölmiðlaathyglina sem ADL fær í Bandaríkjunum og á heimsvísu. Á síðustu sex mánuðum hafa rannsóknir okkar og sérfræðingar verið á CNN og öðrum kapalsjónvarpsstöðvum, NBC og sjónvarpstöðvum, í fréttaskýringaþættinum 60 Minutes og í leiðandi dagblöðum eins og The New York Times og The Washington Post . Þar sem 28% ferðamanna á Íslandi komu frá Bandaríkjunum árið 2016, ætti ímynd Íslands í Bandaríkjunum að valda áhyggjum, frá efnahagslegum sjónarmiðum. Við erum sannfærð um að meirihluti bandarískra ferðamanna myndi forðast land sem er með orðstír tengdan við nasisma, jafnvel þótt sú tenging væri ekki réttmæt,“ ritar Jonathan í umsögn sinni til Alþingis sem erfitt er að túlka öðruvísi en óbeina hótun.
Læknar styðja frumvarpið
Læknasamfélagið virðist hins vegar einróma í stuðningi sínum við frumvarpið. Alls rita 1.325 íslenskir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður undir stuðning við frumvarpið, ásamt því hefur á fimmta hundrað íslenskra lækna undirritað stuðningsyfirlýsingu. Danskir læknar virðast einnig samhljóða og rita mörg hundruð læknar undir bréf sem segir að siðlaust sé að framkvæma umskurð nema af læknisfræðilegri nauðsyn. „Umskurður, eins og hver önnur aðgerð, veldur sársauka, óþægindum og áhættu á minniháttar eða varanlegum vandkvæðum fyrir sjúklinginn. Umskurður sem er ekki framkvæmdur í læknisfræðilegu meðferðarskyni hefur engan ávinning. Óafturkræft brottnám heilbrigðra og mjög viðkvæmra vefja frá einhverjum, sérstaklega börnum sem eru ekki hæf til að taka upplýsta ákvörðum um samþykki, er mjög siðlaust,“ rita dönsku læknarnir sem hvetja íslenska þingmenn til að samþykkja frumvarpið. Christoph Geissbuhler, framkvæmdastjóri svissnesku barnaréttarsamtakanna, Pro Kinderrechte Schweiz, sendi einnig umsögn til að vekja athygli íslenskra þingmanna á neikvæðum áhrifum umskurðar á drengi.