Mýkt „Okkur fannst mikilvægt að nota sterka og afgerandi liti í allri umgjörðinni utan um svona mýkra og viðkvæmnislegra hreyfiefni,“ segir Katrín Gunnarsdóttir um dansverkið Crescendo sem frumsýnt er í kvöld.
Mýkt „Okkur fannst mikilvægt að nota sterka og afgerandi liti í allri umgjörðinni utan um svona mýkra og viðkvæmnislegra hreyfiefni,“ segir Katrín Gunnarsdóttir um dansverkið Crescendo sem frumsýnt er í kvöld. — Ljósmynd/Owen Fiene
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Mig langaði að skoða sögu líkamlegrar vinnu kvenna og leitaði innblásturs í endurteknar hreyfingar og söngva, með það að markmiði að skapa aðstæður fyrir nána kvenlæga samveru, samhug og samruna,“ segir Katrín Gunnarsdóttir danshöfundur um dansverkið Crescendo sem frumsýnt verður í Tjarnarbíói í kvöld, fimmtudag, kl. 20.30. Dansarar verksins eru Heba Eir Kjeld, Snædís Lilja Ingadóttir og Védís Kjartansdóttir. Sviðsmynd og búninga hannar Eva Signý Berger, hljóðmynd gerir Baldvin Þór Magnússon og lýsingu hannar Jóhann Friðrik Ágústsson.

Að sögn Katrínar skoðaði hún líkamlega vinnu kvenna eins og hún birtist meðal annars í þrifum, barnauppeldi, handavinnu og ýmiskonar bústörfum, bæði hér- og erlendis. „Danstungumálið samanstendur ekki af vinnuhreyfingunum sjálfum. Það má fremur segja að tungumálið sem við sköpum sé innblásið af ýmsum munstrum úr líkamlegri vinnu kvenna og mikið er dansað með höndunum. Við skoðuðum hvað ólík vinna á sameiginleg og í því samhengi má nefna það að ferðast í línu og vinna með hringlaga hreyfingar. Þannig sköpuðum við vinnuorðaforða fyrir dansarana,“ segir Katrín og tekur fram að einnig hafi sér þótt áhugavert að skoða vinnu dansara. „Vinna dansarans birtist í flóknum talningum, það að vera samtaka og læra langar keðjur af hreyfingum. Vinna dansarans og allt sem dansarinn þarf að leggja á sig verður sýnilegt í verkinu.“

Notum röddina til að hlusta

Spurð um titil verksins segir Katrín það vísa til músíkalsks flæðis og um leið til ölduhreyfingar. „Mér fannst spennandi að skoða „crescendo“ sem lágstemmt og óendanlegt flæði í stað einhvers sem stigmagnast með greinilegum hápunkti. Að sumu leyti er verkið viðbragð við því sem verið hefur í gangi með byltingum á borð við #metoo. Ég er að skoða byltingarnar sem mjúka sívaxandi öldu í stað stríðsöskurs og velti upp þeirri spurningu hvort það geti falist „crescendo“ í því að hlusta meira,“ segir Katrín.

Hlustun sem mikilvægt leiðarstef í sýningunni er undirstrikað í hljóðmynd verksins sem samsett er úr upptökum og mögnun á andardrætti og lágværum söng dansaranna þriggja. „Röddin er afskaplega líkamlegt fyrirbæri. Þegar fólk syngur saman í kór þá getur það leitt til þess að hjartslátturinn samstillist. Í þessari sýningu erum við að vinna með frekar hljóðláta rödd sem ætlað er að ná tengingu við aðra í stað þess að berast hátt. Við notum þannig röddina til þess að hlusta,“ segir Katrín og bendir á að raul eða söngl sé notað í ýmsum trúarbrögðum og hugleiðslu til að skapa tengingu. „Við erum að búa til hljóðfálmara til að tengja dansarana, sem fara hægt úr einni hreyfingu í aðra, betur saman. Þetta er mikil nákvæmnisvinna sem krefst þess að dansararnir telji nákvæmlega fyrsta korterið af sýningunni. Sameiginlegur andardráttur og lágt humm hjálpar til við að tengja,“ segir Katrín, en verkið tekur um 50 mínútur í flutningi.

Góð sýning fyrir hjartað

Katrín segir útlit sýningarinnar einkennast af mýkt. „Dansflöturinn samanstendur af stóru teppi sem þýðir að ummerki dansins verða vel sýnileg í áferðinni sem birtist á teppinu. Búningarnir eru búnir til úr mjúkum efnum og litapallettan rauð. Okkur fannst mikilvægt að nota sterka og afgerandi liti í allri umgjörðinni utan um svona mýkra og viðkvæmnislegra hreyfiefni. Ég held að þessi sýning sé mjög góð fyrir hjartað. Þetta er svo mjúkt og fallegt verk,“ segir Katrín sem hlaut Grímuna sem dansari ársins 2017 fyrir sólóverkið Shades of History sem sýnt var í Tjarnarbíói á síðasta leikári við góðar viðtökur.

„Í sólóverkinu var ég að vinna með svipað hreyfimynstur, hægar og krefjandi skiptingar úr einni hreyfingu í aðra. Eftir þá krefjandi og innhverfa vinnu sem sólóverkið kallaði á var gott að fara í samstarf við aðra dansara og spennandi að láta þær Hebu, Snædísi og Védísi vinna með sömu aðferðir. Mér fannst mjög mikilvægt sem danshöfundur að skilja konseptið og hreyfimynstrið í eigin líkama fyrst áður en reynt væri að þýða það yfir á aðra.“

Crescendo er unnin samvinnu við Bora Bora, Dansearena Nord, Dansverkstæðið, Kunstencentrum BUDA, wp Zimmer og styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Reykjavíkurborg. „Við stefnum að því að sýna verkið í Danmörku, mögulega í Sviss og víðar. Íslenski dansmarkaðurinn er svo lítill að það er alltaf gaman að geta sýnt erlendis líka,“ segir Katrín, en fyrst tekur við nýtt hlutverk hjá bæði henni og Védísi, því þær eiga báðar von á sínu fyrsta barni. „Við eigum miklu barnaláni að fagna í þessum hópi,“ segir Katrín og tekur fram að sem betur fer þyki það sjálfsagt hérlendis að dansarar dansi á meðgöngunni svo fremi sem heilsan leyfi. Næstu sýningar verða 27. mars og 6. apríl kl. 20.30. Allar nánari upplýsingar eru á katringunnarsdottir.com og tjarnarbio.is.