Sviðsljós
Anna Lilja Þórisdóttir
annalilja@mbl.is
Spurningarnar voru býsna sakleysislegar. Hversu félagslynd/ur ertu? Hefurðu oft áhyggjur? Hvaða Pokémon ertu? Hvaða orð notarðu oftast?
Þetta var eins konar persónuleikapróf, eitt af þessum óteljandi Facebook-prófum og -leikjum sem við höfum líklega flest tekið þátt í okkur til skemmtunar. Þannig getur maður fengið að vita hvaða persónu í mannkynssögunni maður á mest sameiginlegt með, í öðrum hvaða skordýri eða skyndibitamat maður líkist mest.
Og allt þar á milli.
En nú hefur komið á daginn að áðurnefnt próf var alls ekkert svo sakleysislegt, því upplýsingunum um þá 270.000 Facebook-notendur sem tóku það og vini þeirra á Facebook sem tóku það ekki, var safnað í gagnagrunn sem innihélt upplýsingar um 50 milljónir Bandaríkjamanna sem síðan var nýttur af breska ráðgjafarfyrirtækinu Cambridge Analytica, CA, til að fá bandaríska kjósendur til að kjósa Donald Trump í bandarísku forsetakosningunum í nóvember 2016.
Facebook sver af sér ábyrgð
Hlutabréf í Facebook lækkuðu verulega í kjölfar þessa. Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu sagði að það hefði ekki vitað um þetta athæfi og að CA hefði brotið skilmála Facebook.„Facebook getur ekki fríað sig ábyrgð, því fyrirtækið setur leikreglurnar sem notendur síðunnar þurfa að fara eftir, hvort sem um er að ræða einstaklinga eins og mig og þig eða fyrirtæki á borð við Cambridge Analytica,“ segir Theódór R. Gíslason, tæknistjóri hjá tölvuöryggisfyrirtækinu Syndis.
Hann segir að málið hafi í sjálfu sér ekki komið sér eða öðrum sem vinna að tölvuöryggismálum á óvart og að það sama gildi um fólk sem vinnur að markaðsrannsóknum. Slík öflun upplýsinga hafi lengi verið notuð til að koma ýmsum varningi og skilaboðum á framfæri. Það sem hér sé frábrugðið sé að búinn var til gagnagrunnur þar sem persónueiginleikar fólks voru greindir og skilaboðin sniðin samkvæmt því.
Að sögn Theódórs eru notendaskilmálar Facebook hvorki óljósari né flóknari en skilmálar annarra samfélagsmiðla. Helsti munurinn á Facebook og öðrum vinsælum samfélagsmiðlum sé að Facebook er notað á miklu fjölbreyttari hátt og því gefi notendur að öllu jöfnu talsvert meiri upplýsingar um sjálfa sig þar en á öðrum miðlum.
Hvaða gæludýri líkistu?
Theódór segist telja að þetta mál muni ýta við mörgum. „Satt best að segja hafa margir Facebook-notendur verið værukærir varðandi eigið öryggi. Ég held að þetta mál muni fá marga til að hugsa sig tvisvar um áður en þeir samþykkja að gefa einhverju fyrirtæki eða aðila úti í heimi, sem þeir vita engin deili á, ítarlegar upplýsingar um sjálfa sig bara til að geta fengið að vita hvaða gæludýri þeir líkjast eða eitthvað álíka nytsamlegt.“Theódór segir gott að hafa í huga að í raun og veru sé ekki ókeypis að vera á Facebook, því að í skiptum fyrir að nota síðuna láti notandinn henni í té upplýsingar um sjálfan sig. „Það er verið að selja okkur og okkar upplýsingar. Við gefum þær frá okkur með því að skrifa undir skilmála, sem virðast flóknir, en ég held að við séum að verða meðvitaðri um þessa fríu þjónustu sem við erum að þiggja. Sem er ekkert ókeypis þegar allt kemur til alls.“