Viðtal
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
„Í mínum huga er þetta stærsti áfanginn í starfi Snorrastofu frá upphafi. Hér eru birtar niðurstöður rannsókna sem lengi hafa verið stundaðar. Það er mikilvægt að sjá fyrir endann á þessum verkefnum og hefur áhrif á ímynd stofnunarinnar og möguleika hennar til að efna til nýrra verkefna,“ segir Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu sem er menningar- og miðaldasetur í Reykholti í Borgarfirði.
Hann vísar til þess að um þessar mundir eru að koma út þrjú fræðirit á ensku sem grundvallast á alþjóðlegum rannsóknum sem Snorrastofa hefur staðið fyrir eða tekið þátt í. Bækurnar marka upphaf loka tveggja stórra verkefna Snorrastofu, Reykholtsverkefnisins og goðafræðiverkefnisins.
Tilsniðin hús frá Noregi?
Bókin um miðaldabyggingar í Reykholti, The Buildings of Medieval Reykholt. The Wider Context , er framhald útgáfu af niðurstöðum fornleifarannsókna sem lauk í Reykholti á árinu 2007. Ritstjórar eru Guðrún Sveinbjarnardóttir fornleifafræðingur og Bergur. Þær leiddu meðal annars í ljós byggingar frá tímum Snorra Sturlusonar sem einstakar eru hér á landi. Í bókinni er safn greina ýmissa fræðimanna þar sem leitað er að fyrirmyndum bygginganna, aðallega í Noregi en einnig í Svíþjóð, Danmörku og á Bretlandseyjum.Í bókinni og á ráðstefnunni sem hún byggist á komu fram hugmyndir þess efnis að húsin í Reykholti hafi jafnvel komið tilsniðin frá Noregi þótt Bergur taki fram að útilokað sé að sannreyna það. Í umræðum á ráðstefnunni kom fram að samskonar hús frá 13. öld eru til í Noregi með númeruðum viðum og bendir það til einhverskonar fjöldaframleiðslu. Því má leika sér að þeirri hugsun að viðirnir sem Snorri fékk frá Noregi hafi verið tilsniðnir og einungis þurft að setja húsin saman í Reykholti.
Bergur segir að útgáfa ritsins sé mikilvægur þáttur í því verkefni að fá heillega mynd af Reykholti á tímum Snorra en það hafi einmitt verið markmið Reykholtsverkefnisins sem unnið hefur verið að í nærri tuttugu ár.
Reykholtsverkefnið er þverfaglegt. Þar leggur fjöldi fræðimanna til efni og taka þeir tillit til rannsókna hver annars en spyrja sameiginlegra spurninga. „Þetta er ef til vill stærsta þverfaglega verkefni á sviði húmanískra fræða sem unnið hefur verið að hér á landi,“ segir Bergur.
Í annarri bók um Snorra Sturluson og Reykholt, Snorri Sturluson and Reykholt , sem Guðrún Sveinbjarnardóttir og Helgi Þorláksson sagnfræðiprófessor ritstýra eru dregnar saman niðurstöður Reykholtsverkefnisins. Ritið er gefið út af Museum Tusculanum Press í Danmörku í samvinnu við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og Snorrastofu og er lokabindi verkefnisins. Bergur segir mikinn feng að því að fá sérhæft útgáfufyrirtæki á þessu sviði til að gefa bókina út. Það tryggi gæði efnisins með ritrýni og útbreiðslu ritsins.
Í ritinu er tekið tillit til nýjustu rannsókna og Bergur segir að þar komi fram nýjar kenningar, meðal annars um hlutverk Snorra í tilurð Íslendingasagna og bókmenntagreinarinnar í heild. Raunar er fjallað um ævi og umsvif Snorra og Reykholt frá ýmsum sjónarhornum.
Þriðja bókin sem er að koma úr prentsmiðjunni þessa dagana er fyrsta bindið af fimm í ritröð um niðurstöður verkefnis Snorrastofu og fleiri aðila um norræna goðafræði. Það fjallar um notkun á norrænni goðfræði frá miðöldum og fram til ársins 1830. Ritstjóri er Margaret Clunies Ross, fv. prófessor í Sydney í Ástralíu. Ritið er vandað, gefið út af Brepols Publishers í Belgíu, en meirihluti kostnaðarins við það er greiddur af áströlskum rannsóknarsjóðum.
Nú sér fyrir endann á goðafræðiverkefninu því efnið í seinni bækurnar er nánast tilbúið en ritin munu koma út á næstu árum. Bergur segir að síðasta heildarrit um goðafræði hafi fyrst komið út árið 1936. Ýmislegt hafi gerst í rannsóknum síðan og því fylli goðafræðiverkefnið í eyðu í fræðunum.
Bergur getur þess að heildarkostnaður við verkefnið verði um 170 milljónir kr. Hann er að mestu greiddur af erlendum rannsóknarsjóðum, beint til fræðimanna í hverju landi fyrir sig.
Ný verkefni í undirbúningi
Snorrastofa hefur með þessum ritum komið að útgáfu alls um 18 bóka. Flest ritanna eru alþjóðleg fræðirit. Markhópurinn er fræðimenn, kennarar og nemendur í miðaldafræðum en einnig áhugafólk.Til að koma meira til móts við almenning hér á landi vinnur Guðrún Sveinbjarnardóttir að bók á íslensku um Reykholt í ljósi fornleifa. Er þetta samantekt úr þeim tveimur fræðiritum sem Snorrastofa gaf út ásamt Þjóðminjasafni Íslands um fornleifarannsóknir í Reykholti.
Starfsfólk Snorrastofu hefur ýmis ný verkefni á prjónunum sem taka við af Reykholtsverkefninu og goðafræðiverkefninu. Bergur nefnir tvö.
Annars vegar er rit um höfundarverk Snorra og framhaldslíf. Leitast verður við að varpa ljósi á það hversu mikilvægt hlutverk Snorra var og er í menningarsögunni.
Hins vegar er Þingeyraverkefnið svokallaða. Það er unnið í samvinnu við landeigendur á Þingeyrum í Húnaþingi og Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðing. Snorrastofa mun leggja af mörkum þekkingu á miðaldahandritum þar sem klaustrin koma við sögu og miðlun upplýsinga í gestastofu á Þingeyrum.
Snorri kom víða við. Til dæmis tengdist hann Þingeyraklaustri í gegn um Styrmi Kárason ábóta þar og síðar í Viðey. Bergur hefur áhuga á að tengja Reykholt betur við aðra staði sem komu við sögu Snorra, til dæmis Odda á Rangárvöllum.
Ótalinn er þá undirbúningur að útgáfu á ævisögu Snorra Sturlusonar eftir Óskar Guðmundsson á norsku. Það er gert í samvinnu við Foreningen Snorres venner sem eru hollvinasamtök Snorrastofu í Noregi. Snorri er mikilvægur í Noregi og segir Bergur að samvinna við Norðmenn sé mjög gefandi.