Styrktarfjárhæð sjóðsins er 5 milljónir króna árlega fram til ársins 2020. Heildarstyrkir munu því nema 15 milljónum króna. Í apríl verður hægt að sækja um styrkina og í september verður greint frá úthlutun þeirra til allt að 14 iðnnema.
Markmið með stofnun sjóðsins er að efla umræðu og vitund um mikilvægi iðn- og starfsnáms og þýðingu starfa sem því tengjast fyrir íslenskt atvinnulíf. Skortur er á iðnmenntuðu starfsfólki og er sá skortur víða orðinn hamlandi fyrir starfsemi fyrirtækja. Samtök iðnaðarins og Kvika taka því höndum saman og vilja með stofnun sjóðsins vekja athygli á iðnnámi og hvetja þá sem velja að mennta sig á þessu sviði. Lögð verður áhersla á að jafna hlut kynjanna með því að hvetja konur sérstaklega til að skoða tækifæri sem bjóðast í iðn- og starfsnámi.
Á myndinni eru Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, og Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, við undirritun samningsins.