Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Atvinnulífið getur lagað sig að nánast hverju sem er, en það getur ekki lagað sig að svona ofboðslega miklum sveiflum og breytingum á 6, 12 eða 18 mánaða fresti. Það er stöðugleikinn sem öll fyrirtæki þrá umfram allt, og að það rekstrarumhverfi sem þeim er búið á Íslandi geri þeim fært að stunda skilvirkan og hagkvæman rekstur svo þau geti verið samkeppnishæf við erlenda keppinauta.“
Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins og markaðsstjóri fjölskyldufyrirtækisins Kjörís í Hveragerði. Á Iðnþingi 2018 ræddi Guðrún um þá neikvæðu þróun sem orðið hefur í rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja að undanförnu. „Á aðeins þremur eða fjórum árum höfum við misst nánast alla samkeppnishæfni okkar, og það á við um Ísland eins og öll önnur lönd að alþjóðleg samkeppnisfærni er algjört lykilatriði fyrir blómlegt atvinnulíf.“
Þrengt hefur að atvinnulífinu úr ýmsum áttum. Nefnir Guðrún að mikið innstreymi gjaldeyris samhliða fjölgun ferðamanna hafi styrkt krónuna svo mikið að innlend framleiðsla á erfiðara með að keppa við innflutta vöru. „Þá hafa laun á Íslandi hækkað langt umfram það sem sést hefur í samkeppnislöndum okkar. Raforka er líka orðin dýrari og fasteignagjöld hafa hækkað verulega, sem og mikið af þeim hráefnum sem iðnaðurinn þarf á að halda,“ útskýrir Guðrún og nefnir að mælingar sýni að Sviss er eina landið í heiminum þar sem laun eru hærri en á Íslandi. „Við erum líka með verulega háa vexti og fjármagnskostnaður því meiri baggi á íslenskum fyrirtækjum en þeim erlendu framleiðendum sem þau keppa við. Skattar á atvinnulífið eru einnig meiri en víða annars staðar. Allt leggst þetta á eitt til að gera samkeppnishæfni Íslenskra fyrirtækja miklu verri.“
Er rekstrarumhverfið orðið svo erfitt að sum fyrirtæki hafa þurft að grípa til róttækra aðgerða. Aðlögun getur þýtt að eðli starfsemi breytist, leggist jafnvel af. „Mörgum brá í brún við þær fréttir í janúar að prentsmiðjan Oddi hefði sagt upp 86 starfsmönnum og muni flytja stóran hluta af starfsemi sinni úr landi. Oddi mun selja sömu vörur og áður, en þær verða ekki lengur framleiddar innanlands. Mörg framleiðslufyrirtæki eru í sömu sporum, og eðlilegt að bæði stjórnvöld og Íslendingar sem þjóð spyrji sig hvort hér á að vera rekstrarlegt umhverfi og réttir hvatar til að Ísland geti verið framleiðsluland.“
Hvað er Sviss að gera rétt?
Guðrún segir að það gæti jafnvel verið raunin að marka þurfi þá stefnu að íslensk framleiðslufyrirtæki staðsetji sig nær eingöngu í efri lögum markaðarins. Segir Guðrún ef til vill hægt að líta til hálaunalandsins Sviss sem fyrirmyndar í þessum efnum og leggja á herslu á möguleika á sviðum eins og matvælaframleiðslu og nýtingu íslensks hugvits:„Svisslendingar eru á margan hátt í svipaðri stöðu og Ísland; lítið land og eins konar eyríki í miðri Evrópu sem hefur þurft að laga sig að því að eiga mjög sterka nágranna. Á sama hátt erum við eyríki með réttu og með Bandaríkin öðrum megin við okkur og Evrópusambandið hinum megin,“ útskýrir Guðrún og bætir við að Íslendingar geti lært margt gott af fleiri löndum. „Svisslendingum hefur tekist að byggja upp atvinnulíf sem byggist á hugviti frekar en auðlindum, og búa að framleiðslugreinum sem þykja gríðarlega vandaðar. Í huga okkar allra er það til marks um gæði ef vara er framleidd í Sviss, og þýðir að þeir geta leyft sér að verðleggja sig hátt.“
Sviss er líka þekkt fyrir hófstillta skattheimtu og efnahagslegan stöðugleika. Ekki aðeins þýðir það að fyrirtæki þar standa betur að vígi en í mörgum nágrannalöndunum heldur laðar Sviss til sín fyrirtæki, jafnvel alla leið frá Íslandi. Nefnir Guðrún sem dæmi þegar Actavis flutti höfuðstöðvar sínar til Sviss eða þegar sprotinn Oculis tryggði sér jafnvirði 2,1 milljarðs króna fjárfestingu í byrjun þessa árs og tilkynnti um leið að fyrirtækið myndi flytjast til Sviss.
Þörf fyrir heildræna stefnu
Eitt af þeim skrefum sem Guðrún leggur til að stigin verði til að styrkja stöðu íslensks atvinnulífs er að gerð verði heildræn atvinnustefna. Hún segir slíka stefnu hafa verið mótaða í Sviss, og nú síðast að Bretar lögðust í umfangsmikla stefnumótun vegna þeirra breytinga sem Brexit mun hafa í för með sér.Hún segir að í gegnum tíðina hafi íslensk stjórnvöld mótað sér stefnu í ýmsum málaflokkum, en heildstæða atvinnustefnu hafi vantað til þessa: „Og það er t.d. ekki hægt að móta vandaða menntastefnu nema sé líka búið að móta nýsköpunarstefnu þar sem reynt er að sjá fyrir hvers konar mannauð atvinnulífið mun þurfa á að halda eftir tíu, tuttugu eða þrjátíu ár. Stefnumótunin á mörgum sviðum þarf að vinna saman svo að til verði víðtæk og vönduð stefna fyrir atvinnulífið í heild sinni.“
Nauðsynlegt er líka, að sögn Guðrúnar, að stjórnvöld, atvinnulíf og almenningur í landinu komi að því að efla iðn-, verk- og tæknimenntun. „Það gerum við fyrst og fremst með því að hvetja ungt fólk til að kynna sér fjölbreytt nám á þessu sviði sem og fjölbreytt, vel launuð störf. Í dag eru um 1.500 háskólamenntaðir án atvinnu en atvinnuleysi finnst vart hjá iðnmenntuðum. Fyrir nokkru auglýsti stórt íslenskt iðnfyrirtæki laus störf hjá fyrirtækinu þar sem auglýst var staða í móttöku. 130 umsóknir bárust og þar af voru 1/3 umsækjenda með meistaragráðu. Einnig var auglýst staða á fjármálasviði. 140 umsóknir og 2/3 með meistaragráðu. Svo var auglýst eftir tveimur rafvirkjum og komu 7 umsóknir. Af þessum störfum voru hæstu launin greidd fyrir rafvirkjastörfin.“