Benedikt Jón Hilmarsson fæddist á Akureyri 21. maí 1957. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans 15. mars 2018.
Foreldrar hans eru Guðrún Ingveldur Benediktsdóttir frá Akureyri, f. 12. ágúst 1935, og Hilmar Símonarson frá Grímsey, f. 15. ágúst 1931. Seinni maður Guðrúnar var Stefán Kristmar Arnþórsson frá Akureyri, f. 14. desember 1929.
Systkini Benedikts eru Jórunn Jónína Hilmarsdóttir, f. 9. september 1958, maki Ólafur Schram; Símon Jóhann Hilmarsson, f. 31. maí 1960, d. 17. júní 1978; Sigtryggur Hilmarsson, f. 4. desember 1964, maki Guðfinna Árnadóttir; Stefán Hilmarsson, f. 12. desember 1966, maki Kristín Arngrímsdóttir og Arna Stefánsdóttir, f. 23. mars 1974, maki Bjarni Valdimarsson.
Benedikt kvæntist Matthildi Óladóttur, f. á Eskifirði 17. ágúst 1959, 4. maí 1996. Foreldrar hennar eru Bára Guðmundsdóttir frá Eskifirði, f. 3. september 1936, og Óli Fossberg Guðmundsson frá Akureyri, f. 13. maí 1936.
Börn Benedikts og Matthildar eru: Hilmar Benediktsson, f. 4. nóvember 1980, maki Freyja Rúnarsdóttir, f. 25. nóvember 1989. Þau eiga tvö börn, sem eru Sonja Salín, f. 23. mars 2012, og Steinunn Matthildur, f. 25. mars 2014. Sonja Björk Benediktsdóttir, f. 2. desember 1987, og Símon Jóhann Benediktsson, f. 13. ágúst 1990, maki Arnrún Lea Einarsdóttir, f. 17. nóvember 1988.
Benedikt ólst upp á Dalvík og árið 1975 fór hann á vertíð til Eskifjarðar, kynntist þar Matthildi og settist þar að. Þau fluttu svo í Mosfellsbæ árið 2014 og hafa búið þar síðan. Benedikt lærði húsgagnasmíði í Iðnskólanum á Akureyri. Ásamt smíðum stundaði hann einnig sjóinn í 10 ár.
Útför Benedikts fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 22. mars 2018, kl. 13.
Elsku Benni minn, það er sárt að þurfa að kveðja þig, það átti enginn von á þessu, enginn fyrirvari. Minningarnar streyma fram. Við vorum ung þegar við hittumst, ég á sextánda ári og þú átjánda. Þú og nokkrir vinir þínir frá Dalvík ákváðu að fara á vertíð austur á Eskifjörð. Ég hafði strax augastað á þér og að ná í þig sem tókst fljótlega. Við tók mikil vinna og mikið fjör. Vinirnir fóru svo heim, en við bjuggum heima hjá mömmu og pabba í nokkra mánuði og fórum svo að búa. Þú ákvaðst svo að læra smiðinn, fluttum við þá til Akureyrar. Þegar þú varst búinn að læra vorum við búin að eignast frumburðinn okkar hann Hilmar, þá langaði mig heim í faðm fjölskyldunnar. Þú fórst að vinna við smíðar, svo á sjóinn og varst þar í 10 ár en smíðarnar toguðu alltaf í þig, sem varð til þess að þú hættir alfarið á sjónum. Við eigum þrjú yndisleg börn og tvö barnabörn sem við lifðum fyrir og gáfu okkur svo mikið. Þið áttuð ykkar stundir saman, á hverjum laugardegi fórstu með þær í bakaríið og í ísbúðina. Þegar sú eldri vissi að þú værir farinn var fyrsta spurningin: Hver fer þá með okkur í bakaríið? Svo féllu tár. Þú hugsaðir mikið til þeirra og barnanna okkar þegar þú vissir hvert stefndi, þér var umhugað um að við hefðum það gott, hugsaðir alltaf um alla á undan sjálfum þér. Ég hef aldrei kynnst eins jákvæðum manni og ótrúlega geðgóðum og þér.
Við eigum margar góðar minningar, ferðalög erlendis voru mikið áhugamál. Vorum við búin að fara víða og áttum yndisleg jól og áramót í Mexíkó síðustu jól. Síðasta ferðin þín var árleg fótboltaferð til London með sonum okkar að sjá liðið þitt, Arsenal, spila. Eins hafðir þú mikinn áhuga á tónlist, varst mikil félagsvera og vildir alltaf hafa eitthvað á prjónunum. Þú gekkst í Lionsklúbb Eskifjarðar og hafðir gaman af þeim félagsskap. Einnig gekkst þú í Lionsklúbbinn í Grafarvogi þegar við fluttum suður.
Elsku ástin mín, það verður erfitt að vera án þín. Við vorum búin að plana allt annað, en ég lofaði þér að vera sterk.
Hvíldu í friði, elsku Benni minn.
Matthildur Óladóttir.
Eitt af sameiginlegum áhugamálum okkar voru ferðalög og eigum við ófáar minningar af þeim, núna síðast fórum við til Mexíkó yfir jól og áramót. Þú varst svo mikill húmoristi og alltaf svo gaman að vera í kringum þig. Það sem við hlógum og skemmtum okkur vel, þetta var ein besta ferð sem ég hef farið í. Ég er svo þakklát fyrir allar þessar yndislegu ferðir sem við fórum í saman.
Þú varst besti pabbi í heimi, ég var svo mikil pabbastelpa og við áttum svo náið og gott, einstakt samband. Þú gerðir allt fyrir mig og ég gat alltaf leitað til þín með hvað sem er. Ég var svo heppin með þig.
Það var alltaf svo gott að vera í kringum þig, þú varst alltaf hress og kátur, aldrei fúll. Ég skildi ekki hvernig hægt var að vera alltaf í svona góðu skapi. Ég hef aldrei kynnst svona geðgóðum og jákvæðum manni, hjúkrunarkonurnar á spítalanum töluðu mikið um það.
Það verður svo tómlegt án þín, þú hélst uppi fjörinu og varst svo duglegur að drífa okkur áfram í hlutina.
Ég sakna þín svo mikið og það er erfitt að hugsa sér lífið án þín. En ég held fast í allar góðu minningarnar okkar og þú verður alltaf í hjarta mínu.
Þín,
Sonja Björk Benediktsdóttir.
Eftir því sem ég varð eldri urðum við pabbi meira vinir en faðir og sonur, hann var einn af mínum bestu vinum og ég vissi að ég gat alltaf leitað til hans.
Ég er þakklátur fyrir allar stundirnar og utanlandsferðirnar, þá sérstaklega fótboltaferðirnar sem við feðgar áttum saman.
Hvíldu í friði, pabbi minn.
Símon Jóhann Benediktsson.
Ég lofa að gera mitt og standa við það. Minning þín lifir í hjarta mínu. Við sjáumst seinna, elsku pabbi.
Þinn sonur,
Hilmar Benediktsson.
Ég minnist þess þegar hann heimsótti okkur til Reykjavíkur og við fengum okkur sushi og þegar við skemmtum okkur saman á sjómannadaginn á Eskifirði.
Þegar kom að því að festa kaup á okkar fyrstu íbúð hafði ég Benna mér til halds og traust, Símon var í Vestmannaeyjum að vinna, svo Benni aðstoðaði mig við valið. Ég treysti honum fullkomlega og mér leið alltaf vel í kringum hann, hann hafði svo góða nærveru.
Það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast Benna og ég mun geyma allar minningarnar á góðum stað í hjarta mínu.
Hvíldu í friði, elsku tengdapabbi.
Arnrún Lea Einarsdóttir.
Í dag kveðjum við elsku mág minn eftir stutt en erfið veikindi, söknuðurinn er mikill og sárt að sjá á eftir þér, elsku Benni minn. Hann Benni var alltaf svo góður við mig, þegar hann var að læra smíðar á Akureyri þá smíðaði hann handa mér fallegt rúm og bekk sem var dótakassi. Ég man hvað ég var ofboðslega ánægð með þessa gjöf frá þér, elsku Benni. Þegar Davíð maðurinn minn flutti austur á Eskifjörð til mín, þá tókst þú honum opnum örmum og réðir hann til þín í vinnu. Þar lærði hann margt af þér sem nýttist honum vel þegar við fórum að innrétta húsið okkar. Alltaf var hægt að leita til þín og fá ráð. Ekki létuð þið Matta ykkar eftir liggja að hjálpa okkur að koma húsinu í stand og verð ég þér ævinlega þakklát fyrir það.
Spánarferðirnar sem við fórum með fjölskyldum okkar til Alicante og Costa Brava voru svo skemmtilegar þar sem þú varst hrókur alls fagnaðar. Við gerðum mjög vel við okkur í mat og drykk og nutum samverunnar með ykkur. Mikið saknaði ég ykkar þegar þið fluttuð suður og ekki var hægt að kíkja inn í kaffi til ykkar lengur. Það var alltaf svo notalegt að koma til ykkar Möttu.
Elsku Benni, ég veit að það var vel tekið á móti þér. Hvíldu í friði, elsku mágur.
Elsku Matta, Hilmar, Sonja Björk, Símon, Freyja, Arnrún, Sonja Salín og Steinunn Matthildur. Guð styrki ykkur á þessum erfiðu tímum.
Þín mágkona
Erla Rut.
Það sem lífið getur verið hverfult. Það eru einungis liðnir örfáir dagar síðan þú bankaðir hér upp á og sóttir afagullin þín í bakaríið, en það var fastur liður hjá ykkur vinunum á laugardögum. Í nokkur skipti fékk Hilmar að koma með, en það var ekki vinsælt, Sonja og Steinunn vildu fá athygli þína óskipta. Þú bjóst til fallegt lítið samfélag með dætrum mínum sem þær munu búa að um alla ævi. Ást þín og umburðarlyndi gagnvart þeim var og mun ætíð vera mér mikils virði.
Þú varst einstaklega glaðlyndur og brosmildur maður með hjarta úr gulli. Þú tókst mér opnum örmum þegar ég mætti sem ung stúlka á Eskifjörð, ástfangin af syni þínum. Ég hefði ekki getað óskað mér betri tengdaföður.
Takk fyrir alla þína hlýju í minn garð. Takk fyrir að vera stelpunum mínum yndislegur afi og vinur.
Minning þín mun lifa með okkur og þú lifa í þeim.
Þitt bros og blíðlyndi lifir
og bjarma á sporin slær,
það vermir kvöldgöngu veginn,
þú varst okkur stjarna skær.
Þitt hús var sem helgur staður,
hvar hamingjan vonir ól.
Þín ástúð til okkar streymdi
sem ylur frá bjartri sól.
Við þökkum þá ástúð alla,
sem okkur þú njóta lést,
í sorgum og sólarleysi
það sást jafnan allra best.
Þín milda og fagra minning
sem morgunbjart sólskin er.
Þá kallið til okkar kemur,
við komum á eftir þér.
(F.A.)
Þín tengdadóttir
Freyja Rúnarsdóttir.
Elskulegur tengdasonur minn, Benni, er látinn eftir stutt veikindi og aftur var stórt skarð höggvið í stórfjölskylduna. Benni kom í fjölskylduna árið 1975, þegar hann kom austur á Eskifjörð á vertíð frá Dalvík og kynntist Möttu dóttur minni. Hann var einstaklega geðgóður, skemmtilegur og alltaf stutt í húmorinn hjá honum. Alltaf gátum við Óli leitað til þín þegar okkur vantaði hjálp við hvað sem er. Þið Óli unnuð lengi saman og var samband ykkar alltaf gott. Ekki létuð þið Matta ykkar eftir liggja við endurbætur á Túngötu 2, æskuheimili Möttu, og verð ég ykkur ævinlega þakklát fyrir það. Það var mikil eftirsjá að ykkur suður þegar þið fluttuð frá Eskifirði. Ekki trúði ég því að ég væri að hitta þig í síðasta sinn í matarboðinu hjá ykkur Möttu 3. mars. Elsku Benni minn, takk fyrir allt. Þín verður sárt saknað.
Elsku Matta, Hilmar, Sonja Björk, Símon, Freyja, Arnrún, Sonja Salín og Steinunn Matthildur. Guð styrki ykkur á þessum erfiðu tímum.
Þín tengdamamma
Bára Guðmundsdóttir.
Þú, Matta og krakkarnir gáfuð okkur endalaust af frábærum minningum úr þeim ferðum þar sem þú varst alltaf hrókur alls fagnaðar. Jafnvel þegar þú varst mikið veikur á spítalanum var stutt í hláturinn og brosið, þú varst einstakur, elsku Benni, ég þarf ekki annað en að horfa út um stofugluggann minn til að minnast þín og þinna verka, öll húsin hérna í Langadalnum. Þú varst alltaf tilbúinn að hjálpa þegar við vorum eitthvað að brasa og mikið saknaði ég þess að kíkja í kaffi til ykkar eftir að þið fluttuð suður, það kemur sá tími að við hittumst öll aftur.
Elsku Matta, Hilmar, Sonja og Símon, tengdabörn og barnabörn, megi guð styrkja ykkur á þessari erfiðu stundu. Hvíldu í friði, elsku Benni.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
(Vald. Briem)
Kveðja, þín mágkona
Hulda Óladóttir.
Elsku besti mágur minn, hann Benni, er dáinn eftir stutt veikindi. Aldrei óraði mig fyrir því þegar ég hitti þig síðast, 3. mars í matarboði heima hjá þér, að þetta væri í síðasta sinn. Stórfjölskyldan er í miklum sárum eftir missi ykkar Fjalars, með 20 daga millibili en ykkur er ætlað stærra verkefni með pabba hinum megin.
Ég á svo góðar minningar um þig, elsku Benni, við töluðum alltaf um að við værum svo góðir ferðafélagar og planið var að fara saman út aftur. Þegar við fórum til Kanarí, jólin 2006, voru þið Harpa Mjöll búin að æfa „Feliz navidad“ og það lag minnir okkur mikið á þessa ferð, þú eldaðir jólamat handa okkur öllum, við skiptumst á pökkum og enduðum á írskum pub. Þessi ferð var æði og þú alltaf hrókur alls fagnaðar. Svo var það Flórídaferðin okkar, henni lifðum við lengi á enda frábær ferð með góðu fólki, strákarnir sáu um að elda fyrir okkur stelpurnar, svo var leikið í sundi og slakað á.
Þegar við keyptum húsið okkar í Skammadal, unnuð þú og þínir menn að húsinu. Ég þá ólétt, en ætlaði mér að flytja inn áður en að Hildur fæddist, það tókst með ykkar hjálp.
Ég sakna þess mikið eftir að þið fluttuð suður að geta ekki droppað í kaffi til ykkar eða fengið ykkur í kaffi til mín. Hildi Báru og Herði Breka fannst æði að koma og gista hjá ykkur í Mosfellsbæ.
Það er mikill missir fyrir afaprinsessurnar þínar, Sonju Salín og Steinunni Matthildi, að hafa þig ekki lengur hjá sér.
Elsku Benni, við hittumst aftur þegar minn tími kemur. Elsku Matta, Hilmar, Sonja Björk, Símon, Freyja, Arnrún, Sonja Salín og Steinunn Matthildur. Guð gefi ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.
Þín mása,
Alda Björk Fossberg, og fjölskylda.
Þegar þið svo fluttuð austur og þú fórst að vinna sjálfstætt sem smiður þá réðir þú mig í vinnu og tók ég fyrstu hamarshöggin undir þinni leiðsögn, sem ég bý að enn í dag. Þetta voru frábærir tímar og aldrei lognmolla í kringum okkur félagana. Þau voru fjölmörg ævintýrin sem við lentum í ásamt Didda vini okkar. Selveiðarnar á Herunni, stundirnar í kjallaranum á Bjargi við skemmtilega iðju, þegar við keyptum gervihnattardiskinn og ýmislegt annað sem er ekki birtingarhæft. Það var alltaf gaman hjá okkur og þau voru ófá sveitaböllin sem við fórum á og skemmtum okkur konunglega.
Það var mikil gæfa fyrir mig og mína fjölskyldu að fá ykkur í Mosfellsbæinn fyrir nokkrum árum. Mikill samgangur er okkar á milli og gaman að upplifa og fá að kynnast hvað þið Matta eigið frábær börn, tengdadætur og barnabörn. Ég mun reyna mitt besta til að passa upp á fólkið þitt og ég mun sjá til þess að litlu afastelpurnar þínar munu heyra margar sögur af Benna afa.
Áfallið við veikindi þín varð mikið og tíminn stuttur. Það var aðdáunarvert að fylgja þér í gegnum þessa daga og dýrmætt að fá að vera með ykkur fjölskyldunni. Það var margt rifjað upp og mikið hlegið. Þessar minningar geymi ég með mér um ókominn tíma.
Hvíl í friði, elsku vinur, ég veit að það verður tekið vel á móti þér.
Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)
Ragnar Þór Ólason.
Ég ætla ekki að reyna lýsa því hvað fór í gegnum huga mér á þeirri stundu, en eitt er víst að mér finnst lífið ekki alltaf réttlátt. Ég minnist þess þegar þú komst ungur inn í stórfjölskylduna okkar, ég var þá á gelgjunni, 14 ára gömul, þú varst alltaf svo almennilegur og hlæjandi þegar ég var að reyna að hanga yfir ykkur Möttu. Mér fannst svo spennandi að stóra systir væri heima með kærasta og ég efast ekki um að ég hafi verið svolítið uppáþrengjandi þó að þið gæfuð það aldrei í skyn. Þetta var bara svo spennandi.
Árið 2004 buðuð þið Matta og Raggi bróðir ásamt fjölskyldum ykkar mér og Ragnari syni mínum með til Mallorka. Við vorum rosa spennt fyrir sólinni og til að nýta ferðina suður var búið að panta sneið- og lungnamyndatöku fyrir mig í Domus Medica daginn sem við áttum að fljúga út. Þegar leið á daginn breyttist spenningurinn í kvíða þegar kom í ljós að ég var með æxli í vinstra lunga og með þá niðurstöðu var flogið í fríið. Mig langar að segja þessa sögu sem dæmi um hversu þétt þið Matta stóðuð við bakið á mér og þið sögðuð strax að ef illa færi mynduð þið taka Ragnar að ykkur og aðstoða Gumma sem var þá í atvinnumennsku í fótbolta í Svíþjóð. Fyrir þessi orð er ég ævinlega þakklát. Eins vil ég þakka þér, elsku mágur fyrir heimsóknir þínar og fjölskyldunnar til mín þegar ég bjó í Svíþjóð, ef þú komst ekki þá sendir þú Möttu og krakkana, þá var oft glatt á hjalla.
Þín er sárt saknað, hvíl í friði, elsku mágur.
Elsku Matta, Hilmar, Sonja, Símon, Freyja, Arnrún, Sonja og Steinunn, megi guð styrkja ykkur í þessari sorg.
Guðný Harpa Óladóttir.
Frá því að ég kom inn í fjölskylduna höfum við alltaf verið miklir vinir. Kannski af því að við erum lík að mörgu leyti, bæði í nautsmerkinu og fannst ekki slæmt að gera vel við okkur í mat og drykk. Þau voru ófá skiptin sem við skáluðum fyrir góðum mat og frábærum félagsskap víðsvegar um heiminn.
Það var alltaf gott að koma til ykkar á Eskifjörð, ýmislegt brallað og oft setið fram á rauða nótt að spjalla um heima og geima og plana næstu ævintýri með ferðafélaginu Húllum hæ.
Það var svo árið 2014 sem við fengum ykkur til okkar í Mosfellsbæinn. Það var gott að geta rölt til ykkar í kaffibolla og spjall. Þau voru ófá skiptin sem þú kíktir við með eskfirskan harðfiskpoka í vasanum handa Skottu vinkonu þinni, já það erum ekki bara við mannfólkið sem eigum eftir að sakna þín.
Kæri vinur, þú varst einstakur karakter, brosmildur, jákvæður og hugmyndaríkur. Þín verður sárt saknað.
Elsku Matta mín og Sonja, Símon og Arnrún, Hilmar, Freyja, Sonja Salín og Steinunn Matthildur, ykkar missir er mikill. Minningin um góðan eiginmann, pabba, afa og vin lifir í hjörtum okkar alla tíð.
Hvíl í friði, elsku vinur og takk fyrir allt.
Gulli og perlum að safna sér
sumir endalaust reyna.
Vita ekki að vináttan er
verðmætust eðalsteina.
(Hjálmar Freysteinsson)
Anna Ólöf Sveinbjörnsdóttir.
Ein elsta minning mín um Benna er í bílskúrnum okkar í Fífubarðinu þar sem hann og pabbi bjuggu til tvíhjól handa mér og Hilmari. Tvö BMX-hjól urðu að einu. Endalaust gaman. Þetta hjól er fínasta myndlíking því það má segja að við höfum verið soðnir saman allar götur síðan.
Eins og ég sagði er ég gríðarlega þakklátur fyrir að hafa kynnst Benna. Hann er mikið í mér. Vöðvaminnið í mér man eftir honum næst þegar ég tek upp hamar eða borvél, bragðlaukarnir næst þegar ég grilla marineruð lambaspjót, hugurinn næst er ég reikna efniskostnað og hjartað næst þegar ég rétti fram hjálparhönd.
Hann grínaðist stundum með það – þegar einhver spýtan féll ekki rétt – að það væri ekki hægt að dæma verkið út frá einni spýtu; það þyrfti að horfa á þetta í heild sinni. Ein eða fleiri skakkar spýtur skipta ekki endilega miklu máli í stóra samhenginu. Þennan viskumola frá Benna er hægt að yfirfæra á margt annað í lífinu. Það er alla jafna best að velta sér ekki upp úr litlu hlutunum, því þeir blinda mann oft við að sjá stóru myndina.
Benni var einn af þeim fyrstu sem kenndu mér að meta fínni hlutina í lífinu. Þegar kom að mat og drykk var hann fagurkeri með fágað yfirbragð. Smekkmaður. En þegar ég hugsa til baka um Benna verð ég að segja að ég held að einn af hans bestu hæfileikum hafi verið hvað hann var góður sögumaður. Og þrátt fyrir að hann segði góðar sögur og margar – þetta hljómar kannski eins og lygasaga – en ég held að ég hafi aldrei heyrt hann segja sömu söguna tvisvar. Vel gert, Benni, vel gert.
Af fáum göllum og mörgum kostum er höfuðdyggð líklegast jákvæðnin. Það var mjög gott að vera í kringum hann. Hann hafði jákvæða nærveru sem smitaði frá sér og oftast tók hann nýjum hugmyndum með opnum örmum. Einhvern tímann sagði hann mér að hann skildi ekki hvers vegna börn hændust svona að honum. Ég veit alveg út af hverju það var; það var brosið hans.
Elsku vinur, hafðu það sem allra best handan við móðuna miklu. Og þegar kallið kemur. Þá svara ég: „Jawohl, mein General.“
Heiðar Högni Guðnason.
Sú runa veikinda og áfalla sem þú máttir þola á örskömmum tíma er allt að því súrrealísk.
Nokkrum dögum fyrr höfðum við setið í skrifstofum Eyktar sem oftar og skipulagt komandi vinnu og samstarfsverkefni. Ekkert á þeim tíma benti til þess sem í vændum var, a.m.k. ekkert sem þú barst utan á þér.
Má kannski segja að hér sé þér vel lýst. Enginn harmur borinn á torg, hvorki um þig sjálfan né vinnutengd verkefni. Ætíð horft fram á við af yfirvegun og með lausnir í huga.
Alltaf mátti stóla á að þegar leitað var til þín með aðstoð þá var hún auðfengin.
Minnisstætt er mér fyrir nokkrum árum þegar innspýtingu þurfti í flókið verkefni úti á landi, þá voru margir kallaðir til en fáir tiltækir. Ekki var spurning hvort þú kæmir, heldur hversu marga þú tækir með þér. Þar fóru synir þínir fyrir verkum svo sómi var að.
Þín verður sárt saknað í komandi verkefnum og skrítið verður að minnast á Fjarðaverk án þess að á undan fylgi Benni í Fjarðaverki.
Kæri vinur, þakka fyrir frábæra viðkynningu. Það voru forréttindi að fá að kynnast og starfa með þér.
Okkar dýpstu samúðarkveðjur til fjölskyldu, vina og vandamanna.
F.h. Eyktar ehf.,
Pétur Fannar Sævarsson.