Tilbúinn Kolbeinn Sigþórsson er bjartsýnn á sína stöðu fyrir HM.
Tilbúinn Kolbeinn Sigþórsson er bjartsýnn á sína stöðu fyrir HM. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Santa Clara Anna Marsibil Clausen annamarsy@mbl.

Í Santa Clara

Anna Marsibil Clausen

annamarsy@mbl.is

Hann var nokkuð rigningarlegur, himinninn yfir knattspyrnuvelli San Jose-háskólans í Sílíkondal Kaliforníu þegar íslenska karlalandsliðið mætti í gær til æfingar fyrir yfirvofandi vináttuleik sinn gegn Mexíkó. Öllu bjartara var yfir Kolbeini Sigþórssyni. Hann er allur að koma til eftir langvarandi hnjávandræði og eygir nú HM drauminn.

„Meiðslin sem eru búin að halda mér frá í tvö ár, þau eru mjög góð og ég hef ekki fundið fyrir þeim í þrjá fjóra mánuði,“ sagði Kolbeinn við Morgunblaðið fyrir æfinguna. Hann spilaði sinn fyrsta leik, eftir 559 daga fjarveru, með varaliði Nantes fyrir viku, en ekki fór betur en svo að hann slasaðist á nára. Hann vill þó ekki meina að nárinn muni halda honum frá HM.

„Það er ekki stórmál og bara fylgir því að vera svona lengi frá,“ sagði hann. „Ég finn að ég er andlega á mjög góðum stað, ferskur í líkamanum, ferskur í hausnum og bara klár í að byrja að spila aftur fyrir landsliðið.“

Nokkuð ólíklegt er að af því verði í þessari ferð. Landsliðið mætir Mexíkó á föstudag og Perú þriðjudaginn 27. mars en Heimir Hallgrímsson telur ekki ráðlegt að spila Kolbeini út að sinni. Kolbeinn sé eftir allt rétt að byrja að feta sig aftur inn á völlinn og mikill munur sé á að spila leik með varaliði og landsliði.

Erum að meta stöðuna

„Það væri óvarlegt að fara að spila honum í jafnmiklum hraðaleik, þar sem allir eru að sanna sig,“ sagði Heimir.

Vera Kolbeins í ferðinni snýst eftir allt ekki um spilamennsku, að sögn þjálfarans. Mikilvægara sé að meta á honum stöðuna og fylgjast með hvort hann komi til greina í lokahópinn fyrir Rússland. Enn sem komið er sé staðan ágæt.

„Hann er svona smá að vaxa inn á æfingarnar, vera meira og meira með,“ sagði Heimir. „Svo sjáum við til hvað framhaldið verður.“

En eins og áður segir er Kolbeinn sjálfur mjög brattur og bjartsýnn á að komast í hópinn.

„Það er æðislegt að vera kominn aftur,“ sagði hann. „Ég finn ekki fyrir pressu þegar ég spila með landsliðinu. Mér líður bara vel og held að það sé ástæðan fyrir því að mér hefur gengið vel með því.“