Að vera besta útgáfan af sjálfum sér er setning sem komið hefur margoft upp í samtölum okkar þáttastjórnanda morgunþáttarins Ísland vaknar að undanförnu. Við höfum velt fyrir okkur merkingu og uppruna setningarinnar, er þetta enn eitt sykurglasseraða og klisjukennda orðskrúðið úr Vesturheimi eða er þetta mottó sem gott er að hafa með sér í farteskinu og taka með sér inn í daginn, alla daga ársins? Því verður hver og einn að svara fyrir sig en hvað mig varðar þá er þetta ein af þeim einföldu setningum sem hafa breiðari skírskotun fyrir mig en ber orðin sem hana mynda. Setningar sem þessar verða sífellt algengari í íslensku samfélagi, einstaklingar eru farnir að skella þeim í ramma og hengja upp á veggi í híbýlum sínum og jafnvel húðflúra þær á sig og þá verður nú ekki aftur snúið. En af hverju eru setningar í þessum sjálfshjálparflokki svo vinsælar sem raun ber vitni? Jú, ætli það sé hreinlega ekki vegna þess að við þurfum sífellt að vera að minna okkur á að vera, einmitt, besta útgáfan af okkur sjálfum. Ekki vegna þess að við séum svo meinfýsin og rætin heldur vegna þess að við viljum vera jafngóð eða mögulega betri en við vorum í gær því, jú, batnandi manni er víst best að lifa.
„Æ, er hún ekki alltaf svo glöð?“
Ég átti samtal fyrir nokkrum vikum þar sem talið barst að góðri vinkonu sem stendur sig með prýði í lífinu og er mér mikil fyrirmynd í því sem hún tekur sér fyrir hendur. Viðmælandi minn segir þá upp úr þurru; Já hún, æ er hún ekki alltaf svo,“ tekur sér svo umhugsunarfrest og sagði svo í hálfgerðum vandlætingartón: glöð?“ Glöð, hugsa ég með mér. Síðan hvenær var það löstur að vera glaður? Þetta er svosem ekki í fyrsta skipti sem ég kemst í tæri við slíka lífsýn þó svo að ég efist stórlega um að viðkomandi viðmælandi hafi meinað nokkuð illt enda besta manneskja. Þetta vakti mig þó til umhugsunar um kosti og galla þess að vera glaður. Nú er ég langt frá því að alhæfa en svo virðist sem þeir sem eru glaðir keppi í nokkurs konar fjaðurvigt í samfélaginu en færist nær þungavigt sé viðkomandi neikvæður og gagnrýninn. Er það kannski dyggð að vera fúll og dónalegur við samborgara? Nú er ég kannski ekki rétta manneskjan til að svara því en spyr létt í lokin, hvaða útgáfa ætlar þú að vera?rikka@k100.is