Hár Hrafnhildur Arnardóttir á sýningu sinni í Listasafni Íslands í fyrra.
Hár Hrafnhildur Arnardóttir á sýningu sinni í Listasafni Íslands í fyrra. — Morgunblaðið/Ófeigur
„Maður leggur mikið í svona umsókn og það er ánægjulegt að hún veki áhuga,“ segir Hrafnhildur Arnardóttir sem kallar sig Shoplifter.

„Maður leggur mikið í svona umsókn og það er ánægjulegt að hún veki áhuga,“ segir Hrafnhildur Arnardóttir sem kallar sig Shoplifter. Hún vann tillöguna með Birtu Guðjónsdóttur sýningarstjóra en viðamikil sýning Hrafnhildar í Listasafni Íslands í fyrra var sú þriðja sem þær hafa unnið saman.

Hrafnhildur er þekktust fyrir misstórar en oft og tíðum afar umfangsmiklar innsetningar með gervihári og þegar spurt er út í tillöguna um Feneyjasýningu svarar hún: „Ég ákvað að sækja um með ákveðna hárflækjuhugmynd, það má kalla minn einkennismiðil. Ég vinn alltaf út frá rýminu sem stendur til boða, og get unnið í öllum mögulegum stærðum og skapað í hvert sinn rýmisteikningu og spennu.

Sýningargestir verða umvafðir litum; fólk gengur inn í rýmið og upplifir sig í óvenjulegum stærðarhlutföllum með myndlistinni. Ég hugsa í senn um hið hulda landslag í líkama okkar, landslagið sem við lifum í og landslagið í geimnum sem við höfum hugmyndir um en upplifum ekki á eigin skinni. Við upplifun á verkinu má hugsa sér að gestir komist í hugarástand sem kallar fram tilfinningu fyrir öllum þessum stærðum; maður getur dvalið í því og fundið um leið sterkar fyrir sjálfum sér, anda og efni.“

Varðandi það að vera fulltrúi þjóðarinnar í Feneyjum segist Hrafnhildur hlæjandi lengi hafa litið á sig sem slíkan þar sem hún býr í New York – „en það væri gaman að vera það formlega á tvíæringnum.“