Karlakórinn Hreimur hefur sett svip sinn á menningarlíf Þingeyinga í meira en fjóra áratugi. Hann er skipaður um 60 mönnum sem hittast tvisvar í viku allan veturinn í félagsheimilinu Ýdölum í Aðaldal, til þess að syngja og eiga stund saman. Kórinn hefur víða hafið upp raust sína og haldið tónleika í mörgum samkomuhúsum. Kórfélagar hafa gefið út marga geisladiska, farið níu sinnum til útlanda og sungið á götum úti. Í kirkjum syngja þeir oft og árlega halda þeir veglegan vorfagnað í heimasveit sinni, ávallt fyrir troðfullu húsi.
Atli Vigfússon
laxam@simnet.is
Ég var unglingur þegar karlakórinn var stofnaður og þá sýndi ég félagsskap þessum ekki mikinn áhuga. Pabbi minn var einn af stofnendum kórsins og var fátt annað rætt á heimilinu þegar gesti bar að garði. Árið 1981 gekk ég í kórinn, þá 22 ára, af því að vinir mínir og frændur á sama aldri gerðu það sama. Síðan eru liðin 37 ár og þetta er búinn að vera gríðarlegur félagsskapur og marga vini er maður búinn að eignast í gegnum árin.“ Þetta segir Guðmundur Ágúst Jónsson, bóndi í Fagraneskoti í Aðaldal, en hann hefur verið formaður karlakórsins Hreims um árabil. „Stundum var það þannig að maður var þreyttur og nennti ekki að fara á stað, en svo dreif maður sig og kom alltaf endurnærður af öllum æfingum. Þetta eykur samheldni og samhug. Mæting er alltaf góð og sjaldan sem einhverja vantar,“ segir Guðmundur og bætir við að enn séu í kórnum stofnfélagar. Hann nefnir Guðmund Hallgrímsson frá Grímshúsum og Benedikt Arnbjörnsson á Bergsstöðum. Baldur Jónsson, bóndi í Ystahvammi, er sá eini sem er búinn að vera samfellt í kórnum frá upphafi og er enn að syngja. Hann er fæddur árið 1934 og er því 84 ára á þessu ári. Hann sleppir ekki úr æfingum og hefur alltaf sömu ánægjuna af karlakórnum. Hann er elstur kórfélaga, en sá yngsti er 21 árs. Aldursmunurinn er því ríflega 60 ár, en samt er ekkert kynslóðabil. Allir eru félagar og mjög góðir vinir. Guðmundur segist skilja vel þessa gleði og lífsfyllingu sem karlakórinn er og líka það markmið að skemmta áheyrendum með söng.
Endalaus áhugi á tónlist
Frá haustdögum 2012 hefur Steinþór Þráinsson verið stjórnandi kórsins. Steinþór ólst upp við tónlist á æskuheimili sínu í Mývatnssveit og söng snemma sem barn og hóf síðan tónlistarnám hjá móður sinni. Seinna var hann m.a. tvo vetrarhluta við nám í Tónlistarskóla Ísafjarðar og síðan lá leiðin í söngnám hjá Sigurði Demetz á Akureyri. Þá stundaði hann söngnám og almennt tónlistarnám við Söngskólann í Reykjavík. Á námsárum sínum söng hann með Kór Langholtskirkju og hann segist hafa endalausan áhuga á tónlist. Hann segir að starf hans sem kórstjóri sé mjög gefandi og alltaf sé það þannig að tónlistin opni leið inn að hjartanu. Hann telur ekki eftir sér að keyra frá Akureyri á æfingar, þar sem hann býr í dag, en hver æfing tekur meira en 5 klukkutíma ef allt er talið. Þá er átt við akstur báðar leiðir, undirbúning við að stilla upp og svo sönginn sjálfan sem tekur um 2 klukkutíma með svolitlu kaffihléi, og síðan frágang. En það er þess virði og sem betur fer hefur veðrið sjaldan hamlað för í vetur. Undirleikarinn, Steinunn Halldórsdóttir, er einnig alin upp við tónlist og byrjaði að læra á píanó 7 ára gömul. Hún lærði hjá Kristni Gestssyni og Önnu Málfríði Sigurðardóttur í Reykjavík og var við framhaldsnám í Óðinsvéum. Hún hefur og lært í Finnlandi og sótt meistaranámskeið í Frakklandi og Póllandi.
Tilhlökkun að syngja í Hörpunni
„Ég veit þú kemur“ er yfirskrift þeirrar dagskrár sem Karlakórinn Hreimur er að æfa, en þeir félagar ætla að syngja í Eldborgarsal Hörpu um helgina. „Það er mikill áhugi fyrir þessu því við höfum ekki sungið þar áður,“ segir Guðmundur og allir hlakka mjög til. „Við höfum sungið í Langholtskirkju og Háskólabíói, en þetta er mjög spennandi og ekki síst vegna þeirra gestasöngvara sem við verðum með, en það eru þau Gissur Páll Gissurarson og Margrét Eir. Við sungum með þeim í fyrra fyrir fullu húsi í Ýdölum á vorfagnaði og tókst það frábærlega,“ segir Guðmundur sem hefur haft í ýmsu að snúast við undirbúning kórferðalagsins. Auk Gissurar og Margrétar munu einsöngvarar syngja úr röðum kórfélaga og má þar nefna Ásgeir Böðvarsson og Sigurð Ágúst Þórarinsson. Með kórnum á sviðinu verða hljómsveit skipuð þeim Borgari Þórarinssyni, Gunnari Illuga Sigurðssyni og Pétri Ingólfssyni. Efnisskráin er fjölbreytt með hefðbundnum karlakórslögum og lögum sem eru skemmtilega útsett fyrir karlakóra, allt yfir í dægurlagatónlist.