Elínrós Líndal
elinros@mbl.is
Sigríður Mogensen er nýr sviðstjóri á Hugverkasviði Samtaka iðnaðarins.
Fyrir þann tíma starfaði hún m.a. sem hagfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins og hagfræðingur á skrifstofu sérstaks saksóknara. Þá hefur Sigríður einnig starfað sem fréttamaður á Stöð 2 og blaðamaður á Viðskiptablaðinu.
„Gífurleg tækifæri felast í því fyrir Ísland að byggja með markvissum aðgerðum upp öflugan tækni- og hugverkaiðnað og efla nýsköpun á öllum sviðum. Hér er nú þegar mikil gróska í nýsköpun en þó eru margvíslegar hindranir til staðar sem við þurfum að ryðja úr vegi. Við þurfum og viljum fá stjórnvöld í lið með okkur í þessa vegferð,“ segir Sigríður.
Nýsköpunarlögin góð byrjun
„Ríki um allan heim keppast við að laða til sín frumkvöðlastarfsemi og rannsóknir og þróun og við erum því miður ekki samkeppnishæf hvað þetta umhverfi varðar.“Spurð um nýsköpunarlögin sem sett voru árið 2016 segir hún. „Lögin voru vissulega skref í rétta átt en við þurfum að gera enn betur og setja markið hærra. Er þetta sérstaklega mikilvægt í ljósi þeirra öru tæknibreytinga sem við stöndum frammi fyrir. Aðgerðir sem miða að því að efla nýsköpun munu hafa úrslitaáhrif um það hvaða þjóðir skara fram úr eftir 5, 10 eða 20 ár.
Fyrsta og mikilvægasta skrefið er að efla skattalega hvata vegna nýsköpunar og afnema þök á endurgreiðslur vegna rannsóknar og þróunar.“
Hálauna störf í landið
Að mati Sigríðar er það efnahagsleg aðgerð og snýst ekki um ívilnanir til einstakra fyrirtækja. „Þetta er einföld aðgerð í skattkerfinu sem mun skapa ríkissjóði tekjur til framtíðar, langt umfram útgjöld, því hún hvetur fyrirtæki til að stunda rannsóknir og þróun hér á landi og skapar því hálaunastörf og eykur framleiðni og verðmætasköpun til langs tíma. Lönd í kringum okkur bjóða mun hagstæðari skilyrði fyrir fyrirtæki sem stunda rannsóknir og þróun og við höfum því miður séð á eftir slíkum verkefnum úr landi. Hvert fyrirtæki eða verkefni sem við sjáum á eftir er tap fyrir íslenskt samfélag. Stórátak þarf til að markmið Vísinda- og tækniráðs náist um að fjárfesting í rannsóknum og þróun nái 3% af landsframleiðslu árið 2024, en um 40 milljarða þarf til viðbótar á ársgrundvelli miðað við verðlag dagsins í dag. Þetta gerist ekki af sjálfu sér.“
Fjármögnunarumhverfið
Fjármögnunarumhverfi frumkvöðla má efla til muna. Líkt og fram kom á Iðnþingi virðast mörg lífvænleg fyrirtæki eiga í erfiðleikum með fjármögnun. Sníða þarf vankanta af ákvæðum nýsköpunarlaganna sem snúa meðal annars að stærðarmörkum fyrirtækja sem geta nýtt sér skattaafslátt við fjármögnun. Ríkið leggur einnig nú þegar mikla fjármuni til nýsköpunar, í gegnum hinar ýmsu stofnanir, og myndi ég vilja sjá að það færi fram skoðun og einföldun á kerfinu í heild sinni. Velta má upp þeirri spurningu hverju styrkjakerfið er og hefur skilað okkur og hvort bæta megi úr. Vert er að skoða þann möguleika að ríkið taki ekki beinar fjárfestingaákvarðanir heldur fjárfesti til að mynda samhliða fagfjárfestum og einkasjóðum í nýsköpunarverkefnum og sprotafyrirtækjum.Við þurfum einnig að grípa til aðgerða til að laða erlenda sérfræðinga hingað til lands.
Gagnatengingar mikilvægar
„Samtök iðnaðarins og Íslandsstofa vinna nú að því verkefni að koma á laggirnar upplýsingasíðu í því skyni en ýmislegt má einnig bæta í lagaumhverfinu, til dæmis hvað varðar dvalarleyfi, til að auðvelda fyrirtækjum að ráða til sín öfluga starfskrafta erlendis frá.“Annað mikilvægt verkefni til framtíðar er að efla gagnatengingar til Íslands, bæta við streng og auka hraða. Mun gæði gagnatenginga skipta sköpum fyrir þjóðina til langs tíma litið. Hugbúnaðarþróun, kvikmyndavinnsla og gagnaverastarfsemi eru dæmi um greinar sem eru háðar því að gagnatengingar séu eins og best verður á kosið og þarf að hlúa að þessum innviðum eins og öðrum,“ segir hún að lokum.