Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Dýri Guðmundsson ber ekki bumbur en Hafnfirðingurinn, sem á meðal annars ættir að rekja til Fremstuhúsa í Hjarðardal í Dýrafirði, hefur víða látið að sér kveða og var fyrir skömmu útnefndur Seltirningur ársins 2017. „Þetta kom mér á óvart, eins og sagt er við slík tækifæri, en ég er þakklátur,“ segir hann.
Á árum áður lét landsliðsmaðurinn að sér kveða í fótboltanum og var í sigursælum liðum í FH og Val. „Ég var í Hafnarfjarðarstrætó í tíu ár en fékk stundum að sitja í hjá Gunna Bjarna, sem var líka fluttur til Reykjavíkur,“ rifjar Dýri upp. Bætir við að hann hafi loks látið undan miðbæjarþrýstingi og gengið í Val. Fjölskyldan flutti út á Seltjarnarnes 1981 þar sem hjónin Dýri og Hildur Guðmundsdóttir ólu upp þrjú börn. „Það er gott að búa hérna og ala upp börn,“ áréttar Dýri.
Á fleygiferð
Fyrir margt löngu ákvað Hildur að standa úti á hlaði og gefa hlaupurum í Reykjavíkurmaraþoninu kökur, þegar þeir hlupu framhjá húsi þeirra. Á meðan sat Dýri á svölunum og spilaði á rafgítarinn.Lagið „Keep on Running“ hefur slegið í gegn,“ segir Dýri og bendir á að uppátækið hafi síðan verið árlegur viðburður, sem hafi undið upp á sig. Fleiri hljóðfæraleikarar hafi bæst í hópinn og nágrannar og lengra að komnir hafi lagt sitt af mörkum á hlaðborðið.
„Fyrir þetta var ég útnefndur,“ segir Dýri og leggur áherslu á að hann sé alltaf Gaflari inn við beinið. „Þegar rignir á meðan hlaupið stendur leitum við skjóls undir húsveggnum eins og sannir gaflarar.“
Tónlist hefur verið ríkur þáttur í lífi miðvarðarins. Hann byrjaði í bekkjarhljómsveit 12 ára, var einn af stofnendum FH-bandsins og átti hugmyndina að stofnun Valskórsins. Hann söng með Fjallabræðrum, spilaði fyrir matargesti á Hótel Sögu og hefur reglulega skemmt öldruðum með spili og söng auk þess sem hann er í Valsbandinu. „Þó að ég sé að mestu hættur að spila verð ég alltaf rokkari,“ segir Dýri.
FH-ingar hafa teflt fram sigursælasta karlaliði landsins í fótbolta undanfarin ár og Valsmenn eru ríkjandi Íslandsmeistarar. „Megi betra liðið vinna, því ég veit ekki með hvoru ég á að halda,“ segir Dýri og þorir engu að spá um úrslit næsta Íslandsmóts. Hann segist reyna að láta lítið fyrir sér fara, þegar hann mæti á innbyrðisleiki liðanna. „Ég er stundum með húfu til þess að enginn þekki mig.“
Dýri hefur dregið sig í hlé, en mætir samt enn á völlinn og á sér draum. „Rokkið lifir og ég get vel séð mig sem Dýra dyravörð í Þjóðleikhúsinu. Það hljómar vel.“