Vefsíðan Æ fleiri störf má vinna hvar sem er í heiminum, svo fremi sem komast má í tölvu og tengjast netinu.

Vefsíðan Æ fleiri störf má vinna hvar sem er í heiminum, svo fremi sem komast má í tölvu og tengjast netinu. Spá margir því að fjarvinna sé framtíðin, enda sveigjanlegur vinnumáti sem sparar fólki daglegar ferðir til og frá vinnu og leyfir þeim jafnvel að finna sér störf alveg óháð búsetu.

Þeir djörfustu sinna vinnunni úr laufléttri fartölvu, sitjandi á sólbekk undir pálmatré í góða veðrinu og sólinni, og prísa sig sæla að þurfa ekki að hírast inni á bás á loftlausri skrifstofu.

En hvar er hægt að sækja um þessi draumastörf? Vefsíðan Remote Job Lists (www.remotejoblists.com) fór nýlega í loftið til að leysa einmitt þennan vanda.

Vefsíðan notar gervigreind til að skima daglega atvinnuauglýsingar hér og þar á netinu og vinsar út fjarvinnustörfin. Notendur geta síðan leitað eftir lykilorðum og þrengt niðurstöðurnar eftir ýmsum skilyrðum til að finna starf sem hentar. Þá má fá sendar tilkynningar í tölvupósti þegar Remote Job List kemur auga á áhugaverða lausa stöðu.

Áður en lesendur ViðskiptaMoggans fara að hugsa sér til hreyfings er rétt að taka fram að leitarvélin virðist aðeins bjóða upp á störf hjá bandarískum vinnuveitendum, og því líklegt að gerð sé krafa um að umsækjendur hafi atvinnuleyfi eða séu svo heppnir að hafa bandarískt vegabréf.

ai@mbl.is