Sendiherra Ísraels á Íslandi, sem hefur aðsetur í Noregi, óskaði eftir því að koma á fund allsherjar- og menntamálanefndar vegna frumvarpsins.

Sendiherra Ísraels á Íslandi, sem hefur aðsetur í Noregi, óskaði eftir því að koma á fund allsherjar- og menntamálanefndar vegna frumvarpsins. Því var hafnað að sögn Páls Magnússonar, formanns nefndarinnar, í ljósi hefðar um hvernig þingnefndir taka óskum erindreka erlendra ríkja. Páll Magnússon og Guðmundur Andri Thorsson, varaformaður nefndarinnar, munu hins vegar hitta sendiherrann og veita honum áheyrn en áhyggjur sendiherrans snúa m.a. að því að hér á landi sé ekki formlegt eða skipulagt samfélag gyðinga.

Umsagnarfrestur við frumvarpið rennur út 28. mars og segir Páll að allar umsagnirnar verði teknar saman þegar fresturinn er liðinn og farið yfir þær. Í kjölfarið verður ákveðið hverjum verður boðið á fund nefndarinnar. „Við förum yfir allt sem varðar málið,“ segir Páll sem bætir við að málið sé margslungið og því verði að vanda til verka. „Þetta er ekki bara heilbrigðismál heldur trúarlegt mál, tilfinningamál og menningarsögulegt mál sem snertir svo óskaplega marga strengi.“