Ólafur Eiríkur Þórðarson fæddist í Fagrahvammi í Garði 4. apríl 1943. Hann lést 13. mars 2018.
Foreldrar hans voru hjónin Sveinbjörg Rannveig Sveinbjörnsdóttir, f. 13. nóvember 1915, d. 30. ágúst 1990, frá Eiði í Garði og Þórður Sigursteinn Jörgensson, f. 1. september 1909, d. 17. febrúar 1984, frá Hjallakróki í Ölfusi. Systkini Ólafs eru: Halldór Sveinbjörn, f. 17. september 1941, d. 1. júlí 2007. Anna, f. 1. apríl 1946. Jórunn Jóhanna, f. 16. ágúst 1947. Marta, f. 15. nóvember 1948, d. 8. janúar 2014. Ingibjörg Þorgerður, f. 25. júlí 1951. Hafliði, f. 9. mars 1954. Birna, f. 11. apríl 1956. Ólafur átti fósturbróður, Magnús Gíslason, f. 5. ágúst 1932, d. 6. júní 2013.
Ólafur kvæntist 15. desember 1963 Álfheiði Skarphéðinsdóttur, f. 22. janúar 1945. Foreldrar hennar voru Guðrún Guðmundsdóttir, f. 27. júlí 1914, d. 27. febrúar 1983, og Skarphéðinn Jóhannsson, f. 5. nóvember 1919, d. 18. janúar 2005.
Synir Ólafs og Álfheiðar eru: 1) Skarphéðinn Rúnar Ólafsson, f. 8. nóvember 1963, d. 8. mars 1989, 2) Þórður Jörgen Ólafsson, f. 21. maí 1966, kona hans er Kimberly Ólafsson, f. 30. júlí 1966. Börn þeirra eru a) Sævar Þórðarson, f. 13. júlí 1984, kona hans er Christina Þórðarson, f. 9. desember 1986, börn þeirra eru Tyler, f. 3. október 2006, Særún, f. 10. september 2009, og Thor, f. 18. nóvember 2010. b) Ólöf Rún Þórðardóttir, f. 2. maí 1989, maður hennar er Dan Leising, f. 10. apríl 1989. 3) Björn Árni Ólafsson, f. 25. apríl 1974, kona hans er Kristbjörg Marta Jónsdóttir, f. 13. nóvember 1972, börn þeirra eru a) Marta Líf Bjarnardóttir, f. 18. júní 2002, b) Eldey Gígja Bjarnardóttir, f. 3. janúar 2008, c) Skarphéðinn Ármann Bjarnarson, f. 16. september 2010. 4) Ástmar Ólafsson, f. 18. desember 1980, d. 17. júlí 2001.
Ólafur tók gagnfræðapróf frá Núpi í Dýrafirði árið 1959. Hann útskrifaðist sem vélstjóri 1964 og var vélstjóri á ýmsum bátum 1964-1968 og aftur árin 1972-1975. Einnig vann hann við húsasmíðar hjá Skarphéðni Jóhannssyni tengdaföður sínum. Hann tók sveinspróf í húsasmíði 1975. Ólafur var lengst af vélstjóri á Keflvíkingi KE-100.
Ólafur og Álfheiður bjuggu á Hæðargötu 5 á meðan þau byggðu hús sitt á Hæðargötu 3. Á Hæðargötu 3 bjuggu þau síðan saman alla tíð. Ólafur tók þátt í starfi UMFN og Framsóknarflokksins, á þeim vettvangi áttu íþrótta- og æskulýðsmál hug hans.
Útför Ólafs fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 22. mars 2018, klukkan 15.
Elsku tengdapabbi.
Þú tókst mér opnum örmum frá byrjun, þú varst alltaf að gantast og segja frá og þannig var það fram á síðasta dag.
Ég kallaði þig alltaf Ólaf en þú baðst mig um að kalla þig Óla. Annars fannst þér eins og ég væri að skamma þig.
Ég dáðist oft að hvað þú varst skapgóður, það var sama hvort einhver var pirraður í kringum þig, þér tókst alltaf að halda ró þinni. Þetta er eitthvað sem ég reyni að kenna börnunum mínum, barnabörnunum þínum. Þegar það kom í ljós að Marta Líf okkar væri eins einstök og hún er þá tókuð þið Álfheiður strax vel í það að vera stuðningsfjölskylda hennar. Þær eru ófáar stundirnar sem hún hefur átt með ykkur. Hún elskaði að fara til ykkar og hefði örugglega viljað búa þar á stundum. Þú varst alltaf duglegur að leika við hana, fara með hana í bíltúra, skoða merka staði á Suðurnesjunum og auðvitað að kaupa ís. Þetta er eitthvað sem hún á alltaf eftir að búa að og hún man þetta svo sannarlega ennþá. Eldey Gígja elskaði að búa til skyrgraut með þér þegar hún var hjá ykkur en það er besti grautur sem hún hefur fengið og Skarphéðinn okkar er enn að tala um bátana sem hann smíðaði með þér úti í bílskúr og þið áttuð bara eftir að mála einn þeirra.
Þetta eru allt minningar sem þau eiga um þig vegna þess hve þú varst iðinn við að gera skemmtilega hluti með þeim og vildir að þeim liði vel.
Elsku tengdapabbi, takk fyrir að vera alltaf til staðar þegar á þurfti að halda. Þú varst kletturinn í fjölskyldunni. Við skulum passa vel upp á Álfheiði okkar.
Farðu í friði og ég bið að heilsa strákunum þínum.
Kristbjörg Marta Jónsdóttir.
Þú og Álfa amma voruð alltaf svo góð við mig. Þið voruð stuðningsfjölskyldan mín í 10 ár og voruð amma mín og afi minn í rúm 15 ár. Þið voruð svo þolinmóð. Ef ég vildi heyra sama lagið aftur og aftur þá var það í lagi. Ef ég vildi skoða sömu staðina aftur og aftur þá var það í lagi. Takk fyrir að fara með mig í Skessuhelli. Takk fyrir að fara með mig í sund. Takk fyrir að sýna mér landnámsdýrin. Takk fyrir að fara með mig út um allt í heimsóknir til vina ykkar. Takk fyrir að syngja fyrir mig. Takk fyrir ferðirnar um Suðurnesin og sérstaklega í Garðinn. Takk fyrir sögurnar ykkar og sönginn. Takk fyrir að fara með mig til Bandaríkjanna. Takk fyrir að koma með mér a sumarhátíðirnar hjá CP-félaginu. Takk fyrir að mæta með mér á lokaböllin í Reykjadal. Takk fyrir að hafa tekið mér eins og ég er. Takk fyrir að gera líf mitt betra. Takk fyrir að hafa verið amma mín og afi. Takk fyrir allar minningarnar, ég gleymi ykkur aldrei. Ég mun passa ömmu og vera þolinmóð við hana eins og þið voruð við mig.
Afi söng fyrir mig Klappa saman lófunum en breytti lokalínunni, hann vildi ekki tína egg úr spóunum:
Klappa saman lófunum,
reka féð úr móunum,
tölta á eftir tófunum,
og telja þær á rófunum.
Marta Líf Bjarnardóttir.
Óli var þrettán árum og viku eldri en ég, ef hann átti afmæli á sunnudegi þá átti ég afmæli næsta sunnudag á eftir. Alltaf hringdi hann í mig og óskaði mér til hamingju með afmælisdaginn minn.
Líklega hef ég verið um tveggja ára aldur og hann fimmtán þegar hann fór á Núp í skóla og á sumrin á sjóinn. Óli kom lítið sem ekkert heim eftir það. Hann byrjaði snemma að búa.
Sóst var eftir nafna í draumi þegar mamma gekk með Óla, en ekkert varð af þeirri nafngift. Fimm börnum seinna kom að Birni, ég ber nafnið sem Óli átti að bera og svo kom hann með Björn.
Við vorum systkinin sem áttum bara stráka, sex samtals . Sá yngsti af þeim fæddist á Selfossi á mjög snjóþungum degi í janúarmánuði svo vart var fært á milli húsa. Óli og Álfheiður komu keyrandi úr Njarðvík til að heimsækja mig í öllum snjónum og færðu mér hlýjan og fallegan útigalla á Tóta litla.
Óli og Tóti voru víkingar, líkir í háttum, ljósir yfirlitum, háværir, með góða matarlyst og miklir vinir. Eitt sinn bað strákurinn frænda sinn um að keyra sig og dömu, í Corvettunni, á tíundabekkjar lokaball. Óli var sko til. Allar limósíur féllu í skuggann þegar Corvettunni var straujað inn eftir Stapaplaninu með alvöru kaggahljóði.
„Hvað er að frétta af Tóta?“ spurði Óli daginn áður en hann kvaddi. Tóti er í námi í Lundi og verður fjarri þegar Óli verður jarðaður.
Óli og Álfa komu oft til okkar Gunna og eftir að kaffið og kexið var komið á borðið byrjaði spjallið. Við systkinin héldum orðinu en þegar athyglin fór í að dýfa kexinu í kaffið hægðist á okkur og makarnir tóku við. Þá rifjuðu þau upp dagana í Offíseraklúbbnum, en þar unnu þau saman um tíma.
Eitt sinn hittumst við Óli hjá mömmu. Ég hafði verið að kaupa innréttingu í eldhúsið og ætlaði ég að drífa mig heim til að rífa þá gömlu niður. Þá sagði hann: „Hvernig ferðu að með vatnið?“ Með þessum orðum var hann komin í heilsdags hjálparstarf. Þarna var gott að eiga stóra bróður.
Allra síðustu daga hitti ég hann á hverjum degi. Fór í kaffitímanum yfir í næsta hús á spítalann. Óli hafði beðið mig um smá greiða daginn áður og ég kom snemma daginn eftir til að segja honum að hann hefði gengið upp. Óli kvaddi stuttu eftir að ég kom á spítalann.
Nú þegar hef skrifað þetta er ég að hlusta á Everybody Hurts með R.E.M. og hugsa til Óla og Álfheiðar þegar þau misstu drengina sína, þá þurftu þau að halda áfram. „Hold On“ eins og segir í laginu.
Birna.
Karlmennskan efldist við keipinn og löngunina til að verða fullgildur sjómaður, annað stóð aldrei til. Já, sjómennskan „meitlaði svip og stældi kjark“.
Óli var hraustmenni til líkama og sálar, þó aldrei sæist hann reyna að neyta aflsmunar eða að troða einhverjum um tær, enda naut hann trausts samferðamanna sinna. Hann kynntist ungur að árum æskuást sinni Álfheiði Skarphéðinsdóttur úr Njarðvíkum og þar bjuggu þau alla sína búskapartíð. Við sem þetta skrifum byggðum okkur öll hús við sömu götuna ásamt Óla og Álfheiði á sjöunda áratugnum og hafa góð vináttutengsl verið með okkur öllum síðan. Hann var ekki aðeins sjómaður, heldur skrapp hann stundum í land og lauk þá námi í húsasmíði og pípulögnum, ásamt námi í vélstjórn, sem hann nýtti þegar hann var til sjós, enda var hann í innsta eðli sínu sjómaður og unni sjómennsku alla tíð.
Þau hjónin eignuðust fjóra mannvænlega drengi, sem allir drógu dám af foreldrum sínum, hver á sinn hátt. En þó að Óli hafi alltaf hrifist af sjónum og því sem þar að laut þá fór Ægir konungur mjög óblíðum höndum um þau hjónin þegar hann hrifsaði til sín bæði elsta soninn, Skarphéðin, og þann yngsta, Ástmar, báða á besta aldri og má nærri geta hvort slíkur harmur og áfall hefur ekki sorfið inn að kviku þeirra hjóna. En aldrei heyrðist eitt einasta gremju- eða reiðiorð af vörum þeirra, þá var reyndar eitthvað sem nú kallast áfallahjálp ekkert í orðabókinni. Þau unnu bara úr þessu, hvort á sinn hátt að því er okkur virtist. Óli bjó sér til hjúp sem fólst í glettni og stríðni og oft tókst honum að láta blóð viðmælandans renna örar og þá var tilganginum náð, ekki gert til að særa neinn, enda gerði hann oftast mest grín að sjálfum sér og kom öðrum til að brosa. Við vinir og nágrannar þeirra höfum oft hugsað sem svo, úr hverju er svona fólk byggt, sem hefur slíkar taugar og sýnir slíkt æðruleysi í öllu því mikla mótlæti sem þau hjónin hafa mætt á lífsleiðinni? Það má kannski segja um lífshlaup þeirra nú, þegar Óli hefur kvatt þetta jarðlíf eftir hetjulega baráttu við illvígan sjúkdóm og Álfheiður þrotin að kröftum og heilsu, komin á sjúkrastofnun: „Bognuðu aldrei, en brotnuðu í bylnum stóra seinast“. Við vinirnir drúpum höfði í minningu góðs granna og vinar.
Við vottum eftirlifandi sonum þeirra Þórði og Birni Árna ásamt fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð og biðjum almættið að vernda þau öll um ókomin ár.
Sigríður (Sigga) og Þórhallur (Halli), Svala og Hilmar, Eygló og Ragnar, Þóra Harðar.