Ríkisstjórnin hefur ekki kjark til þess að leiðrétta þá óhæfu sem mikill munur á kjörum alþingismanna og forstöðumanna stofnana ríkisins, skv. ákvörðun kjararáðs, og launafólks hins vegar er. Þetta segir í ályktun sem stjórn Landssambands íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) samþykkti í gær. Þar er mótmælt því sem kallað er sjálftaka launa meðal stjórnenda í fyrirtækjum sem hafi farið af stað þegar kjararáð gaf tóninn.
Þar er minnt á að á sama tíma sé haldið að launafólki að vera hófstillt í launakröfum til þess að viðhalda stöðugleika. Stöðugleiki sé hins vegar ekki til staðar hjá íslensku launafólki sem þurfi á sama tíma að takast á við skerðingar barna- og vaxtabóta og raunlækkun á persónuafslætti sem ekki fylgir launaþróun og hafi ekki gert lengi.
„Slík ögrun verður ekki liðin og mun valda upplausn á almennum vinnumarkaði verði ekkert að gert.
Stjórn LÍV skorar á stjórnvöld og stjórnir lífeyrissjóða að vinda ofan af þessari þróun aukinnar misskiptingar,“ segir í ályktuninni sem allt helsta forystufólk verslunarmannafélaganna skrifar undir.